Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

Sunnefa – Dæmd fyrir blóðskömm, beið drekkingar í átján ár og bauð kvalara sínum birginn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svokallað Sunnefumál er eitt lengsta sakamál Íslandssögunnar. Það er kallað svo eftir Sunnefu Jónsdóttur, en hún var árið 1739 dæmd til dauða fyrir blóðskömm. Sunnefa var aðeins sextán ára, en hún hafði eignast barn með bróður sínum, Jóni Jónssyni, sem einnig var dæmdur til dauða. Jón var fjórtán ára. Þau systkini bjuggu á Borgarfirði eystri, ásamt móður sinni og stjúpföður.

Málið hefst þegar Sunnefa verður ófrísk og elur í framhaldinu barn, sem er óskilgetið. Hún er færð í yfirheyrslur hjá prestinum í sókninni og þar greinir hún frá því að bróðir hennar sé faðir barnsins.

Þau systkini eru þá færð í vörslu sýslumanns, Jens Wíum í Fljótsdal. Þar eru þau bæði dæmd til dauða fyrir blóðskömm. Jens lét lífið stuttu síðar og sonur hans, Hans Wíum, tók við sýslumannsembættinu.

 

Sunnefa eignast annað barn og ásakar sýslumann á Alþingi

Þegar Sunnefa og Jón hafa verið í fangavist í á þriðja ár, fæðir Sunnefa annað barn.

Eftir fæðinguna liggur Sunnefa mikið veik af bólusótt. Á meðan hún er fárveik yfirheyrir Hans Wíum hana einn síns liðs um faðerni barnsins. Sunnefa viðurkennir að Jón, bróðir hennar, sé einnig faðir annars barnsins.

- Auglýsing -

Hans réttar í framhaldinu yfir þeim báðum og dæmir þau til dauða í annað sinn, fyrir blóðskömm.

Þegar Sunnefa og Jón hafa setið í fangavist í á fjórða ár, þá nítján og sautján ára gömul, er farið með þau á Alþingi. Þar var dómurinn í fyrra málinu staðfestur, en allt ætlar um koll að keyra þegar Sunnefa upplýsir að það sé alls ekki bróðir hennar sem sé faðir seinna barnsins, heldur sýslumaðurinn sjálfur, Hans Wíum.

Hans hafði verið sýslumaður í Vestmannaeyjum áður en hann tók við embætti föður síns. Þar hafði hann átt tvö börn í lausaleik.

- Auglýsing -

 

Varðlið Hans Wíum

Sunnefa og Jón sátu í varðhaldi og biðu dauðadómsins í átján ár. Loksins stefndi í að þau yrðu endanlega sýknuð, en áður en þeim var sleppt dó Sunnefa Jóndóttir. Jóni Jónssyni var sleppt úr haldi og hann sendur úr landi.

Málið allt hefur verið talið mikill áfellisdómur yfir Hans Wíum. Í gegnum tíðina hafa þó afar margir varið hann og skellt sökinni á Sunnefu; sagt hann fórnarlamb lygasjúkrar konu sem reyndi að leggja mannorð hans í rúst. Eða að hún hafi dregið hann á tálar.

Aðrir hafa sagt að þarna hafi óvinir sýslumannsins verið að reyna að spinna upp lygar til þess að koma höggi á hann og Sunnefa hafi einungis verið peð í því valdatafli.

Lítið hefur verið sýnt fram á hlið Sunnefu í málinu öllu í gegnum tíðina.

Lengi vel var talið að Sunnefu hafi að lokum verið drekkt, en sú virðist ekki hafa verið raunin.

 

Rödd Sunnefu

Kristín Amalía Atladóttir var forsprakki sýningar sem sett var upp um Sunnefu í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs sumarið 2019.

„Ég verð þó að viðurkenna að ég skil ekki hvernig menn hafa getað varið Hans Wíum. Ég reyndi það, en kemst alltaf að sömu niðurstöðu. Það er varla hægt að líta fram hjá algjöru valdleysi kvenna sem ríkti á þessum tíma og á seinni tímum,“ sagði Kristín Amalía um mál Sunnefu í Fréttablaðinu á sínum tíma.

Kristín nefndi sem dæmi fullyrðingar um að Sunnefa hafi verið lauslát þar sem hún hafi eignast tvö börn utan hjónabands. Á sama tíma var Hans Wíum sagður hafa „lent í því óláni að eignast tvö börn fyrir hjónaband“. Svona var lengi vel fjallað um málið.

„Þetta er alls staðar og fer að stuða mann. Það er farið með konur og valdalitla karlmenn eins og minnihlutahópa,“ sagði Kristín meðal annars.

Í gögnum um Sunnefumál kemur meðal annars fram að systkinin hafi bæði verið notuð sem ókeypis vinnuafl hjá sýslumanninum eftir að þau voru dæmd.

„Þetta eru ólæsir unglingar gegn löglærðum embættismanni. Þau samþykkja öll lögfræðileg atriði sem Hans Wíum vill, enda vita þau ekkert hvað þau þýða. Það er ljóst af niðurstöðum dóma að embættismönnum mörgum hverjum hefur misboðið embættisfærslur Wíums og rangsleitni,“ sagði Kristín Amalía í viðtalinu við Fréttablaðið fyrir uppsetningu sýningarinnar. Eftir rannsókn sína á málinu taldi hún sig hafa fengið nokkuð góða mynd af sýslumanninum og líkaði ekki það sem hún sá.

„Annaðhvort er maðurinn algerlega vankunnandi í lögum og réttarfarsreglum svo jaðrar við hálfvitaskap eða hann vill þeim eitthvað illt“

Í seinni tíð hefur það jafnvel verið dregið í efa að Jón hafi verið faðir fyrra barns Sunnefu. Því hefur verið haldið fram að stjúpfaðirinn sé líklegri; að hann kunni að hafa brotið á Sunnefu. Hann var talinn hafa gifst móður systkinanna til þess að komast yfir bæinn. Ef hann hefði verið sóttur til saka, hefði ekki verið nokkur möguleiki á því að þau Sunnefa yrðu náðuð. Fæstir trúðu því hins vegar að Sunnefa og Jón yrðu dæmd til dauða, vegna þess hve ung þau voru.

 

Ef til vill ekki myrt, en ekki haldið á lífi

Sunnefa lést að öllum líkindum árið 1757. Hún hafði þá mátt þola slæman aðbúnað og þó hún hafi ef til vill ekki verið myrt, má leiða líkur að því að ekkert hafi verið gert til að halda henni á lífi.

Fjaðrafokið sem Sunnefa olli á Alþingi þegar hún sagði frá því að Hans Wíum væri faðir seinna barnsins, er sögulega mjög merkilegur atburður. Með því sýndi hún mikið hugrekki. Hún sagði frá því að sýslumaðurinn hefði neytt hana til þess að lýsa bróður hennar föður seinna barnsins.

Ekki einungis var Sunnefa að hefja upp raust sína og tala gegn embættismanni, heldur bar hún sakir á manninn sem hún var í fangavist hjá – og vissi vel að hún myndi þurfa að fara aftur til að þingi loknu.

Hún hefur því vitað vel hvers konar refsingar kynnu að bíða hennar þegar hún færi til baka í varðhald á Skriðuklaustur. Þrátt fyrir þetta allt sagði Sunnefa sögu sína á þingi og lét ekki þagga niður í sér.

Í átján ár beið Sunnefa Jónsdóttir eftir drekkingu, sem aldrei varð. Frelsið fékk hún heldur aldrei.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -