Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Lára Garðars teiknaði Jesú með brjóst: „Árið þar sem ég teiknaði allt sem „ekki“ mátti, á strætó“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lára Garðarsdóttir er fædd í Reykjavík 21. ágúst 1982. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 2001, diplómunámi í klassískri teikningu og BA í kvikun (Character Animation) frá háskólanum í Viborg, Danmörku, árið 2008.

Henni er margt til lista lagt og ein af þeim sem er oft með marga bolta á lofti í einu. Hún er teiknari, rithöfundur og ýmislegt fleira skapandi en líkurnar á að þú hafir séð teikningu eftir hana eru nánast 100%. Lára hefur ótrúlega þægilega nærveru og yfir henni er einhver einstök ró. Mannlíf ræddi við hana um lífið og tilveruna, ástríðuna, stóra Jesúmálið og nýju barnabókina hennar sem var að koma út.

Lára Garðarsdóttir
Mynd: Saga Sig

Aðspurð segist Lára vera intróvert með mikla réttlætiskennd. „Ég er svolítill skellibjöllu-intróvert sem er með bilaða réttlætiskennd og hef gaman af sögum. Ég er rithöfundur, teiknari, kvikari, hönnuður og flest það sem nýta mætti til frásagnar.“

Lára segir rætur sína liggja víða, allt frá Vesturbæ Reykjavíkur, austur á Hérað og suður til Indlands. Hún er í sambúð með Þresti Elvari Óskarssyni en saman eiga þau hund, kött og nokkra fiska eða eins og hún kallar heimilið, „sannkallaður dýragarður.“

Blaðamaður Mannlífs er ekki frumlegri en það en að spyrja hana að örlagadísunum gömlu og góðu en honum til varnar, koma oft góð svör við spurningunni. Svo hvert hafa þær leitt Láru í gegnum tíðina?

„Heilt yfir má segja að þær leiði mig alltaf á betri stað. Ég er ekki frá því að þær séu mér
hliðhollar. Þær hafa leitt mig frá aðstæðum og einstaklingum sem hafa ekki verið mér hollar/ir og gefið mér möguleikann á að starfa og lifa af ástríðunni. Ég hef alltaf keppt við kvíðann en keppnisskapið og eljan hafa blessunarlega haft yfirhöndina.“

- Auglýsing -

Þegar Lára er spurð út í helstu sigra og töp í lífinu, hnýtir hún þessa póla saman í eitt svar.

„Nú langar mig að nefna eitthvað afrek eða viðurkenningu tengdri vinnunni minni, en þá væri ég að ljúga. Minn helsti sigur er að ná mér eftir andlegt hrun, sem leiddi til kulnunar. Mér leið eins og húsi með morkinn grunn og var þess handviss um að eina leiðin væri að rífa kofann. En eftir sleitulausa vinnu með góðu fólki hef ég aftur löngunina á að skapa og tengjast.“

Lára hefur komið víða við í störfum sínum og unnið að ýmsum verkefnum og sum þeirra hafa reyndar ekki farið vel ofan í alla. Allir muna eftir stóra Jesúmálinu, þegar Jesú með brjóst birtist á strætisvagni og allt ætlaði vitlaust að verða. Það var sem sagt Lára sem teiknaði þennan Jesú að beiðni Kirkjunnar.

- Auglýsing -
Lára hoppandi glöð með strætóferðina

„Hvað get ég sagt?“ svarar Lára og hlær. „Mér var falið að teikna Jesú sem konu. Það fór víst ekki framhjá neinum. En þetta var lærdómsríkt og máttur teikningarinnar sannaði sig enn eina ferðina. Ég er enn stolt af verkefninu með Kirkjunni en á sama tíma hryggir það mig. Það hryggir mig að við séum ekki komin lengra sem samfélag í að fagna fjölbreytileikanum.“

En þetta var ekki eina umdeilda teikningin sem Lára teiknaði utan á strætisvagn árið 2020.

„2020 var svolítið árið sem þar ég teiknaði allt sem „ekki“ mátti, á strætó. Fyrst teiknaði ég „barnavagninn” fyrir ljósmæður og svo trans-Jesú! Eftir rúmt ár fæ ég loksins tækifæri á að leiðrétta að ég teiknaði aldrei farða á Jesú – sannanlega fékk hann/hún/hán brjóst en aldrei farða,“ segir Lára brosandi.

En hvað ætli hafi kveikt áhuga Láru á teikningum?

„Um það leyti sem ég varð ástfanginn af Bart Simpsons, sirka þegar ég var 8 ára. En guð forði mér frá að ég hafi ætlað eða látið mig dreyma um að vinna við það.“

Lára segist sækja orku og ró í náttúruna. „Það er fátt eitt sem getur fangað
huga manns og fiðrað hjartað eins og náttúran. En hún hræðir líka. Ætli ég sé ekki helst
náttúrubarn í blíðviðri.“

En hvað gerir Lára þegar hún er ekki að vinna? Hún hlýtur að eiga sér áhugamál eins og flestir eða hvað?

„Ég skapa mér til skemmtunar þó verkfærin geti verið mismunandi. Miðillinn veltir á skapi og nennu. Auk þess hef ég dálæti af hvers kyns viðhaldi, jafnundarlega og það kann að hljóma. En uppbygging gamalla húsa og að skapa fallegan ramma utan um tilveruna, skreyta hana og fegra finnst mér skemmtilegt. Alveg að fólkinu og dýrunum mínum ólöstuðum, án þeirra væri auðvitað ekkert í heiminum skemmtilegt.“

Lára hefur verið mynd og rithöfundur þó nokkurra bóka en í ár kemur út þriðja barnabókin sem hún skrifar sjálf og teiknar myndirnar í. Áður hafði hún gefið úr tvær barnabækur og teiknað myndirnar í þeim líka. Það eru bækurnar Flökkusaga sem hún gaf út sjálf árið 2016 og Blesa og leitin að grænna grasi sem Salka gaf út 2019. Nýja bókin heitir Þegar ég verð stór en það er Salka sem gefur hana út. Fyrir Flökkusögu hlaut Lára viðurkenningu IBBY og var hún einnig gefin út á ensku undir heitinu Bear With Me. Þá var Lára einnig tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar fyrir teikningarnar í bókinni Fjölskyldan mín í flokknum bestu myndskreytingarnar.

En að nýju bókinni, Þegar ég verð stór.

„Sagan eða ljóðið er tileinkað Bertram Snæ, systursyni mínum og er skrifað þegar hann var árs gamall. Það má teljast óvenjulegt en þá varð sagan fyrst að teiknimynd áður en hún kom út í bókarformi 14 árum seinna. En hún var skrifuð á ensku og var lokaverkefnið mitt sem kvikari (character animator).“

Lára og nýja bókin

En um hvað er bókin? Hver er boðskapurinn?

„Við þekkjum víst öll tilfinninguna um að láta okkur dreyma um allt það við ætlum þegar við erum orðin stór, klárum skólann, heimanámið, komin í frí, þegar hann lygnir eða hvað sem okkur finnst vera að hefta okkur. Draumanna má njóta, þeir stytta okkur stundir og oft þarf ekki meira til til að njóta stundarinnar. En þeir eru og þurfa ekki að vera meira en bara það. Framtíðin má alveg vera galopnar dyr.“

Mannlíf þakkar Láru fyrir samtalið og óskar henni góðs gengis í jólabókaflóðinu sem virðist ætla að verða flennistórt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -