- Auglýsing -
Þórdís Imsland skrifar fallega færslu á Facebook-síðu sinni sem ber yfirskriftina: Þegar draumar manns rætast.
Hún og Sigurjón Örn Böðvarsson eignuðust nýverið saman barn þrátt fyrir að vera „bara“ vinir – þau eru ekki par eða hjón – þau eru vinir og voru með sameiginlegan draum, að eignast barn. Og það gerðu þessir fallegu vinir saman.
„Þvílík forréttindi, orðlaus, yfirþyrmandi ást, þakklæti, hamingja og lífið breyttist á einum degi.
Draumaprinsinn fæddist 23. okt kl. 15:59, 16 merkur og 53 cm, heilbrigður, með dökkblá augu, gyllt hár, englarödd og fullkominn í alla staði,“ skrifar hún og bætir við:
„Takk fyrir allan stuðninginn og hamingjuóskirnar. Við svífum um á bleiku skýi og tímum varla að blikka augunum og dáumst að hverju hljóði, svipbrigðum, búkhljóðum, lyktinni, gullhárinu og litlu fingrunum sem grípa í mann.
Takk fyrir að velja okkur sem foreldra elsku sonur okkar. Nú byrjar ballið og við getum ekki beðið eftir því að fá að dansa með þér í gegnum lífið.“