Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Sólveig Anna Jónsdóttir í nærmynd: „Ég er hér, ég er glöð, get used to it.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að Sólveig Anna Jónsdóttir er á förum úr formannsstól Eflingar.

Árin sem Sólveig hefur gegnt formennsku hjá verkalýðsfélaginu hafa verið æði áberandi og Efling sjaldan rutt sér jafn framarlega í umræðuna eins og undir stjórn Sólveigar Önnu.

En hver er Sólveig Anna og hvernig endaði hún sem formaður eins stærsta stéttarfélags á Íslandi?

Sólveig Anna Jónsdóttir fæddist hjónunum Jóni Múla Árnasyni og Ragnheiði Ástu Pétursdóttur þann 29. maí árið 1975.

Hún er aðgerðasinni í húð og hár. Sólveig var formaður Íslandsdeildar Attac-samtakanna og einn níumenninganna sem ákærðir voru vegna mótmæla í Alþingishúsinu 8. desember 2008 í tengslum við búsáhaldabyltinguna frægu.

Sólveig var lengi vel starfsmaður á leikskóla hjá Reykjavíkurborg. Þar starfaði hún allt þar til hún var kjörin formaður Eflingar árið 2018.

- Auglýsing -

 

Sólveig og B-listinn

Kjör hennar til formanns stéttarfélagsins var um margt merkilegt. Hún tilkynnti framboð sitt til formanns Eflingar ásamt nýrri stjórn sem kallaðist B-listinn. Á þessum tíma hafði formaðurinn, Sigurður Bessason, tilkynnt að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Sigurður var fyrsti og eini formaður Eflingar og hafði gegnt stöðunni í átján ár. Uppstillingarnefnd Eflingar hafði tilnefnt Ingvar Vigur Halldórsson sem frambjóðanda til formanns og Sólveig Anna bauð sig fram á móti honum, ásamt B-listanum. Þetta var í fyrsta sinn í tuttugu ára sögu Eflingar þar sem kosið var um formann.

Sigurður Bessason, fyrrum formaður Eflingar. Mynd/skjáskot RÚV

Í kosningabaráttunni lagði Sólveig Anna ríka áherslu á aðstæður ómenntaðra kvenna á vinnumarkaðnum, enda hafði hún mikla reynslu af því umhverfi. Hún gaf verkalýðsforystunni falleinkunn og sagðist ekki hafa orðið vör við að stéttarfélagið setti hagsmuni verkalýðsins í forgang, en hún hafði verið meðlimur í Eflingu allt frá því hún hóf störf sem leikskólastarfsmaður árið 2008.

- Auglýsing -

„Launakjör mín eru algjörlega óásættanleg. Svo á það sama við annað fólk í sömu eða svipaðri stöðu,“ sagði Sólveig Anna meðal annars í kosningabaráttunni.

Sólveig Anna Jónsdóttir og Ingvar Vigur Halldórsson. Mynd/skjáskot RÚV

Ingvar Vigur, mótframbjóðandi Sólveigar, var í yfirburðastöðu, enda hafði hann stuðning uppstillingarnefndar, stjórnar og trúnaðarmannaráðs Eflingar. Hann tók allt annan pól í hæðina en Sólveig hvað stéttarfélögin varðaði:

„Nei, þau eru ekki máttlaus. Ég tel að stéttabaráttan sé í tiltölulega góðu lagi. Það sem ég stend fyrir, eða minn listi, er að tefla fram, er traust, reynsla og þekking. Fólkið sem er með mér á listanum er fólk sem er búið að vera í verkalýðsbaráttunni mjög lengi,“ sagði Ingvar Vigur.

Svo fór að Sólveig Anna var kjörin formaður Eflingar með yfirburðakosningu, eða 80% atkvæða. B-listi Sólveigar hlaut 7 af 15 stjórnarmönnum í kjörinu.

 

„Verkfall, verkfall og aftur verkfall“

Formannstíð Sólveigar Önnu var afar viðburðarík en einnig um margt stormasöm. Hún lét mikið í sér heyra allan tímann, var herská og rak róttæka réttindabaráttu þeirra lægst launuðu í landinu. Sólveig gaf ekkert eftir og sparaði oft ekki gífuryrðin.

Segja má að átök hafi sannarlega einkennt þann tíma sem Sólveig Anna hefur setið í formannsstól Eflingar – bæði út á við og innbyrðis. Deilur á skrifstofu Eflingar hafa verið áberandi, en sömuleiðis verkföll og kjarabætur félagsmanna.

Það var reyndar í aðdraganda kosninganna til formanns Eflingar sem tveir einstaklingar lýstu því hvernig starfsmaður á skrifstofu Eflingar hefði reynt að telja félagskonu ef erlendu bergi brotna á að kjósa A-listann, sem var mótframboð B-lista Sólveigar, með þeim orðum að það eina sem frambjóðendur B-listans vildu væri „verkfall, verkfall og aftur verkfall.“

Svo varð að um ári eftir að Sólveig Anna tók við stöðu formanns Eflingar hófst fyrsta verkfallið. Verkfallinu muna sennilega flestir eftir, en það voru starfsmenn á hótelum og starfsfólk rútufyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og í grennd við það sem riðu á vaðið. Töluvert fjaðrafok var í kringum verkfallið og bæði ferðaþjónustan og Efling fóru mikinn í fjölmiðlum.

Í rökstuðningi Eflingar fyrir verkfallsboðununum sagði:

„Eigendur fyrirtækja í túristaiðnaði hafa grætt á tá og fingri undanfarin ár, en starfsfólkið sem keyrir rúturnar, þrífur hótelin og sinnir gestum hefur ekki notið góðs af. Þau fá of lág laun, vinna undir mikilli pressu, eru snuðuð um réttindi, og njóta oft ekki virðingar yfirmanna sinna. Krafa Eflingar er sú að lágmarkslaun í landinu verði 425,000 ISK, en þessi krafa hefur ekki verið samþykkt. Þetta verður að breytast og munu verkfallsaðgerðir skapa þrýsting um að kröfum okkar um betri kjör verði mætt.“

Frá verkfallinu. Mynd/skjáskot RÚV

Sólveig Anna tók virkan þátt í verkfallsbaráttunni og nýtti hvert tækifæri til að vekja á henni athygli. Hún var sömuleiðis dugleg við að mæta í fyrirtækin til að vakta að þar væri ekki verið að brjóta verkfallsreglur.

Hún var gagnrýnd nokkuð meðan á verkfallinu stóð, meðal annars fyrir að virðast of glöð og spennt yfir jafn alvarlegu máli og verkfall væri, bæði fyrir atvinnurekendur og starfsfólk.

Sólveig blés á þær ásakanir:

„Þær konur sem ég hef hitt og talað við, sem eru sannarlega láglaunakonur í íslensku samfélagi, eru mjög glaðar! Þær voru glaðar yfir því að fá tækifæri til að greiða atkvæði og þær eru glaðar yfir því að fá tækifæri til að leggja niður störf.“

„Ég er hér, ég er glöð, get used to it,“ sagði Sólveig Anna.

 

Þrýstingur vegna WOW og Covid-19

Verkföllin voru framkvæmd í lotum. Kjaraviðræður héldu áfram en þegar stefndi í verkfall tvö þúsund félagsmanna VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins, féll flugfélagið WOW air, í lok mars 2019.

Á endanum gripu stjórnvöld inn í kjaradeiluna og samið var um Lífskjarasamningana svokölluðu. Fall flugfélagsins var sagt hafa sett aukinn þrýsting á deiluaðila um að ná samkomulagi.

Sólveig Anna greindi frá því í kjölfarið að henni hefði misboðið hröð afgreiðsla samninganna undir lokin. Enn hafi mikilvæg mál verið eftir, sem urðu út undan.

Um það bil ári síðar hófst næsta verkfall. Nú var komið að starfsfólki í grunnskólum í Reykjavíkurborg og nokkrum sveitarfélögum. Verkfallið hafði þau áhrif að skólar gátu ekki tekið á móti öllum nemendum. Meðal starfsfólks sem fór í verkfall var starfsfólk sem starfaði við ræstingar í skólunum. Þrif voru því víða ófullnægjandi og ekki í boði að hafa ákveðna hluta skóla opna, til að mynda matsali.

Sólveig var afar ósátt við framgöngu Sambands íslenskra sveitarfélaga við samningaborðið. Um það sagði hún meðal annars í samtali við Vísi:

„Viðlíka vinnubrögðum og þeim sem að samninganefnd sveitarfélaganna ástundar hef ég ekki kynnst. Ég er töluvert sjokkeruð eftir framferði þeirra á fundinum þar sem við lögðum fram vel útfært tilboð í samanburði við það sem við höfum þegar samið um bæði við Reykjavíkurborg og ríkið. Þessu tilboði var hafnað samstundis.“

Aftur náðust samningar undir ákveðnum þrýstingi, því að í þetta sinn var kórónuveirufaraldurinn farinn á stjá. Skrifað var undir samninga í maímánuði árið 2020. Raunar hafði verkfall Eflingar átt að hefjast þann 9. mars þetta ár, en var frestað til 24. mars vegna faraldursins. Verkfall var samþykkt að nýju í atkvæðagreiðslu eftir páska og hófst þann 5. maí. Verkfallið tók enda þegar samningar náðust þann 11. maí.

 

Átökin á skrifstofunni

Nokkuð hefur verið um fréttaflutning af átökum á skrifstofu Eflingar og innan stjórnarinnar. Þannig var skrifstofustjóra sagt upp árið 2018 og nokkrir starfsmenn fóru í veikindaleyfi. Meðal þeirra var fjármálastjóri Eflingar, sem var búinn að starfa hjá félaginu um áratuga skeið og var sagður hafa farið í veikindaleyfi eftir átök við Sólveigu Önnu og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar.

Viðar Þorsteinsson

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins áttu þau Sólveig og Viðar að hafa breytt vinnuandanum á skrifstofu Eflingar til hins verra. Þau voru sömuleiðis sökuð um ofríki og hótanir í garð starfsfólks. Þessu vísuðu þau Sólveig og Viðar á bug og sögðu starfsandann á skrifstofunni þvert á móti góðan.

Kristjana Valgeirsdóttir fjármálastjóri og Elín Kjartansdóttir bókari stigu hins vegar fram og staðfestu að þær hefðu farið í veikindaleyfi vegna framkomu forystu Eflingar í þeirra garð.

Þær vildu meina að þær hefðu fengið á sig falskar ásakanir frá forystunni til þess fallnar að hrekja þær úr starfi.

Kristjana Valgeirsdóttir og Elín Kjartansdóttir

Þetta voru sannarlega ekki síðustu deilumálin, því um ári síðar var enn fjallað um deilur og ósamkomulag á skrifstofu Eflingar.

Þar var um að ræða fjóra starfsmenn sem töldu félagið hafa brotið á réttindum þeirra. Þar á meðal var fyrrverandi skrifstofustjórinn; sá sem var sagt upp fljótlega eftir að Sólveig Anna tók við taumunum. Sá sagði frá því hvernig tilkynnt hefði verið á starfsmannafundi að hann yrði ekki áfram skrifstofustjóri, án þess að málið hefði verið rætt við hann áður.

Þessu gat Sólveig Anna ekki neitað, en sagði í staðinn að hún hefði margbeðið umræddan skrifstofustjóra afsökunar á framgangi hennar á starfsmannafundinum. Hún varði þó einnig gjörðir sínar með þeim orðum að hún hefði talið sig vera í fullum rétti til að skipta um skrifstofustjóra, sem hún sagði þegar hafa samþykkt starfslokasamning.

„Ég spyr: Á ég að láta þvinga mig til að gera eitthvað sem er gegn minni betri samvisku, sem lætur mig taka ákvarðanir sem ganga gegn hagsmunum félagsins, þvingar mig til að samþykkja að afhenda fjárhæðir og endursemja um starfslok vegna þess að fólk fer fram með hótunum og árásum? Átti ég að starfa með manni sem mig langaði ekkert að starfa með, vegna þess að hann leit svo á að hann einfaldlega ætti starf skrifstofustjóra Eflingar?“ sagði Sólveig Anna um málið.

 

Vantraustsyfirlýsing

Nú er svo komið að starfsfólk Eflingar fann sig knúið til að senda vantraustsyfirlýsingu á fjölmiðla, félagið og Sólveigu Önnu. Í kjölfarið sagði Sólveig Anna starfi sínu lausu, eftir að hafa haldið starfsmannafund þar sem hún bauð tvo kosti: að starfsfólkið drægi til baka gagnrýni á stjórnarhætti hennar frá því í sumar, eða að hún viki.

Sólveig Anna vill meina að starfsfólk Eflingar hafi hrakið hana frá störfum og að Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður Eflingar og meðlimur á B-lista Sólveigar, hafi reynt að koma henni fyrir kattarnef með því að fá ályktun starfsfólksins afhenta og fara með hana í fjölmiðla.

Guðmundur Baldursson hefur sagt að Sólveig Anna hafi haldið mikilvægum upplýsingum frá stjórn Eflingar og reynt að hylma yfir vanlíðan og umkvartanir starfsfólks skrifstofunnar. Hann heldur því fram að hann hafi einungis farið fram á upplýsingar sem ljóst væri að stjórnarmeðlimir Eflingar ættu fullan rétt á.

Guðmundur Baldursson. Mynd/skjáskot RÚV

Fundurinn sem Sólveig Anna hélt með starfsfólki Eflingar, þar sem hún kynnti þeim afarkostina tvo, var sagður hafa farið fram að morgni. Hún gaf starfsmönnum einungis frest til hádegis til að ákveða sig.

Úr varð ályktun þar sem meðal annars var óskað eftir umbótum á starfsmannamálum Eflingar. Sagt var að alvarleg vandamál væru viðvarandi innan félagsins og óskað var eftir auknu valdi til trúnaðarmanna og tíðari fundarhalda til að ráða fram úr þeim.

Sólveig Anna sagði að um væri að ræða vantraustsyfirlýsingu í hennar garð og allra þeirra sem bæru ábyrgð á starfsmannamálum Eflingar. Í kjölfarið sagðist hún myndu víkja sem formaður.

„Ég er full af þakklæti yfir því að hafa verið treyst af félagsfólki Eflingar til að leiða okkar baráttu og er ótrúlega stolt af þeim magnaða árangri sem við höfum náð á þeim stutta tíma sem ég hef verið formaður félagsins. Barátta Eflingarfélaga undanfarin ár hefur sýnt og sannað að með krafti og samstöðu vinnuaflsins þá náum við árangri. Með þau vopn í höndum getum við tekist á við allan mótbyr sama hversu óheiðarlegir og ómerkilegir andstæðingar okkar eru, hvar sem þeir leynast.

Ég mun aldrei hætta í baráttu fyrir réttlæti fyrir okkur sem tilheyrum stétt verka- og láglaunafólks og þekkja lífið undir oki auðvaldskerfisins og láglaunastefnunnar,“ sagði Sólveig Anna í tilkynningu sinni.

Sólveig Anna Jónsdóttir og Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar.
Mynd: Sólveig Anna Jónsdóttir/Facebook

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -