Hrafnhildur Tinna Sveinsdóttir flugfreyja hefur misst fimm mánuði frá vinnu vegna krabbameinsmeðferðar og veikinda vegna brjóstakrabbameins sem hún greindis með í sumar. Hún hefur þurft að fara í tvær stórar aðgerðir en Sjóva segir hana ekki vera með rétta krabbameinið til að geta fengið greitt vegna vinnutapsins.
Fréttablaðið greindi frá og ræddi við Hrafnhildi sem er sjúkdómatryggð hjá Sjóva. Hún á eftir að fara í þriðju aðgerðina snemma á næsta ári og hvetur alla til að skoða vel tryggingamál sín. „Ég fer í brjóstnám og þessu fylgir síðan tvær stórar aðgerðir með svæfingu. Það er staðbundið krabbamein, áður en það fer að dreifa sér. Þar sem það var ekki farið að dreifa sér og þeir náðu krabbameininu snemma þá vilja þeir ekki greiða mér. En vinnutapið og áfallið er ennþá það sama,“ segir Hrafnhildur Tinna sem starfar sem flugfreyja hjá Icelandair:
„Ég mun lenda í enn meira vinnutapi og er í veikindaleyfi núna. Þetta er svo fúlt að fá bara neitun þegar maður hefur borgað stórar upphæðir í tryggingarnar árum saman. Þegar þú kaupir þér sjúkdómatryggingu ertu ekkert að skoða hvað er undanskilið. Þegar maður kaupir sér sjúkdómatrygginguna er maður ekkert að spá í það. Þetta er held ég eitt algengasta krabbameinið hjá konum.“