Verkalýðsfélagið Hlíf birti á vef sínum bréf sem félaginu barst frá leikskólakennara í Hafnarfirði, þar sem kennarinn biður börn og foreldra afsökunar á því að geta ekki sinnt starfi sínu nógu vel vegna skorts á starfsfólki á leikskólanum.
Í bréfinu skrifar leikskólakennarinn að starfsfólk skólans sé að sligast undan álagi vegna manneklu, sem er vegna veikinda, fólk sé að brenna út, vinnutímastyttingar og fjarveru leikskólakennara við umönnun og kennslu þar sem ekki kemur starfsfólk til að leysa af vegna undirbúningstíma þeirra.
Þá segir hann of mörg börn vera á hvern starfsmann og of lítið rými fyrir börn og starfsfólk og líkir því við síld í tunnu.
Þess vegna vil ég biðja börnin á leikskólanum afsökunar.
Mig langar að biðja barnið afsökunar sem ég gat ekki tekið í fangið og huggað eftir að það var bitið í handlegginn, vegna þess að ég þurfti að stoppa gerandann svo fleiri börn yrðu ekki bitin.
Ég vil biðja litla drenginn afsökunar sem ég gat ekki leyft að fara inn þegar honum var kalt – vegna þess að það var enginn starfsmaður inni. (Ég gat sett á hann nýja vettlinga og knúsað hann).
Eins vil ég biðja barnið afsökunar sem ég þurfti að klæða í drulluskítug og rök föt á mánudagsmorgni, ég hafði ekki fleiri föt til að lána.
Ég vil biðja litlu börnin afsökunar á að flýta mér að skipta á bleyjum og klæða þau í útiföt. Það er ekki tími til að spjalla eða setja orð á athafnir þar sem það bíða grátandi börn eftir þjónustu, skrifar leikskólakennarinn.
Hann heldur afsökunarbeiðninni áfram og biður hópinn sinn afsökunar á að geta ekki klárað lestrar- og vinnustundir vegna eins nemanda sem tekur alla athyglina og þyrfti á stuðningi að halda sem ekki er til staðar.
Að lokum vil ég biðja foreldra afsökunar á að hafa lítinn tíma í spjall í lok dags, vegna fjölda barna í langri vistun og fárra starfsmanna seinni partinn.
Hvar er virðingin fyrir börnunum okkar? Hún sést ekki í launaumslaginu eða í vinnuaðstöðu okkar. Það er talað um á tyllidögum að við kennarar sinnum merkilegasta starfinu. En afsakið – það eru bara falleg orð á blaði.