- Auglýsing -
„Jæja það fór ekki svo að Kóvíð konungur næði manni ekki inn í ríki sitt. Ég er semsagt einn af þessum 72 sem smituðust í gær,“ segir rithöfundurinn Hallgrímur Helgason og bætir við um veikindin:
„Er vel flensaður og slappur en þó enn með bragð- og lyktarskyn. Enda tvívarinn með Astra Zeneca síðan í sumar. Guð blessi bóluefnin!
Var í gærkveldi ekið hingað af slökkviliðsmanni á sóttvarnarhótelið við Rauðarárstíg. Hér er yndislegt að vera með útsýn yfir æskustöðvarnar og nafna á holtinu. Tímasetningin gat allavega ekki verið betri. Sýning komin upp og allar bækur í búðir.“
Heldur áfram:
„Elskurnar mínar Agla og Málfríður, reyndust ósmitaðar eftir test í gær. Vona svo bara að ég hafi ekki smitað neinn í settinu hjá honum Gísla Marteini – Þau eru þrjú komin í sóttkví mín vegna, hann sjálfur, Katrín Halldóra og Sóli Hólm, einkennalaus sem betur fer, og smitskömmin því í lágmarki. Aðrir sem ég hitti á föstudaginn eru í smitgát. Allir neikvæðir að ég best veit. ATH: Þið sem komuð í útgáfuteitið á fimmtudag þurfið ekki að bregðast við. Rakningateymið dregur línuna við föstudagsmorgun. En við ykkur sem enn eigið eftir að láta bólusetja ykkur segi ég: Gerið það strax!“