„Það er svo gaman að eldast,“ heyri ég oft sagt. Þessi fullyrðing hefur alla jafna farið inn í annað eyrað og út um hitt og ekki valdið mér miklum heilabrotum. Um daginn lagði ég þó við hlustir þegar þetta var sagt við mig og ég hugsaði með sjálfum mér „er gaman að eldast?“
Eftir smá umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Ég meina, af hverju segir fólk þetta? Er um að ræða einhverja naíva jákvæðni sem byggist á þeirri kröfu nútímans að allt eigi að vera skemmtilegt og gaman – að lífið eigi að vera einn hamingjudans frá upphafi til enda?
Ein sígild spurning sem allir Íslendingar fá þegar þeir hitta einhvern á förnum vegi, áður en umræða um veðrið hefst, er „hvernig hefur þú það?“ Ég á það til að svara sem svo að ég hafi vaknað þann morguninn og það sé ávallt jákvætt – og vissulega er betra að vakna lifandi frekar en dauður. Að það sé tilhlökkunarefni hér á landi, eða annars staðar, að eldast stenst ekki skoðun að mínu mati.
Allir eldast, það er hægfara dauðdagi sem hefst við fæðingu, fyrir kemur að óvænt utanaðkomandi, ónáttúruleg atvik taka fram fyrir hendur náttúrunnar og lífsneistinn slökknar fyrr en ætlað var. Ef fólk er „lánsamt“ tekst því að tóra fram í rauðan dauðann – verða aldrað, gamalt. Og það er sagt vera voða gaman.
Það er nefnilega svo skemmtilegt að sjá fram á að missa mögulega heyrn, sjón, getu til að hreyfa sig, getu til að skeina sig og þrífa og getu til svo margs annars. Að sitja inni á herbergi sínu á elliheimili (nú er ég ekki viss um hvort megi nota þetta orð), bíða eftir bakkamatnum sem er bragðlaus og torkennilegur á að líta og sennilega naumt skammtaður – það er lífið!
Ég er reyndar ekki kominn á þann stað enn sem komið er og kemst kannski aldrei, því það er dauðans alvara að fara fram úr á morgnana.
Vissulega má segja að það að eldast sé skárri kostur en hinn. Ég segi þó stundum, reyndar í hálfkæringi, að það sé jákvætt að ég eigi ekki eftir nema kannski 20 ár og ef ég verði heppinn þá muni ég ekkert vita af þeim síðustu tíu.
Mér finnst einfaldlega ekkert gaman að eldast.
Smelltu hér til að lesa brakandi og feskt helgarblað Mannlífs eða flettu því hér fyrir neðan: