Sagt var frá þessu í hádegisfréttum Bylgjunnar og vitnað í Baldur Eiðsson, sem býr í Lindartúni í Landeyjum. Hrossin voru í hagagöngu í landi Skeggjastaða sem Baldur hefur til umráða. Skammt frá eru veiðilendur gæsaveiðimanna.
Baldur lýsti því að á föstudag í síðustu viku fór hann að athuga með hrossin. Þá finn hann tvö dauð hross í mýrinni. „Ég sé að það hefur blætt úr nösunum á þeim og þau hafa dottið niður dauð. Síðan í gær hitti ég nágranna minn og hann hafði þá stoppað menn helgina áður, þá sennilega menn í óleyfi,“ sagði hann við Bylgjuna.
„Ég er búinn að kæra þetta til lögreglunnar og hún hefur hafið rannsókn. Ég er búinn að fá dýralækni og hann staðfesti það líka, það eru engin ummerki um spark eða eitthvað slíkt“.