Fimmtudagur 19. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

„Ég svelti mig stundum og kastaði upp eftir að ég borðaði“ – Guðrún Hulda, ofþyngdin og eineltið:

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún er 46 ára. Þriggja barna móðir. Öryrki. Guðrún Hulda Fossdal hefur á lífsleiðinni gengið í um dimma dali og leiðin hefur oft verið grýtt en hún segist vera Pollýanna í sér og tekur þetta á jákvæðninni: Einelti alla grunnskólagönguna, neysla, nauðganir, meðferð, ofþyngd og átröskun, ADHD og sjálfsofnæmissjúkdómurinn rauðir úlfar.

„Ég man ekki eftir því að ég hafi ekki verið lögð í einelti í grunnskóla,“ segir Guðrún og bætir við að þeir sem hafi verið verstir hvað varðar eineltið hafi allir í gegnum árin haft samband við sig og beðist afsökunar. „Eineltið fólst í útilokun. Þegar nýir krakkar byrjuðu í skólanum var þeim sagt að þeir fengju ekki að vera með eða yrðu jafnvel barðir ef þeir myndu umgangast mig. Þegar sem mest var talað um eyðni og ég var um 10 ára þá var nýjum nemendum sagt að ég væri með AIDS.“

Þögn.

Þegar nýir krakkar byrjuðu í skólanum var þeim sagt að þeir fengju ekki að vera með eða yrðu jafnvel barðir ef þeir myndu umgangast mig.

Hún segist hafa verið ofboðslega reið á þessum árum og að það hafi svo ýtt enn meira undir eineltið. „Ég fór að svara fyrir mig þegar ég varð eldri. Ég trúði því lengi að ég væri svona ómögulegur pappír en svo átti ég reyndar erfitt með að skilja hvers vegna. Það virtist vera alveg sama hvað ég gerði; ég stuðaði samt fólk og það tengist því örugglega að ég er ekki eins og flestir. Ég er dálítið sér á báti og fer svolítið mínar eigin leiðir. Ég er auðtrúa; það er hægt að ljúga öllu að mér en ég á ekki von á því að fólk sé að ljúga. Ég var ekki eins og hinir krakkarnir og mig langaði heldur ekki til að vera eins og þeir.“

Guðrún segir að sumir kennarar hafi tekið þátt í eineltinu. „Ég hélt að þetta væri ímyndun í mér þangað til gömul skólasystir mín kom til mín þegar við vorum um tvítugt og sagðist oft hafa farið grátandi heim til sín eftir skóla af því að einn kennarinn var svo vondur við mig. Ef ég rétti upp hendina í tímum þá gat ég verið með hana uppi lengi og hann þóttist ekki sjá það en ef annar nemandi rétti upp hendi þá gekk hann strax til hans. Skólastjórnendur í öðrum grunnskólanum sem ég var í voru mér mjög góðir og voru stöðugt að finna leiðir til að reyna að láta mér líða betur.“

Jú, eineltið braut Guðrúnu niður. Sjálfsmyndin var löskuð.

- Auglýsing -

 

Sýra og hass

Hún byrjaði að sniffa í kringum fermingaraldur. Byrjaði að drekka tæplega 16 ára.

- Auglýsing -

„Ég man eftir fyrsta fylleríinu. Ég fann alsælu í líkamanum og ég var mjög fljót að þróa þetta. Ég fór hratt niður á botninn og fór í fyrstu meðferðina 19 ára eftir að hafa verið í neyslu og drykkju í margar vikur. Ég gat ekki meira.“

Hún segist aðallega hafa verið í sýru og hassi. „Þessi örvandi efni gerðu ekkert annað fyrir mig en að róa mig.“

Guðrún er spurð hvort hún sé með ADHD og hún segir svo vera. „Ég skildi ekki hvað fólk fékk út úr því að taka spítt.“

Hún hóf nám við FB og eftir annan íslenskutímann spurði íslenskukennarinn hana hvort hún væri lesblind; hún segist varla hafa vitað hvað það væri að vera lesblind. Það kom svo í ljós í kjölfarið að svo er.

Hún hætti í FB eftir fyrstu önnina. Fór að vinna og djamma. „Ég vann mikið í verksmiðjum og við umönnunarstöf næstu árin. Mér var skítsama um allt þegar ég var undir áhrifum og það var það sem ég leitaðist eftir.“

Hún segir að á neyslutímabilinu hafi hún upplifað sömu hluti og margar konur lenda í sem eru í neyslu. „Maður upplifði ofbeldi. Maður upplifði nauðgun.“ Hún segir að sér hafi nokkrum sinnum verið nauðgað og að hún líti á það ofbeldi sem hluta af fortíðinni. Hún hvorki kærði mennina sem nauðguðu sér né lét skoða sig hjá lækni í kjölfarið. „Ég kenndi sjálfri mér um þetta. Það nennti engin kona að fá þessar spurninga: Hvað varstu búin að drekka mikið? Hvernig varstu klædd? Hvað varstu að gera? Gafstu honum undir fótinn?“

Maður upplifði ofbeldi. Maður upplifði nauðgun.

Hún segist vera búin að fyrirgefa mönnunum sem nauðguðu sér en að annað sé að geta fyrirgefið verknaðinn. Hún segir að hugræn atferlismeðferð hjá sálfræðingi löngu síðar hafi hjálpað sér til að vinna úr áfallinu.

Botninum var svo náð í neyslunni og hún fór í enn eina meðferðina þegar hún var 23 ára og hefur verið edrú síðan.

Guðrún Hulda Fossdal

Kók, kaffi og sígarettur

„Ég var alveg eðlileg fram að kynþroska en þegar ég varð kynþroska þá fór eiginlega allt í rúst. Ég stækkaði um 14 sentímetra á örfáum mánuðum og þyngdist um 10 kíló. Allt kerfið ruglaðist og það kom ekki í ljós fyrr en ég var um þrítugt að ég er með einhvers konar hormónabrenglun sem olli þessu. Þetta var eins og jójó; stundum grenntist ég og stundum rauk ég upp í þyngd. Ég gat lést um 15 kíló á einum mánuði og ég gat líka þyngst um 10-15 kíló á stuttum tíma án þess að breyta um mataræði.“

Guðrún fitnaði óhóflega á unglingsárunum og þróaði í kjölfarið með sér átröskun. Hún segist aldrei hafa verið í ofáti; ekki einu sinni þegar hún var feitust en þá var hún um 120 kíló. „Ég svelti mig stundum og kastaði upp eftir að ég borðaði. Ég fór að hata líkama minn. Ég fór að hata matinn sem ég setti ofan í hann af því að ég var ekki eins og hinar stelpurnar; ég var feitari en þær. Það fólst í því ákveðin fróun að kasta upp þar sem ég hafði þá stjórnina. Blekkingin var mikil og ég taldi mér trú um að mér liði betur. Ég upplifði þó mikinn kvíða á þessu tímabili en þar sem ég er mikil Pollýanna að eðlisfari þá reyndi ég alltaf að sjá einhverja jákvæða punta við þetta allt saman.“

Hún flutti að heiman 17 ára og þá segir hún að ástandið hafi orðið verra. „Það var eiginlega enginn matur til heima já mér. Ég keypti ekki í matinn og fór að lifa á kóki, kaffi og sígarettum og fitnaði í kjölfarið. Ég fór svo að vikta mig áður en ég leyfði mér að borða og líka eftir að hafa borðað og svo kastaði ég upp til að fullvissa mig um að ég hefði alveg náð að tæma mig. Þessi tímabil stóðu yfir í hléum en ég fór svo að takast á við þetta þegar ég var 24 ára.“

Sjálfsmyndin var slæm á þessum árum. „Það var ekki fyrr en ég fór í bata af átröskuninni sem sjálfsmyndin fór að verða betri og ég fór að standa meira með sjálfri mér og vera sátt við þá manneskju sem ég er.“

Guðrún greindist svo með sjálfsofnæmissjúkdóminn rauða úlfa þegar hún var 32 ára en þá var hún næstum því komin í kjörþyngd og var farin að borða rétt og lifa heilbrigðu líferni. Hún fór þá að þyngjast aftur vegna sjúkdómsins.

Ég gat lést um 15 kíló á einum mánuði og ég gat líka þyngst um 10-15 kíló á stuttum tíma án þess að breyta um mataræði.

Guðrún Hulda Fossdal

Það var orðið erfitt að hreyfa sig, gigtin, sem hún er með, versnaði og hún var komin með kæfisvefn auk þess sem hún þurtti að fá stærri lyfjaskammta við sjúkdómnum þar sem líkaminn nýtti ekki upphaflega skammtinn nægilega. „Svo fannst mér ég vera orðin léleg móðir af því að ég var ekki nógu orkumikil til þess að fara og gera ýmislegt með stelpunum mínum og ég skammaðist mín líka fyrir að láta aðra sjá að þær ættu svona feita mömmu. Það eru varla til myndir af mér síðustu árin áður en ég fór í aðgerðina; ég var alveg hætt að leyfa myndatökur.“

Aðgerðin sem um ræðir er magaermisaðgerð sem Guðrún fór í fyrir þremur árum síðan? Hún tók lán fyrir aðgerðinni, sem kostaði 1,2 milljónir króna, og segir hún að hún hafi komið út í plús þar sem hún kaupi nú öðruvísi inn en áður og er líka hætt að reykja. Hún segist fara eftir öllum leiðbeiningum og að allt hafi gengið vel eftir aðgerðina. Hún er 163 cm og 52 kíló; segir að hún megi ekki vera léttari. „Það er búið að minnka lyfjaskammtana og ég hef aldrei mælst eins vel í vítamínum og steinefnum. Líkamleg heilsa er bara miklu betri.“ Það sama er að segja um andlega líðan. „Sjálfstraustið er alveg komið. Ég stend meira með sjálfri mér í dag. Ég er ákveðnari. Það að vera léttari hjálpar til með andlegu líðanina.“

Guðrún segir að það hafi komið sér á óvart að hún fær meiri hjálp en áður en hún grenntist og að það sé talað öðruvísi við sig en áður. „Ég upplifði samt aldrei að það væri talað niður til mín en það er komið öðruvísi fram við mig. Maður fær annað viðhorf frá samfélaginu.“

Jú, Guðrún segist vera Pollýanna í sér; að hún sjái almennt jákvæðu hliðarnar á málunum. Hún er óvinnufær vegna rauðu úlfanna. Hún kláraði á sínum tíma skrifstofubraut MK og langar til að vinna við bókhald. „Mig langar til að upplifa að maður sé að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir samfélagið; að maður sé að leggja sitt af mörkum.“

Guðrún segir að það hafi komið sér á óvart að hún fær meiri hjálp en áður en hún grenntist og að það sé talað öðruvísi við sig en áður.

Guðrún Hulda Fossdal

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -