Rétt fyrir klukkan 7 í gærkvöld var lögreglu tilkynnt um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur. Þolandinn var í miklu áfalli og með sjáanlega áverka á olnboga og mjöðm. Sagði hann fjóra menn hafa ráðist á sig en hann hafi hlaupið þá af sér. Sagði hann árásarmennina meðal annars hafa sparkað í höfuð sér. Lögregla rannsakar málið.
Um klukkustund síðar var maður handekinn í Laugardalnum. Samkvæmt tilkynningu hafði maðurinn sem var ölvaður, hrækt í átt að börnum í hverfinu og áreitt þau.
Þá hrækti maðurinn á lögregluþjón og neitaði að segja til nafns. Maðurinn var í kjölfarið keyrður niður á lögreglustöð þar sem hann gisti í klefa í nótt.
Ungur maður datt af rafskútu í Garðabæ rétt fyrir klukkan half tólf í gærkvöldi. Maðurinn var flutter til aðhlynningar á bráðadeild en var hann grunaður um ölvun.
Á sama tíma barst lögreglu tilkynning um útafakstur á Bláfjallavegi í Kópavogi. Bílstjórinn, sem var 17 ára hafði verið að taka fram úr bíl þegar hann missti stjórn á bíl sínum og keyrði út af veginum. Tveir farþegar voru í bílnum, annar þeirra 17 ára.
Kvörtuðu farþegar meðal annars yfir eymslum í baki og höfði og voru þau flutt á Bráðadeild. Foreldrum ökumannsins og annars farþegans var gert vart við slysið og tilkynning gerð til Barnaverndar.
Kveikt var í blaðagámi í Kópavogi í gærkvöldi. Sá sem tilkynnti eldinn hafði slökkt í með garðslöngu þegar Slökkviliðið mætti á vettvang. Slökkviliðið tryggði vettvang og líklegasta orsökin var skotkaka.