Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, telur reglur á Íslandi um leigubílaleyfi ekki vera í samræmi við EES-samninginn og hefur tekið næsta skref í meðferð samningsbrotamáls með því að afhenda íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.
Fyrsta skref í málinu var tekið í janúar þegar ESA sendi Íslandi formlegt áminningarbréf.
ESA getur vísað málinu fyrir EFTA-dómstólinn ef Ísland bregst ekki við með fullnægjandi hætti innan tveggja mánaða.
Dregur úr samkeppni og nýsköpun
Samkvæmt núverandi löggjöf þarf atvinnuleyfi til þess að mega aka leigubíl á ákveðnum svæðum, gert ráð fyrir að leigubílstjórar tengist leigubílastöð á skilgreindu svæði og hafi aksturinn að aðalstarfi. Þetta telur ESA vera ólögmæta takmörkun á rétti fólks til að stofna til varanlegrar atvinnustarfsemi í öðru aðildarríki, eða svokölluðum staðfesturétti. Þetta dragi úr samkeppni og nýsköpun og leiði til hærra verðs fyrir neytendur. Takmarkanir á staðfesturétti séu aðeins lögmætar vegna brýnna almannahagsmuna. Það eigi ekki við í þessu tilfelli.