„Hold og líkami hafa alla tíð verið mér mjög hugleikin í listinni og lít ég mikið til sögu málverksins út frá því, allt frá Titian og Rembrandt til þess sem er verið að gera í dag,“ segir hinn góðkunni myndlistarmaður Bjarni Sigurbjörnsson sem við hittum í sérlega ánægjulegu og einlægu spjalli.
Bjarni hefur upp á síðkastið fengist við verkefni sem hann kallar Hugarhold, fagurræði og líkamsvitund. Verkefnið samstendur af sex stórum verkum sem er um þrír metrar á kant ásamt fleiri smærri verkum. Einnig er í smíðum bók með viðtölum sem hann hefur tekið við valda einstaklinga með ólík sérsvið; hjartaskurðlækni, prest, sálfræðing, heimspeking, jógagúru og listfræðing „sem allir eru með einum eða öðrum hætti að fást við tilgang og merkingu okkar vitundarlífs sem líkamsverur og hvernig fagurfræðileg gildi tvinnast inn í það.“
Áhugavert að vera með myndir innan úr mér
Bjarni greindist með hjartabilun í byrjun árs 2020 og fór í ýmsar rannsóknir og þar á meðal segulómmyndir af brjóstholi.
„Ég fékk leyfi til að fá þessar myndir í tölvutæku formi og mér fannst myndirnar einstaklega spennandi. Einnig fannst mér áhugavert að vera með myndir innan úr mér, sem ég gæti að öðrum kosti aldrei séð. Það sem kemur upp í hugann eru spurningar eins og hver er ég?
Hvert er mitt innsta eðli og hvað veldur því að við getum í raun ekki séð inn í okkar eigin líkama? Og þar af leiðandi minn líkama. Er ég þá ekki að aðskilja líkamann að vissu leyti frá „sjálfum“ mér?“
Segulómmyndir nást með því að dæla svokölluðu skuggaefni inn í líkamann og þannig má segja að í gegnum skuggaefni teiknist líffærin fram. Það að teikna eitthvað fram með skugga og það að skera inn í það sem; „ég kalla hold heimsins, (hugtak tekið frá Marleu Ponty – „Flesh of the World“).
Bjarni segir að fyrir honum sé málarinn einhver sem skynjar með líkamanum og er málverkið holdgervingur athafna málarans. Málarinn ljær heiminum líkama sinn og breytir heiminum í málverk.
„Þótt verk mín séu iðulega skilgreind sem abstrakt og að þar sé ekki að finna fígurasjón, þá eru verkin frekar fyrir mér eins og líkamar án skilgreininga. Þar sem hefðbundin tengsl bakgrunns og forgrunns í hefðbundnu fíguratífu málverki hverfa. Hin hreina huglægni abstraktsins á ekki við þar sem líkaminn er alltaf til staðar.“
Frjáls andi skólans
Bjarni er búsettur í Kópavogi þar sem hann starfrækir vinnustofu samhliða listinni. Hann heldur úti námskeiðum í myndlist ásamt konu sinni, Ragnheiði Guðmundsdóttur, starfandi myndlistarmanni.
Bjarni fór til Kaliforníu í nám í myndlist, nánar til tekið San Francisco Art Institute, eftir nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Hann var í San Francisco árin 1990-1996 og útskrifaðist þaðan með bæði BFA- og MFA-gráðu í myndlist.
„Frjáls andi skólans, sem um leið var mjög beittur þegar kom að gagnrýni og allri umræðu um listir, var gott veganesti fyrir þau sjálfstæðu vinnubrögð og skipulag sem listamaður þarf að tileinka sér.“
Þegar hann kom aftur heim byrjaði sýningarhald á fullu og hefur hann unnið mikið með stórar flæðandi myndir málaðar á plexigler og vildi með því losa málverkið frá blindrammanum og fletinum.
„Spurningar um viðfang, form og aðferðarfræði hafa alla tíð verið stór þáttur í listrænu ferli mínu, bæði í þróun verkanna og mín sem listamanns. Með því að brjóta upp hefðbundin efnistök og finna nýjar leiðir að því sem málverk stendur fyrir, bæði sem hlutur og vettvangur hugrenninga og tjáningar.“
Vettvangur þess að lifa án öryggisnets
Blaðamaður spyr hvað hafi orðið til þess að hann hafi farið þessa leið, þá segir Bjarni: „Það var ekki eitthvað sérstakt sem varð til þess að ég fór að vinna eða helga mig listinni. Það var frekar þannig að það var og er hjá mér knýjandi þörf að fást við skapandi verksvið þar sem ég er ekki að vinna inn í ákveðinn fyrirframgefnum ramma eða samfélagslegu regluverki. Mér fannst heillandi allt frá því ég var barn og unglingur að kanna mörk þeirra gilda sem við gefum okkur og tilgang þess að vera til. Ég átti erfitt með að sjá tilgang í því að lífið væri einungis fólgið í því að vinna fyrir sér til að viðhalda sjálfum sér og því samfélagi sem maður fæðist inn í, eftir þeim kerfum sem til staðar eru og er að vissu leyti þröngvað upp á þig strax við komu þína í heiminn. Listin er vettvangur þess að lifa án öryggisnets hins fyrirframgefna og umskapa sig í sífellu gegnum skapandi ferli.“
Bjarni hefur starfað lengi innan myndlistarheimsins og segir fátt koma sér á óvart lengur.
„Ég hef verið samofinn myndlistarheiminum alla tíð og má segja að í öllum þeim fyrirheitum um frelsi sem list gefur sig út fyrir að vera, þá er listheimurinn ekki síður en önnur svið gegnsýrður af kenjóttu reglukerfi þeirra stofnana og samtaka sem kenna sig við listir. Á móti tel ég það svo vera, að það að fást við listsköpun sé allt annað en það að koma sér á framfæri innan listheimsins.“
Hafa fegurðina að leiðarljósi
Hann er stoltastur af börnunum og fjölskyldu, „en ef við tökum það frá, þá er ég í sjálfu sér stoltastur af því að standa fyrir það viðhorf sem ég hef fylgt í gegnum lífið. Að lifa hinu fagurfræðilega lífi og hafa fegurðina að leiðarljósi í stað hins skynsama. Sumir eru kannski á öndverðum meiði um að skynsemi sé andstæð fegurð.“
Bjarni rifjar upp erfiðar stundir þegar Gulli, bróðir hans, dó aðeins 32 ára að aldri eftir erfiða baráttu fyrir sinni líkamstilvist.
„Hann var mér alltaf mikil hvatning í listinni og hafði óbilandi trú á því sem ég var að gera. Það var erfitt að vera hinum megin á hnettinum í námi stóran part af þeim tíma þegar hann var að fara í gegnum hvert áfallið á fætur öðru í veikindunum sem drógu hann síðar til dauða. Að koma síðan heim og horfa á hann læsast sífellt fastar inni í hrjáðu holdinu, það risti mig djúpt og ætli það sé ekki partur af því hversu upptekinn ég hef verið af líkamlegri tilvist okkar.“
Þarna kom listin sterk inn og var hans öflugasta tæki til að vinna sig úr þessu áfalli, sem varð síðar að sýningu sem nefndist Biðstofan, með vísun í beðið eftir Godot eftir Beckett.
„Listin er sífelld áskorun og í því felst galdurinn. Hún er ekki eitt sértækt verkefni heldur flæði milli áfangastaða. Áfangastaðirnir eru þá þær sýningar eða verkefni sem leiða mann áfram. Þannig að fyrir mér snýr þetta ekki að því að fá verkefni heldur rými til framkvæmdar. Verkefnin og viðföngin spretta fram við hverja framkvæmd.“
Eftirminnilegar stundir á ferlinum
„Þegar ég hugsa til baka yfir lífið og ferilinn kemur svo margt eftirminnilegt í hugann og erfitt að taka eitthvað sérstakt út.
Það má segja að þegar maður er yngri þá hafi hlutir og reynsla meira mótandi áhrif á mann. Þar má nefna þriggja mánaða ferð mína til Mið-Austurlanda með viðkomu á stöðum eins og Petru, Jerúsalem og Egyptaland, þar sem ég stalst til að brölta upp á pýramída um miðja nótt, eða það að fara upp á fjall Móses í dagrenningu. Einnig er margt eftirminnilegt við dvöl mína í San Francisco og öll þau ferðalög sem ég fór í um Bandaríkin á þeim tíma. Kannski líka þegar ég gerði verkið Hugrekki fyrir Kristnihátíð árið 2000 en það fylgdi því mikið umstang að koma upp 20 metra háu verkinu án þess að koma nokkrum tækjum að, síðan þegar verkið var uppkomið í gjánni þá reið jarðskjálfti yfir stuttu síðar, en sem betur fer stóð verkið hann af sér. Sýningin Ekkert í Hafnarborg, risaverk sem gert var fyrir sýninguna Mynd sem var í Henie Onstad, síðan Hafnarhúsinu. Svo má líka nefna verkefnin sem ég gerði fyrir hótel í Las Vegas svo eitthvað sé nefnt.“
Verkefnið Hugarhold á líkama og huga á hins vegar allan hans huga þessa stundina og næst á döfinni hjá Bjarna er að koma því á framfæri sem sýningu og útgáfu.
„Þetta snýst um að vinna með lífið og tilvistina. Þær upplifanir sem hafa veruleg áhrif á mann og öll þau fallegu átök sem lífinu fylgja með því að líkamna þetta í málverki.“
Endurbirt. Viðtalið birtist fyrst í Mannlífi 30. október 2021.