Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Gunnar Smári hjólar í útgerðirnar og lygina: „Meira og minna einkavinavætt til auðhringja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, tekur saman skiptingu útflutningsverðmæta loðnukvótans í nýjum pistli sínum.

Þar fer hann yfir skiptingu útflutningsverðmætanna milli útgerðarfyrirtækjanna sem eiga kvótann. Nú stefnir í stóra loðnuvertíð, eftir loðnubrest síðastliðin tvö ár. Komandi vertíð hefur verið metin á 50-70 milljarða króna í útflutningsverðmæti, sem eru um 1,5-2,0 prósent af landsframleiðslunni.

Gunnar Smári fer yfir skiptinguna:

„Loðnukvótinn fer til ellefu fyrirtækja. Ef við skiptum 60 milljarða útflutningsverðmæti á milli þeirra er skiptingin þessi:

Ísfélagið: 11.992 m.kr.
Brim: 10.800 m.kr.
Síldarvinnslan: 9.595 m.kr.
Vinnslustöðin: 7.397 m.kr.
Samherji: 5.517 m.kr.
Eskja: 5.284 m.kr.
Skinney-Þinganes: 4.882 m.kr.
Gjögur: 1.594 m.kr.
Runólfur Hallfreðsson: 1.500 m.kr.
Loðnuvinnslan: 1.050 m.kr.
Rammi: 390 m.kr.

Þarna sést að þrjú stærstu fyrirtækin eru með meira en helming af kvótanum, 63% ef maður telur Samherja og Síldarvinnsluna saman. Fjögur stærstu fyrirtækin eru með 75% af kvótanum og sex stærstu með yfir 90%. Svona er samþjöppunin í sjávarútvegi orðin. Miðin hafa verið einkavædd og fáeinar stórútgerðir sölsað þau undir sig.

- Auglýsing -

En þetta vitið þið öll. Og því miður yppta flest ykkar öxlum, dæsið og andvarpið: Ætli það sé ekki bara best að kjósa Framsókn? Ætli það sé ekki bara best að gera ekki neitt, leyfa þjófunum að ríkja yfir þjófræðinu.“

Hann heldur áfram:

„Þetta með Framsókn er harmsaga Íslands eins og Framsóknarflokkurinn er harmsaga. Þetta er flokkur sem var byggður á samvinnuhreyfingunni, sem var byltingarafl á Íslandi, átti stærstan þátt í að móta hér nútímasamfélag.

- Auglýsing -

Þegar hreyfingin klíkuvæddist varð Framsókn að flokki kommissara í Sambandinu og þegar þeim tókst að eyðileggja hreyfinguna varð Framsókn flokkur óligarkanna sem sölsuðu undir sig eigur samvinnuhreyfingarinnar. Óligarkarnir í Framsókn eru nákvæmlega sömu tegundar og óligarkarnir sem náðu undir sig eigum almennings í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna.

Að almenningur skuli svara þessum þjófnaði á almannaeignum með því að spyrja hvort ekki sé bara best að hafa þetta svona, er merki um almennt siðrof í íslensku samfélagi.

Og það sama á auðvitað við einkavæðingu fiskimiðanna. Eins og sést í dag þegar loðnustofninn braggast. Megnið af kvótanum rennur til fimm auðhringja.“

 

Gríðarleg hækkun á markaðsvirði útgerðanna

Gunnar Smári segir að frá því að Hafrannsóknarstofnun tilkynnti um aukinn loðnukvóta hafi markaðsvirði útgerðanna Brims og Síldarvinnslunnar hækkað um 73,9 milljarða króna.

„Þetta er svo fyndið. Þegar fréttir berast af mögulegum 50-70 milljarða króna loðnuvertíð þá hækkar virði tveggja útgerða sem eiga 1/3 af kvótanum um meira en samanlagt allt útflutningsverðmæti kvótans. Ef þessu er beitt á öll útgerðarfyrirtækin jafngildir þetta því að aukinn loðnukvóti hækki verðmæti þeirra um 217 milljarða króna.

Ef við gerum ráð fyrir EBITDA (hagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta, afskriftir og arð) verði á vertíðinni eins og hún hefur verið hæðst í sögunni eða um 33% af veiðum (og það sama gildi um vinnsluna) þá skila um 60 milljarða króna útflutningsverðmæti um 20 milljarða króna EBITDA.

Hækkun verðmæta fyrirtækjana er því 10,85-föld möguleg EBITDA. Sem er tvöföld hækkun miðað við stöðugan rekstur traustra fyrirtækja. Sem loðnuútgerð er ekki. Það getur enginn spáð fyrir um kvótann næstu tvö árin, hvað þá tíu eða tuttugu.

Í dag er Brim metið í kauphöllinni á 16,9-falda EBITDA síðasta árs og Síldarvinnslan á 20,0-falda EBITDA. Annað hvort eru þessi fyrirtæki stórkostlega ofmetin eða að markaðurinn veit að bókfærður hagnaður er aðeins hluti raunverulegs hagnaðar, að fyrirtækin séu traustari en ársreikningar segi til um vegna þess að þau geti fært hagnað til dótturfyrirtækja í útlöndum og bókfært hann aðeins að litlu leyti hér heima til að losna undan sköttum og skyldum, launagreiðslum og gjöldum.

En svona er Ísland í dag. Meira og minna einkavinavætt til auðhringja sem reka sína stjórnmálaflokka og sem almenningur kýs vegna þess að fólk hefur misst vonina um að hægt sé að byggja upp skárra og réttlátara samfélag. Hér eru reknar stofnanir sem eru sjaldnast það sem þær segjast vera, ef þær segjast vinna fyrir almenning eru þær í raun að vinna fyrir mennina sem rændu almenning.

Og þegar búin er til kauphöll til að skrá virði fyrirtækja þá verður hún að brandara um leið. Verðið á ekkert skylt við innra virði fyrirtækja eða raunvirði heldur endurspegla væntingar braskara og fjárglæfrafólks. Og bálið sem logar í kauphöllinni er kynt með lífeyrissparnaði almennings.

Það er alveg sama hversu vantrúa þú ert á íslenskt samfélag, hvað þú vantreystir stjórnmálum og viðskiptalífinu; reglan er sú að ástandið er í raun enn verra. Linnulaus fréttaflutningur úr þessum geirum þar sem látið er eins og ástandið sé normalt blekkir þig til að efast um eigin tilfinningu fyrir botnlausri spillingu, græðgi og heimsku valdastéttarinnar. Allt sem haldið er fram er lygi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -