Eftirstöðvar af verðtryggðu láni upp á 35 milljónir króna, sem tekið var í nóvember árið 2004, eru nú rúmlega 55 og hálf milljón króna. Nánar tiltekið, 55.713.001 króna.
Það þýðir að nú, sautján árum eftir að lánið var tekið, eru eftirstöðvarnar rétt rúmlega 59 prósentum hærri en upprunaleg lánsupphæð.
Á nýjustu kvittun lántaka gefur að líta sundurliðun á greiðslu nóvembermánaðar:
Heildarupphæð til greiðslu er 309.133 krónur.
Sú upphæð skiptist á eftirfarandi hátt:
Afborgun á nafnverði 52.890 krónur
Afborgun verðbóta 60.331 króna
Vextir 91.275 krónur
Verðbætur v/vaxta 104.117 krónur
Tilkynningar- og greiðslugjald 520 krónur
Einungis 52.890 krónur af þessum 309.133 krónum fara í afborgun á nafnverði, inn á höfuðstólinn. Það þýðir að 256.243 krónur fara í önnur gjöld. Í prósentum talið eru það því aðeins rúm 17 prósent af heildarupphæð mánaðarlegrar afborgunar sem fara inn á höfuðstólinn, á meðan önnur gjöld nema tæplega 83 prósentum.
Fyrir afborgun nóvembermánaðar stendur höfuðstóll lánsins í 26.078.601 krónu. Eftir afborgunina stendur höfuðstóllinn því í 26.025.711 krónum.
Áfallnar verðbætur eftir greiðslu nóvembermánaðar eru 29.687.290 krónur. Þetta þýðir að af eftirstöðvum lánsins, ríflega 55 og hálfri milljón, er rúmlega helmingurinn verðbætur. Verðbæturnar einar og sér eru orðnar hærri en sjálfur höfuðstóllinn, eða nafnverðið.
Lán með verðtryggingu eru uppreiknuð út frá spám um hækkun vísitölu neysluverðs. Þetta lán, sem á lántökudegi var upp á 35 milljónir króna er út frá þessum spám uppreiknað í 74.924.179 krónur. Það er sú upphæð sem gert er ráð fyrir að lántakinn hafi greitt fyrir lánið í heildina þegar lánstíma lýkur.
Vextir á þessu verðtryggða láni eru 4,20 prósent.
Deyjandi verðtrygging?
Umræðan um verðtryggð lán skýtur reglulega upp kollinum. Margoft hefur verið bent á gegndarlausa gróðastefnu lánastofnana í samanburði við lánastofnanir á hinum Norðurlöndunum. Raunar virðist verðtryggingin á Íslandi vera einsdæmi; í það minnsta er ekkert í líkingu við verðtryggingu við lýði á húsnæðislánum í þeim löndum sem við alla jafna berum okkur helst saman við.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, skrifaði nýlega athyglisverðan pistil um verðtrygginguna í Morgunblaðið.
Þar reifar hún í stuttu máli niðurstöður skýrslu sem liggur að hennar sögn inni í félagsmálaráðuneytinu og hefur ekki fengist birt.
Ásthildur Lóa segir niðurstöður skýrslunnar staðfesta málflutning þeirra sem barist hafa gegn verðtryggingu neytendalána, en hún hefur sjálf verið ötul í þeim hópi. Hún segir að jafnvel sýni skýrslan fram á enn meiri skaða en þau töldu til staðar.
„Í stuttu máli staðfestir skýrslan að verðtryggingin hreinlega valdi verðbólgu og háum stýrivöxtum auk þess að hafa gríðarleg áhrif á leiguverð og stöðuga hækkun þess. Verðtryggingin er þannig ekki nauðsyn vegna verðbólgu, heldur er hún hreinlega einn helsti orsakavaldur hennar og þótt aðrir þættir spili vissulega inn í, þá gerir verðtryggingin bara illt verra,“ segir Ásthildur Lóa í pistli sínum.
Þessi misserin standa landsmenn einmitt frammi fyrir hækkun stýrivaxta. Það hefur aftur valdið því að bankar hækka útlánsvexti sína. Það getur síðan haft hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir til dæmis lántaka óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum. Í tilfelli verðtryggðra lána er það hins vegar höfuðstóllinn sjálfur sem hækkar – grunnlánið sjálft verður hærra og gerir að verkum að eignarhlutfall lántaka rýrist.
Þarna er ef til vill ágætt að staldra við og rifja upp að seðlabankastjóri sagði sjálfur í viðtali í hlaðvarpsþætti Snorra Björnssonar í sumar að hann ráðlegði lántökum með óverðtryggð lán að festa vextina á láninu, jafnvel þótt vextirnir yrðu hærri. Með því varaði hann við komandi stýrivaxtahækkunum, sem nú hafa raungerst. Þeir sem ekki fylgdu ráðum hans horfa nú fram á hækkun breytilegra vaxta hjá lánastofnunum sínum, en þessi hækkun getur valdið stórslysi fyrir heimilin í landinu.
Fáir sem vit hafa á málunum virðast ráðleggja fólki að taka verðtryggð lán, nema þá helst bankarnir sjálfir, sem virðast oft treysta á að lántakar hugsi einungis mánuð fram í tímann. Að fólk horfi einungis á lægri mánaðarlegar afborganir verðtryggðra lána og sjái þar með hag sínum betur borgið innan þess fyrirkomulags. Að fólk athugi ekki hve mjög höfuðstóll verðtryggðs láns komi til með að hækka á lánstímanum. Svo ekki sé talað um þær umtalsverðu fjárhæðir sem fara í verðbætur – og verðbætur vegna vaxta.
Með óverðtryggðum lánum borgar lántakinn meira í upphafi, vextir eru hærri og þar með mánaðarlegar afborganir, en eignamyndun er sömuleiðis hraðari. Engar verðbætur leggjast á höfuðstólinn.
Raunar hefur Ásgeir seðlabankastjóri sagt að hann spái því að verðtryggingin sé smátt og smátt að fara að deyja út. Það muni gerast eftir því sem fleiri lántakar endurfjármagni lán sín og breyti þeim í óverðtryggð.
„Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út,“ sagði seðlabankastjóri í viðtali við Fréttablaðið í júní árið 2020.
Það eru þó alls ekki allir sem hafa efni á því að endurfjármagna lánin sín – því fer fjarri. Til þess þarf eign lántaka að vera orðin verðmeiri. Sem getur reynst ansi snúið þegar höfuðstóll lánsins hefur stökkbreyst í verðbólgu og viðkomandi lántaki á skyndilega mun minna í eign sinni en hann átti þegar lánið var tekið. Það sem getur þó vegið upp á móti er hækkað fasteignamat eignar, sem skilar sér í hærra metnum eignarhlut. Hækkað fasteignamat er þó yfirleitt ekki í samræmi við stökkbreytingu á höfuðstól verðtryggðs láns á verðbólgutímum.
Í reiknivél á vefsíðu Landsbankans má glöggva sig á muninum á verðtryggðu og óverðtryggðu láni. Ef við gefum okkur kaup á íbúð á 55 milljónir króna, með 80 prósenta láni frá Landsbankanum (útborgun þyrfti þá að vera 11 milljónir króna, nema um sé að ræða fyrstu íbúð, en þá má taka lán upp á 85 prósent kaupverðs hjá Landsbankanum), lítur reikningsdæmið svona út (í öllum tilfellum þarf að taka svokallað 15 ára viðbótarlán, sem ávallt er óverðtryggt):
Óverðtryggt lán:
30 ára grunnlán með 3,85% breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum
15 ára viðbótarlán með 4,85% breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum
Fyrsta mánaðargreiðsla: 283.490 krónur.
Áætluð heildargreiðsla yfir lánstímann: 68.372.043 krónur.
Blandað lán – 50% verðtryggt, 50% óverðtryggt:
30 ára óverðtryggt grunnlán með 3,85% breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum.
30 ára verðtryggt grunnlán með 2,2% föstum vöxtum og jöfnum afborgunum.
15 ára óverðtryggt viðbótarlán 4,85% breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum.
Fyrsta mánaðargreiðsla: 257.456 krónur.
Áætluð heildargreiðsla yfir lánstímann: 87.329.811 krónur.
Reiknað út frá verðbólguspá upp á 4,35 prósent.
Verðtryggt lán:
30 ára verðtryggt grunnlán með 2,2% föstum vöxtum og jöfnum afborgunum.
15 ára óverðtryggt viðbótarlán með 4,85% breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum.
Fyrsta mánaðargreiðsla: 231.183 krónur.
Áætluð heildargreiðsla yfir lánstímann: 106.201.190 krónur.
Reiknað út frá verðbólguspá upp á 4,35 prósent.
Ekki náttúrulögmál
Í pistli sínum í Morgunblaðinu kallar Ásthildur Lóa eftir því að stjórnvöld taki afstöðu með fólkinu í landinu með því að forgangsraða í þeirra þágu, frekar en í þágu banka- og fjármálafyrirtækja.
Hún fer yfir hagnað bankanna, sem enn fer hækkandi. „Um mitt ár var samanlagður hagnaður þeirra frá hruni orðinn 900 milljarðar og nú hafa a.m.k. 60 milljarðar bæst við.“
Hún segir heimilin í landinu ekki vera „ótæmandi auðlind fyrir fjármálakerfið“.
„Þetta fé verður ekki til úr engu. Það kemur frá okkur, fólkinu í landinu, í formi okurvaxta og verðtryggingar og það er látið eins og þeir sem eiga að gæta hagsmuna fólksins í landinu, séu bara algjörlega valdalausir gagnvart þessu, eins og þetta sé eitthvert náttúrulögmál, en svo er ekki,“ segir Ásthildur í pistlinum.
Það er svo aftur rannsóknarefni, eins og Ásthildur veltir upp í skrifum sínum, hvernig það má vera að fyrirtæki sem sýna svona „stjarnfræðilegan hagnað“ geti á sama tíma hækkað verðskrá sína.
Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan: