Sædís Ýr Jónasdóttir er athyglisverður fatahönnuður sem útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands í fyrra. Föt hennar hafa vakið athygli – enda glæsileg og litrík enda leggur Sædís mikið upp úr lífsgleði og glamúr í hönnun sinni.
Hún fær hugmyndir “að sniðum, litum og munstrum daglega frá umhverfinu allt í kringum í mig. Hugmyndirnar mínar eru alla jafna mjög djarfar og þarf því iðulega að kúpla mig niður því það eru eflaust fáir eins og ég; ég er svoddan frík. Ég elska fátt meira en að sjá fötin mín lifna við á fólki, það fyllir hjarta mitt af stolti og hamingju.“
En nöfnin á flíkunum eru hins vegar í óvenjulegri kantinum, og bera heitin Tussa, Mella og Kuntubjúga.
„Ég hugsaði mikið um hvað ég ætti að skíra sniðin mín og fór í nokkur heilaheljarstökk fram og til baka. Mágur minn stakk svo upp á því að taka niðrandi orð sem notuð eru um fólk, til baka. Þessi orð eru svo oft notuð til þess að brjóta okkur niður og það er svo brenglað hvað þessi orð geta farið fyrir brjóstið á manni. Í þetta skiptið tók ég til orð sem ég hef verið kölluð, hef tekið inn á mig og er að skila þeim til baka, fyrir mig og aðra í kringum mig, fyrir þig og mig. Við erum sterkari en við höldum.“