Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

„Ég fann í hjarta mínu að ég var kominn heim“- Bjarni starfaði við skúringar samhliða náminu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það erfiðasta sem ég hef farið í gegnum, var að hætta í starfinu á sínum tíma og fara aftur í nám og vinna mig upp aftur og endurskapa einhvers konar feril í lífi mínu. Það var gaman, en erfitt samt sem áður. Ég tók ekkert lán með náminu, starfaði við skúringar í tíu ár samhliða því og fyrstu árin sem listamaður. Ég er stoltur af þessu í dag, því þarna sannaði ég fyrir sjálfum mér að seigla og trú á sjálfan sig borgar sig.“

Bjarni Sigurðsson keramiker hefur komið sér vel fyrir með vinnustofu sína í Hafnarfirði og hefur heldur betur gert það gott innan leirlistarheimsins. Okkur lék forvitni á að vita aðeins meira um þennan flotta keramiker.

Sjálfsaginn og sköpunargleðin
Bjarni fæddist í Vesturbænum árið 1965 og er einn af 10 systkinum. Eftir að hann kláraði verslunarbraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, starfaði hann um nokkurt skeið sem verslunarmaður eða þar til hann hóf störf hjá Búnaðarbanka Íslands og var þar í tæp sjö ár. Síðustu ár sín hjá Búnaðarbankanum sótti hann ýmis námskeið hjá Myndlistaskóla Reykjavíkur og kviknaði þar leirlistarbakterían fyrir alvöru.

„Sjálfsaginn og sköpunargleðin hefur komið mér mest á óvart í þessu öllu saman. Ég hlakka til að fara á vinnustofuna mína hvern einasta dag og fyrir það er ég óendanlega þakklátur. Ég passa mikið upp á að endurnýja mig reglulega, skapa ný form og gera stöðugt tilraunir með nýjan glerung. Enn þann dag í dag pensla ég hvern einasta hlut sem ég geri, oft með tvenns konar glerungi, stundum fleiri. Þetta gerir glerunginn svo lifandi.“

Hans helstu áskoranir eru að skapa ný form, þróa tækni við gerð listmuna og búa til nýjan glerung.

„Ég er sífellt að breyta og bæta og það þarf mikla þolinmæði og bjartsýni til að halda áfram, því glerungur getur verið eins og óþekk börn sem hlýða bara þegar þeim sýnist. Eftir að hafa rannsakað og unnið með glerung í yfir 20 ár, hafa áskoranirnar við hann þó í auknum mæli breyst í leik. Í mínum huga er skilningur og færni í glerungsvinnslu einn af aðalþáttum þess að skapa leirlist.“

- Auglýsing -

Kom út úr skápnum og hitti sinn maka
Bjarni er að sjálfsögðu ánægður að hafa komið út úr skápnum á sínum tíma og hitt maka sinn, sem fylgt hefur honum í gegnum lífið í meira en aldarfjórðung.

„Það er hvatningu hans að þakka að ég fékk kjarkinn á sínum tíma til þess að fara og sækja listanámskeið. Hvorugan okkar óraði fyrir því að listin ætti eftir að verða mitt lifibrauð og yndi.

Ástæðan fyrir því að ég valdi leirinn sem listgrein er sú að Ragnhildur Stefánsdóttir myndlistarkona kenndi mér í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Eitt kvöldið sagði hún okkur að við ættum að vinna með leir, hnoða fimm kíló af honum og gera eitthvað úr honum. Það gerðist eitthvað ólýsanlegt innra með mér um leið og ég snerti leirinn og fór að hnoða. Ég gat ekki hætt að brosa og ég fann í hjarta mínu að ég var kominn heim. Ég sótti leirnámskeið á vinnustofu hér í Reykjavík og þar á eftir sótti ég um í Aarhus Kunstakademi í Danmörku og komst inn. Þar með sagði ég upp starfi mínu í bankanum og hóf nám í keramikinu árið 1996, sem ég síðan útskrifaðist úr árið 2000.“

- Auglýsing -

Skemmtilegt og sérstaklega eftirminnilegt
Það sem honum hefur þótt eftirminnilegast er þegar hann var að koma sér á framfæri eftir nám. Hann ferðaðist um alla Danmörku og kynnti sig, með möppuna sína með myndum af þeim verkum sem hann hafði gert þá stundina. Hann heimsótti gallerí og verslanir, en á þessum tíma voru ekki komnir til sögunnar þeir samfélagsmiðlar sem við þekkjum í dag.

„Þetta var skemmtileg vinna og eftirminnilegt fyrir þær sakir að maður kynntist ótrúlega mörgu fólki og stöðum, sem sumir hverjir heyra sögunni til. Þess má geta að ég var að koma mér aftur í kynni við einn galleríeiganda fyrir nokkrum vikum í Danmörku, sem ég mun heimsækja næst þegar ég heimsæki Danmörku. Hún hafði það mikla trú á mér að hún bauð mér að sýna hjá sér tvisvar á meðan ég var enn í námi.“

Jólamarkaðurinn 18.–21. nóvember
Það sem er á döfinni hjá Bjarna er að sinna öllum þeim beiðnum sem honum hafa borist bæði frá Danmörku og Bandaríkjunum. Hann er nú þegar á mörgum stöðum í Danmörku, en umboðsaðili hans í Danmörku er að vinna að því að koma honum á norska og sænska markaðinn, en nú þegar eru tveir aðilar sem vilja fá að vinna með honum í Svíþjóð. Bjarni hefur líka verið duglegur að koma sér á framfæri á bandaríska markaðnum þar sem hann er að selja hjá ABC Home í New York og er nú þegar farinn að vinna með engum öðrum en veitingastaðnum Jean-George í New York.

Upp á síðkastið hefur hann verið að undirbúa jólamarkað sem hann er með árlega á vinnustofu sinni. Undirbúningur fyrir hann hefst um páskaleytið, enda orðinn stór og vel sóttur. Á sama tíma hefur hann unnið með nýjum söluaðilum í Bandaríkjunum, bæði í New York og Los Angeles. Það er stöðug vinna að sinna öllum söluaðilum í Danmörku og hann segist ekki anna eftirspurn. Hér heima hefur hann verið í mikilli og spennandi vinnu með Rammagerðinni, sem eflist og verður spennandi að sjá hvert sú samvinna fer.

Jólamarkaðurinn er haldinn 18.–21. nóvember og er opið alla dagana frá klukkan 10 til 18. Á markaðnum verða einungis nýir listmunir. Allir velkomnir og veitingar fyrir alla, börn sem fullorðna. Markaðurinn er haldinn á vinnustofu Bjarna að Hrauntungu 20 í Hafnarfirði. Vert er að taka fram að um er að ræða stærsta listamarkaður sem einstaklingur heldur hér á landi.

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -