Laugardagur 26. október, 2024
4 C
Reykjavik

Þórdís gagnrýnir varðstjóra: „Mannréttindi fólks falla ekki úr gildi þótt það sé fullt á djamminu.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér þykir ljóst að Aníta Rut Harðardóttir lögregluvarðstjóri hafi brotið með skýlausum hætti gegn siðareglum lögreglunnar þegar hún lét ummælin „Full á djamminu.is“ falla um brotaþola í ofbeldismáli,“ segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og baráttukona gegn ofbeldi.

Í samtali við Mannlíf gagnrýnir Þórdís Elva harðlega ummæli sem Aníta Rut, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lét falla á Facebook-síðu sinni.

Aníta Rut deildi frétt Mannlífs um Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur með orðunum: „Full á djamminu.is“. Facebook-síða varðstjórans er opin almenningi.

Þórhildur Gyða hefur mikið verið í sviðsljósinu undanfarið eftir að upp komst um þöggun KSÍ í máli landsliðsmannsins Kolbeins Sigþórssonar, en Þórhildur kærði hann fyrir ofbeldisbrot árið 2017. Málið var á sínum tíma útkljáð með sáttum, þar sem Kolbeinn gekkst við broti sínu, greiddi henni miskabætur og lagði sömuleiðis upphæð inn á reikning Stígamóta.

Fréttin sem Aníta Rut deildi fjallaði um reiði Þórhildar Gyðu vegna yfirlýsingar Arons Einars Gunnarssonar, fyrrum landsliðsfyrirliða, sem sagðist þar ekki hafa beitt neina manneskju ofbeldi. Aron Einar hefur verið kærður fyrir nauðgun og er undir rannsókn lögreglu, ásamt Eggerti Gunnþóri Jónssyni, leikmanni FH. Meint brot á að hafa átt sér stað árið 2010.

Þetta eru ekki einu ummæli Anítu sem þykja lýsa fjandsamlegum viðhorfum hennar til ákveðins fólks. Hún var einnig umtöluð á sínum tíma fyrir að bera við lögreglustörf tákn og fána á einkennisbúningi sínum, sem að margra mati þóttu sýna fram á kynþáttafordóma. Henni var gert að fjarlægja táknin af búningi sínum í kjölfarið.

- Auglýsing -
Aníta Rut Harðardóttir

Skýr brot á siðareglum

„Í 15. grein siðareglna lögreglunnar segir orðrétt: Starfsmenn lögreglu skulu gæta þess að aðhafast ekkert í starfi sínu eða utan þess, sem er almennt til þess fallið að draga óhlutdrægni þeirra í efa við framkvæmd starfa lögreglu,“ segir Þórdís Elva, um færslu Anítu Rutar um Þórhildi Gyðu.

Þórdís segir ummæli Anítu Rutar auk þess hafa verið slúður um meint neyslumynstur viðkomandi einstaklings á áfengi.

„Það brýtur gegn 12. grein siðareglna lögreglunnar, þar sem segir: „Starfsmenn lögreglunnar skulu gæta hófs og sanngirni í ummælum sínum um samstarfsmenn sína jafnt og um aðra menn svo sem með því að taka ekki þátt í slúðri eða dreifa rógi um þá eða aðra.““

- Auglýsing -

Þórdís segir ummæli lögregluvarðstjórans gera meira en að brjóta gegn siðareglum með augljósum hætti, sem sé þó grafalvarlegt út af fyrir sig.

„Þá má líka benda á að ummæli hennar afhjúpa djúpstæða skekkju. Áfengisneysla brotaþola í ofbeldismálum er ekki það sem máli skiptir. Drukkið fólk nýtur sama réttar til að vera ekki beitt ofbeldi og edrú fólk.“

 

Heggur sá er hlífa skyldi

„En þungamiðjan í því sem ég vil koma á framfæri, fyrir utan að það sé óásættanlegt að lögregluvarðstjóri tjái sig svona um þolendur ofbeldisbrota, er að mannréttindi fólks falla ekki úr gildi þótt það sé fullt á djamminu.

Það er óásættanlegt að þolendur skuli vera háðir fólki, með fordómafull og skökk viðhorf, um úrlausn sinna mála. Lögreglan hefur beinlínis það hlutverk að vernda okkur og þjóna, ekki hæðast að þeim fáu brotaþolum sem hafa hugrekki til að tilkynna ofbeldi til lögreglu og dreifa rætnu slúðri um þá.

Þar með heggur sá er hlífa skyldi. Svo undrast fólk hvers vegna fleiri þolendur kæra ekki ofbeldisbrot?“

Þórdís Elva tók málið upp á Instagram-reikningi sínum um helgina og merkti þar lögregluna. Henni barst svar frá lögreglunni sem hljóðaði svo:

„Sæl.

Það er alveg ljóst, frá okkar bæjardyrum séð sem skrifum hér – að starfsmenn lögreglu standa gegn ofbeldi og með þolendum ofbeldisbrota. Það að stíga fram og segjast hafa orðið fyrir broti krefst hugrekkis og lögreglan á að gera allt sem hún getur til að standa með brotaþolum. Við sem svörum fyrir lögregluna þykir það virkilega leitt að þurfa að standa fyrir svörum þegar starfsmenn embættisins tjá persónulegar skoðanir sínar á opinberum vettvangi með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Mál umrædds starfsmanns eru í skoðun hjá yfirmanni hans og við höfum ekki leyfi til að tjá okkur frekar um það.“

Svar lögreglu til Þórdísar Elvu

Aðspurð segir Þórdís Elva:

„Hvað svar lögreglunnar snertir er ég ánægð með að þeim þyki „virkilega leitt“ að Aníta Rut hafi tjáð sig með þeim hætti sem hún gerði – en það er fjarri því að vera nóg.

Ef starfsmaður lögreglunnar brýtur gróflega gegn siðareglum embættisins getur varla talist nóg að samstarfsfólki hans þyki það „leitt“?

Viðhorfskannanir sýna að þegar kynbundin ofbeldismál eru annars vegar ber almenningur takmarkað traust til lögreglu og réttarkerfisins, og framganga á borð við Anítu Rutar er síst til þess fallin að byggja upp traustið sem þarf til að færa ástandið til betri vegar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -