Viðbrögð við viðtali Kveiks við Þóri Sæmundsson í gærkvöldi hafa ekki staðið á sér.
Netheimar loga og að vanda má greina tvær andstæðar fylkingar.
Ein þeirra sem leggur orð í belg er Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.
„Hreinsunareldur Þóris? Erum við að fara að sannfæra þjóðina um að það þurfi að finna óskaplega til með manni sem fær ekki hlutverk eftir að hafa sent óumbeðnar myndir af tittlingnum á sér hingað og þangað og villt svo á sér heimildir á internetinu í lengri tíma? Gengur vel með #metoo,“ segir Hildur í dag á Facebook-síðu sinni.
Það er því ljóst að Hildi þykir Þórir ekki eiga neitt inni hjá samfélaginu.
Almennt tekur fólk undir orðræðu Hildar í athugasemdakerfinu við færsluna.
„Þetta viðtal er verra en ég hefði getað ímyndað mér,“ bætir Hildur sjálf við í athugasemd.
Í færslu sinni kemur Hildur inn á að Þórir hafi „villt á sér heimildir á internetinu í lengri tíma.“ Þar á hún sennilega við veru Þóris á Twitter undir dulnefninu „Boring Gylfi Sig“.
Það er athyglisvert að Hildur setji sérstaklega út á það, í ljósi þess að hún villti sjálf á sér heimildir á internetinu á sínum tíma. Þar var um að ræða síðuna Barnaland, þar sem Hildur skrifaði lengi vel undir dulnefninu NöttZ.
Það er í sjálfu sér ekki óvenjulegt; flestir á þeirri síðu komu fram undir notendanafni sem ekki var hægt að rekja til persónu þeirra.
Þegar Hildur var hinsvegar farin að stunda netníð og einelti gagnvart tónlistarkonunni Hafdísi Huld árið 2009 og 2010 kárnaði gamanið. Hélt Hildur því áfram um nokkurt skeið og voru ummælin bæði gróf og andstyggileg.
Hafdís Huld leitaði til lögreglu vegna skrifanna árið 2012. Í þeim sagði meðal annars að Hafdís hlyti að vera þroskaskert og að drepa ætti tónlistarkonuna og þá sem hefðu gaman af tónlist hennar. Þarna var einnig skrifað að nauðga ætti Hafdísi með tjaldhæl.
Þegar upp komst um málið vildi Hildur meina að maðurinn hennar hefði skrifað verstu ummælin, inni á hennar reikningi. Hún sagðist þó skammast sín fyrir skrifin.
Það skýtur því nokkuð skökku við að Hildur gagnrýni nethegðun annarra undir dulnefni og þyki fordæming almennt réttlát.