Rithöfundurinn Ólafur Ormsson lést þann 27. október síðastliðinn.
Hann fæddist í Reykjavík 16. nóvember 1943 . Foreldrar hans voru Ormur Ólafsson, starfsmaður Flugfélags Íslands og Flugleiða, og Jóna Kristín Arnfinnsdóttir húsfreyja. Ólafur ólst upp í Reykjavík fyrstu árin. Hann missti móður sína aðeins fjögurra ára gamall og fór þá í fóstur til föðursystur sinnar í Keflavík. Ólafur starfaði lengst af sem rithöfundur. Áður var hann lagermaður hjá Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg. Hann var öryggisvörður hjá Reykjavíkurborg og síðan blaðamaður á árunum 1983 til 2001. Hann var meðal annars fastur höfundur greina og viðtala við tímaritið Mannlíf og fleiri fjölmiðla.
Ólafur sat meðal annars í ritstjórn æskulýðssíðu Þjóðviljans og var í hópi útgefenda og höfunda að Lystræningjanum og tónlistartímaritinu TT og stóð að bókaútgáfu. Hann er höfundur að ljóðabókum, skáldsögum og smásagnasöfnum. Fyrsta ljóðabók hans, Fáfniskver, kom út árið 1973. Hann skrifaði skáldævisögu í þremur bindum, Ævintýraþorpið, Byltingarmenn og bóhemar og Skáldaspegill, sem kom út á árunum 2007 til 2013. Eftir hann liggja einnig nokkur útvarpsleikrit og smásögur sem lesnar hafa verið upp í Ríkisútvarpinu.
Mannlíf þakkar Ólafi samfylgdina og vottar fjölskyldu hans samúð.