Neytendasamtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir banni við því sem þau kalla „njósnaauglýsingar“. Um er að ræða netauglýsingar sem byggja á persónusniði og eftirliti með notendum.
Neytendasamtökin leggja áherslu á að stjórnvöld tryggi stafræn réttindi neytenda á veraldarvefnum.
„Nú tröllríða slíkar auglýsingar og annað efni sem byggir á eftirliti með einstaklingum netheimum og veldur neytendum margvíslegum skaða – og stofna í verstu tilfellum lýðræðinu í hættu,“ segir í ályktun aðalfundar Neytendasamtakanna sem var haldinn í gær, þann 30. október.
„Í grunnstefnu Neytendasamtakanna eru settar fram níu grunnkröfur neytenda. Meðal þeirra er krafan um rétt til stafrænnar neytendaverndar. Í henni felst að jafnt aðgengi allra sé tryggt, að öryggi og heiðarleiki ráði ferð í stafrænum vörum og þjónustu og að neytendur geti gert sér fulla grein fyrir öllum skilmálum. Það er ekki raunin á netinu,“ segir ennfremur í ályktuninni.
Neytendasamtökin biðja einnig fyrirtæki og forsvarsmenn hagsmunasamtaka atvinnulífsins að hafa það í huga að hækka ekki vöruverð til neytenda „í þeim aðstæðum sem nú ríkja“.
Bent er á að nú þegar tímabundnar hækkanir séu á hrávöruverði og flutningstruflanir vegna kórónuveirufaraldursins, sé ekki rétta leiðin að hækka verð til neytenda á móti. Fyrirtækin ættu í staðinn að hagræða, lækka álögur á vörum og draga úr arðsemiskröfum.
„Þá beinir aðalfundur því til stjórnvalda að afnema alla tolla til að stemma stigu við verðhækkunum.“
Neytendasamtökin og Samkeppniseftirlitið eru samtaka í að skora á neytendur að „vera á varðbergi og tilkynna þegar þeir verða varir við óeðlilegar verðhækkanir eða grunar að fyrirtæki fari á svig við samkeppnislög.“
„Fundurinn bendir sérstaklega á þá áminningu Samkeppniseftirlitsins að það sé ekki hlutverk hagsmunasamtaka fyrirtækja að gefa undir fótinn með verðhækkun í einstökum vöruflokkum og afsaka þær fyrirfram, svo sem vegna kórónufaraldursins og afleiðinga hans í flutningum.
Það eru ekki sanngjörn eða skynsamleg viðbrögð, heldur ættu fyrirtækjasamtökin þvert á móti að vinna að leiðum sem tryggja lágt og stöðugt vöruverð.“