Áhrifavaldurinn Edda Falak er ekki ánægð með Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, en Þóra var gestur í hlaðvarpinu Karlmennskan þar sem hún ræddi viðtal sitt við leikarann atvinnulausa Þóri Sæmundsson, sem hefur ekki fengið vinnu í fjögur ár: eða eftir að upp komst um typpamyndasendingar hans.
„Við höfum fengið þakkir að opna á erfiða umræðu sem þessa, einnig miklar skammir fyrir að hafa ekki tekið umræðuna lengra. Við tökum til okkar að það hafi ekki verið nægilega skýrt það sem við vorum að segja og er gagnrýnin að mörgu leyti réttmæt,“ voru orð Þóru.
Bætti við
„Viðmælandi verður að taka ábyrgð á sinni hegðun. Við getum ekki sagt að við tölum ekki við ósympatískt fólk. Gott og sterkt samfélag hjálpar þér aftur inn á hana og verðum við að horfast í augu við það að fullorðið fólk átti sig á afleiðingum gjörða sinna, en það sé ekki alltaf þannig.“
Áðurnefnd Edda Falak segir á Twitter-síðu sinni að hún hafi hlustað á þáttinn og „eftir að hafa hlustað á þáttinn með Þóru langar mig til þess að minna á að það eiga ekki allir heima í umræðunni. Ofbeldismaður sem upplifir sig sem fórnarlamb á ekki heima í viðtali, hann á heima þar sem hann getur fengið hjálp,“ segir Edda og bætir þessu við:
„Þóra talar um Þóri sem mann á gráu svæði því hann hafi ekki verið kærður. Já Þóra, því konur sem kæra eru yfirleitt geðveikar, þú sást nú hvernig fór fyrir Aldísi Schram. Það er svo súrrealískt að mæta í viðtal og ranta um að gera samfélagið betra þegar þú ert nýbúin að taka meintan ofbeldismann í drottningarviðtal og fylla kommentakerfið af þolendaskömm og viðbjóð. Það var bara ekki þörf á því, við vorum komin lengra en það í umræðunni. Minni á: Ef þú ert ekki búin að axla ábyrgð, biðja þolendur þína afsökunar og leyfi til þess að mæta í viðtal og tala um það sem þú gerðir að þá átt þú ekki heima í umræðunni, bara punktur. Allt annað en narcissism og gaslýsing.“