Helgi Jóhannesson sagði upp starfi sínu hjá Landsvirkjun í lok október en þar starfaði hann sem yfirlögfræðingur. Gerði hann það í kjölfar áminningar sem hann fékk vegna hegðunar í starfi.
Stundin greinir frá því í dag að hann hafi ítrekað kallað samstarfskonu sína „lessulega“ fyrir framan aðra starfsmenn og þá hafi hann í einu tilviki króað hana af úti í horni og strokið henni um vanga.
Kjarninn greindi frá því í september síðastliðnum að 11 tilvik hafi komið upp, síðustu fjögur ár, er varða ásakanir um kynferðislega áreitni, áreiti eða ofbeldi hjá Landsvirkjun.
Þá hafi hann beðið hana afsökunar og boðið henni að klípa sig í rassinn. Er hann sá eini af æðstu stjórnendum Landsvirkjunar sem hefur beðið konuna afsökunar.
Samkvæmt Stundinni sendi Helgi eftirfarandi póst á samstarfsfólk sitt þegar hann hætti:
„Ég vil upplýsa ykkur um að ég hef af persónulegum ástæðum samið um starfslok hjá Landsvirkjun. Tíminn hér hefur verið mjög lærdómsríkur og ánægjulegur, en á sama tíma hef ég lent í óbærilegum áskorunum í einkalífinu.“
Stundin spurði hann nánar út í uppsögnina, hvort hún hafi komið til vegna áminningarinnar. „Ég vildi hætta hjá Landsvirkjun og óskaði eftir starfslokum. Meira er ekki um það að segja,“ svaraði Helgi.