Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, segist halda að eldgosið sé á lokametrunum. Gosið í Fagradalsfjalli hófst 19. mars síðastliðinn og enn mælist örlítið streymi úr gígnum.
Rúmur mánuður er frá því að hraun rann síðast við fjallið en gosinu telst ekki lokið fyrr en eftir þriggja mánaða stopp hið minnsta. Má því ætla að gosinu teljist lokið fyrir jól ef staðan helst óbreytt.
„Að líkja eldgosinu við sjúkling sem er enn með lífsmarki en er í öndunarvél, er samlíking sem gæti átt við,“ sagði Þorvaldur í viðtali við Morgunblaðið.
Þá sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, að flestir bæjarbúar yrðu sáttir við lok gossins. Mengun og hætta hafi verið bagaleg þrátt fyrir að ferðaþjónusta hafi notið góðs af gosinu.
Kom það fram í frétt mbl.is sem má lesa í heild hér.