Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Steinunn Ólína svarar fyrir skrif sín: „Flestum er nú ljóst að útskúfunarsinnar vilja enga siðbót“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona skrifaði langan pistil á Facebook í gær þar sem hún svarar fyrir pistil sem hún birti síðastliðinn föstudag og vakti nokkuð hörð viðbrögð. Pistillinn fjallaði um meintan byrlunarfaraldur á landinu. Þar velti hún því fyrir sig hvort mögulega sé í sumum tilfellum um að ræða afleiðingar þess að blanda saman geðlyfjum og áfengi.

Í pistli gærkvöldsins gerir Steinunn Ólina betur grein fyrir því hvað hún átti við og segir það af og frá að hún hafi verið að leggja saman byrlanir og sjálfsbyrlanir.

„Aðrir þykjast vita að ég sé vantrúuð á að byrlanir eigi sér stað, það er líka rangtúlkun. Enn aðrir að ég sé að gera lítið úr þolendum kynferðisofbeldis og geri þá ábyrga fyrir ofbeldi sem þeir sæta, slíkt er af og frá,“ segir hún og segir ennfremur að sumir telji orð hennar markleysu og henni beri að útskúfa.

„En mér eins og flestum er nú ljóst að útskúfunarsinnar vilja enga siðbót. Útskúfunarsinnar vilja völd. Útskúfunarkúltúrinn er á engan hátt mann- eða siðbætandi. Hann er einfaldlega valdaránstilraun sem hefur það markmið eitt að stjórna því hvernig fólk hugsar og tjáir sig. Þau réttindi læt ég ekki svo glatt af hendi.“

Þá segir Steinunn Ólína að eitthvað í íslensku samfélagi ýti undir þá „nýútbreiddu hræðslu og háværu umræðu að hér geysi byrlunarfaraldur.“ Segir hún að það geti hugsanlega verið rétt.

„Vandinn við hræðsluna er sá að það upprætir ekkert ótta nema að skora hann á hólm og grandskoða hvað veldur honum. Það bætir ekki líðan þess sem hræddur er þótt margir tilheyri sama hræðslubandalagi. Hræðslan bara vex og vanmátturinn eykst. Þetta er því miður einhverskonar lögmál.“

- Auglýsing -

Telur Steinunn að sé raunin sú að hér geysi byrlunarfaraldur beri auðvitað að bregðast við honum.

„Þær lausnir eru til en auðvitað á ábyrgð þeirra, sem vilja verjast byrlunum, að sækja sér og nota slíkar lausnir. Sá sem á glasinu heldur getur þá sjálfur mælt hvort drykkurinn er ómengaður. Er hugsanlegt að váin umrædda sé að einhverju leyti orðum aukin? Kann að vera að fjölmiðlar einkum alþjóðlegir samfélagsmiðlar blási að glóðunum og skapi ringulreið frekar en að greina vandann og upplýsa. Það er markaðsöflum heimsins nefnilega að skapi að við manneskjur skipum okkur í stríðandi fylkingar. Frelsið er dýrmætt og stendur höllum fæti. Er mannkynið sjálft að læsa sig inni?“

Steinunn Ólína veltir fyrir sér ábyrgð kvenna. „Erum við konur kannski sjálfar, í nafni þess að við séum að vernda hver aðra og börnin okkar, að leggja okkar að mörkum til að mála upp mynd af samfélagi þar sem konur geta ekki um frjálst höfuð strokið?“

- Auglýsing -

Hún hafnar því að heimurinn sé eins slæmur og margir halda fram.

„Ég hafna því að heimurinn sé skaðræðis skítapleis og vil ekki ala á slíkum hugmyndum hjá mínum börnum, sem eru eins og allir jarðarbúar útsett fyrir áróðri sem erfitt er að sannreyna. Ég hafna því líka að fylgja ekki leikreglum samfélagsins þótt ófullkomnar séu. Samkvæmt nýjum kenningum útskúfunarsinna virðist það réttur mannsins að öryggi hans sé tryggt fyrir áföllum af öllum toga? Og jafnframt að upplifunarrétturinn sé nú öllu æðri. Sjálfsábyrgð kvenna má tæpast ræða. Og konur eiga að vera undanþegnar því að taka nokkra ábyrgð á lífi sínu og limum. Ekki má lengur benda á ef viðkomandi lætur skynsemi lönd og leið. Það heitir nú skerðing á frelsi þeirra til athafna og öryggis. Þetta er dálítið snúið fyrir mig að samþykkja.“

Næst kemur Steinunn Ólína inn á skrif sín um geð og kvíðalyfjanotkun samhliða áfengisdrykkju og útskýrir þau orð betur.

„Ég leyfði mér að geta mér þess til að aukin geð-og kvíðalyfjanotkun samfara áfengisneyslu gæti verið ein ástæða þess að upp koma nú fleiri tilvik þar sem fólk skilur ekki hvers vegna það missir skyndilega tökin þegar það er úti að skemmta sér og heldur þá kannski að sér hafi verið byrlað. Og ég óttast að margir séu hreint ekki meðvitaðir um samverkan þessara lyfja með áfengi nema að hafa reynt það. Jafnframt óttast ég að fleiri en ég hunsi leiðbeiningar lækna og þá kannski sérílagi fólk sem hefur eins og ég átt við fíknivanda að stríða.“

Næst talar hún um sjálfshatrið og skömm þess sem skorist hefur undan sjálfsábyrgð.

„Sjálfshatrið er erfiðast viðureignar í lífinu og skömmin er önnur óvinkona flestra. Þá er ég ekki að tala um vandlætingu þeirra sem vilja ákveða hvað er viðeigandi og hvað óviðeigandi í fari eða gjörðum fólks, það er bara yfirborð og ætti ekki að rista djúpt. Ég er ekki heldur að tala um þá skömm sem margir lýsa við það að hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi og telja sig ranglega hafa borið á því einhverja ábyrgð. Ég þekki þá skömm, hún er allt annars eðlis.
Ég er að tala um það þegar maður skammast sín sjálfur vegna þess að maður veit sig hafa skorast undan sjálfsábyrgðinni. Þá skömm sem um ræðir tekur enginn frá þér og þú getur ekki skilað henni neitt, þú situr uppi með hana, þá þarf að eiga mildi til fyrir sjálfan sig svo þú megir að einhverju leyti verða heill á ný.
Þessi tilfinning kallast líka eftirsjá og getur verið sár og ónotaleg og slær eiginlega út allt það sem aðrir geta gert þér. Að sjá eftir einhverju er erfitt en líka mannlegt og heilbrigt. Viðureignina við eftirsjána á maður því miður bara við sjálfan sig og þann þjáningaveg þarf maður að ganga einn. Þetta er því miður líka einhverskonar lögmál.“

Í færslu sinni segir Steinunn Ólína aukreitis að fólk sé hrætt við að tjá sig um útskúfunarkúlturinn en bendir einnig á að það sé ekkert að óttast en til alls að vinna.

„Það er engum hollt að samþykkja með þögninni að ráðist sé að öðrum með offorsi. Þegar þinn siðferðilegi kompáss segir þér að eitthvað sé rangt þá áttu að bregðast við því og skoða nánar. Láttu aldrei banna þér að efast og hugsa sjálfur, því ef þú gerir það þá bælir þú þinn eigin anda og brýtur niður þitt siðferðislega þrek. Það er mannlegt að finna til með öðru fólki; þeim sem eru klaufar, þeim sem misstíga sig og jafnvel getur maður fundið til með þeim sem fremja glæpi. Það er eðli okkar og lögmálið um kærleikann sem við kunnum engar vísindalegar skýringar á.“

Segist hún aukinheldur hafa þá trú á mannskepnunni, að fáir ljúgi af ásetningi til að gera öðrum illt en það gerist engu að síður.

„Ég held að í kynferðisbrotamálum sé það afar fátítt en við sjáum fjölmörg dæmi um slíkt í hinu mannlega félagi, að fólk olnbogar sig áfram á annara kostnað vegna þess að það er skelfingu lostið. Ég samþykki ekki að það sé eðlilegur fórnarkostnaður byltinga að einhverjir liggi í valnum vegna áfellisdóma sem ekki er hirt um að kanna hvort standast. Ég samþykki ekki að núna sé kominn tími til að karlmenn þjáist svolítið vegna aldalangrar þjáningar kvenna. Ég vil ekki að neinn þjáist að ósekju. Ég samþykki ekki að frelsi einstaklingsins jafngildi leyfi til að traðka annað fólk niður í svaðið. Það eru til allrar hamingju langflestir sammála mér.“

Steinunn telur að sú reiði og heift sem hún hefur fundið fyrir eftir síðustu skrif sín, sé rannsóknarefni.

„Skoðanir mínar þykja afturhaldsamar, meiðandi og gamaldags, ég er miðaldra kona sem skilur ekki neitt og hef enga reynslu sem mark er á takandi. Ég er vænd um viðhalda nauðgunarkúltúr og vera gerendasleikja.

Reiðin, heiftin og dómharkan sem kemur fram í skrifum margra er rannsóknarverð og lýsir djúpri vanlíðan og sársauka. Ég finn til með því fólki. Ég hef dálitla reynslu af því hversu sjálfsmeiðandi það er að bregðast við af heift. Heiftin og offorsið færir manni því miður enga sátt, enga friðþægingu og kemur engu áleiðis, þvert á móti, ávinningurinn er enginn og maður lítilsvirðir mest það sem maður ætti að annast best. Sjálfan sig. Þetta er því miður líka lögmál.“

Að lokum segir hún að þörf sé á samtali manna í millum.

„Kannski getur náttúran orðið okkar kirkja og sameiningarafl því henni verðum við að lúta hvað sem öðru líður. Auðmýktin sem því fylgir gæti reynst okkur happadrjúg. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að mannkynið standi saman. Við verðum að geta talað saman, sett okkur í annara spor og unnið að úrbótum okkur öllum til handa. Hér er mikið í húfi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -