Almannavarnir sendu frá sér tilkynningu þar sem segir að búist sé við mikilli úrkomu á Austurlandi frá því aðfaranótt mánudags og fram á miðvikudagsmorgun.
Því gæti komið til rýmingar húsa undir Botnabrún á Seyðisfirði; í nágrenni við stóra skriðusárið frá því í desember 2020. Enn er ekki ljóst hversu viðamikil rýmingin yrði, en ákvörðun um það verður tekin á sunnudaginn.
Samkvæmt veðurspá byrjar að rigna hressilega á Austurlandi á mánudagsmorgun en í tilkynningu Almannavarna er nefnt að uppsöfnuð úrkoma þessa daga gæti orðið 100-120 millimetrar.
Eins og við mátti búast eru íbúar á Seyðisfirði beðnir um að fylgjast mjög vel með veðurspá og fréttatilkynningum á sunnudaginn.