Faðir nokkur skrifaði færslu á Facebook á dögunum sem vakið hefur mikla athygli.
Segir hann að gengi hafi gengið í skrokk á syni sínum af tilefnislausu um helgina:
„Það er orðið langt síðan ég hef orðið reiður eins og í dag þegar ég fékk þær fréttir að ráðist hafi verið á son minn af tilefnislausu og nú liggur hann á spítala höfuðkúpubrotinn.
Það ætti að refsa svona mönnum með hörðum dómi. Hvað fær menn til þess að berja og sparka í höfuðið á fólki. Þessi ómenning sem þrífst í bænum um helgina er okkur til skammar. Ætti að fækka börum og loka þeim í síðasta lagi klukkan 23.“
Í samtali við Mannlíf sagði faðirinn að sonur hans 27 ára, hafi verið í bíl með félögum sínum í Miðbæ Reykjavíkur og hafa skroppið út úr bílnum í örskamma stund.
Hafi þá hópur manna rétt undir tvítugu, veist að honum og barið hann niður í götuna:
„Þar sparka þeir stanslaust í höfuðið á honum. Þeir eru alveg stórhættulegir, þessi menn.“
Sonurinn dvelur ekki lengur á spítalanum enda lítið pláss þar að finna. Að sögn föður hans er lítið hægt að gera en að bíða og jafna sig:
„Það er mikið mar við heilann, skilst mér af lækninum sem ég talaði við.“
Faðirinn segir þá feðga hafa kært málið og ætla þeir ekki að gefa neitt eftir:
„Ég ætla ekki að gefa mínútu eftir af þessu. Mér finnst þetta vera orðin svo ofboðsleg ómenning í bænum og ég bara skammast mín fyrir að vera Íslendingur stundum því ég er mikið með útlendinga og það er bara enginn að fara út á kvöldin.“
Mannlíf hefur eftir heimildum að um sé að ræða gengi ungra manna sem stundi það að ráðast á grandarlaust fólk og berja það til óbóta.