14 störf yfirmanna hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar verða lögð niður. Að sögn Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa velferðarsviðis, kemur þetta til vegna umfangsmikilla breytinga á sviðinu.
„Tvær þjónustumiðstöðvar hafa til dæmis verið sameinaðar og ný rafræn þjónustumiðstöð sett á laggirnar sem tekur til starfa um áramót.
Það eru farsældarlög, stafræn umbreyting og ný velferðarstefna Reykjavíkurborgar sem knýja á um þessar breytingar. Nýjar og breyttar stöður verða auglýstar um helgina og við gerum ráð fyrir að margir sem sinna þeim störfum sem lögð verða niður verði í hópi umsækjenda um þær.
Þess má geta að á velferðarsviði starfa um 3.500 manns og á annað hundrað stjórnendur. Þessar breytingar taka fyrst og fremst til þjónustumiðstöðva.“