Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Elín Aradóttir byrjaði á að framleiða 100 púða: „Stefni á að selja 50 þúsund stykki fyrir árslok“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ævintýraheimur þar sem ýmsir nytjahlutir sem flestir eru skreyttir myndum tengdum íslenskri náttúru er að finna í lítilli verslun á jörðinni Hólabaki um 22 km fyrir vestan Blönduós. Þar eru til sölu vörur fyrirtækisins Tundru sem Elín Aradóttir rekur en hún og eiginmaður hennar, Ingvar Björnsson, eru bændur á bænum, þar sem rekið er kúabú, auk þess sem tengdaforeldrar hennar reka þar hrossarækt.

Heyrst hefur að Tundra skili meiri hagnaði heldur en kúabúið. Er eitthvað til í þeim sögusögnum? „Nei, það er ekki svo, kúabúskapurinn hefur sigið fram úr Tundru á undanförnum misserum en við erum að reyna að auka framleiðsluna í mjólkinni. Tundra er samt rekstur sem stendur undir um það bil tveimur ársverkum.“

Elín Aradóttir

Elín ólst upp á bænum Hrísum í Reykjadal í Þingeyjarsýslu. Hún er kennaramenntuð og tók myndlist sem aðalgrein. Hún er auk þess rekstrarfræðingur og með meistarapróf í skipulags- og þróunarfræði og vann um árabil meðal annars sem viðskipta- og atvinnuráðgjafi. Hjónin höfðu búið á Akureyri í 10 ár þegar þau tóku við kúabúi foreldra Ingvars.

Nei, það er ekki svo, kúabúskapurinn hefur sigið fram úr Tundru á undanförnum misserum en við erum að reyna að auka framleiðsluna í mjólkinni.

 

Hrúturinn

- Auglýsing -

Það var árið 2011 sem Elín fékk hugmynd að gjöf fyrir föður sinn og föðurbróður. Faðir hennar átti hrút og var til falleg mynd af honum og datt Elínu í hug að láta framleiða nokkra púða með mynd af hrútnum og gefa bræðrunum. „Svo reyndist framleiðslan svolítið flóknari og það þurfti stærra upplag heldur en fyrir ættmennin og þannig vatt þetta upp á sig,“ segir Elín sem lét framleiða 100 púða með mynd af hrútnum framan á. Hún stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Lagð og fór að framleiða púða með myndum af fleiri dýrum og á sumum þeirra eru landslagsmyndir. Í dag eru til um 40 gerðir af púðaverum og segir Elín að vonandi náist það fyrir lok árs að vera búin að selja 50.000 púðaver.

Elín Aradóttir

Fyrstu árin var lögð áhersla á heildsöludreifingu á púðaverum. Lagður er enn til sem vörumerki en árið 2018 ákvað Elín að stíga það skref að stofna annað merki, Tundru, og fór þá að framleiða talsvert fjölbreyttari vörur, meðal annars sængurfatnað, og í tengslum við það fór hún að leggja meiri áherslu á smásölu í gegnum sína eigin vefverslun, tundra.is. Áður hafði hún mest verið að dreifa í genum aðra söluaðila. „Við höfum síðan 2018 smátt og smátt bætt við vörum og reynt að vinna markaði í smásölunni. Árið 2020 var eins og gefur að skilja mjög erfitt ár í heildusöludreifingu á vörum til ferðamannaverslana sem eru lykilviðskiptavinir fyrir púðaverin þannig að í fyrra setti ég talsverðan kraft í markaðssetningu á öðrum vörum og þá í beinni sölu í gegnum vefverslunina mína.“

Í dag eru til um 40 gerðir af púðaverum og segir Elín að vonandi náist það fyrir lok árs að vera búin að selja 50.000 púðaver.

- Auglýsing -

 

Í hæstu gæðum

Hún sem ólst upp í sveitasælunni og býr núna í sveitasælunni leggur áherslu á íslenskar náttúruljósmyndir; myndir af gróðri og dýrum og í einhverjum tilvikum landslagi. „Góðar ljósmyndir eru grunnurinn í vöruhönnuninni en síðan leggjum við mikla áherslu á að vera með gæðaefni en öll vefnaðarvara sem við notum er í hæstu gæðum. Við höfum líka verið mjög lánsöm með það að ná góðum viðskiptatengslum við flott fyrirtæki sem prenta fyrir okkur,“ segir Elín og bætir við að meðal annars púðaverin séu saumuð á Íslandi. „Mér finnst skipta miklu máli að íslenskar saumakonur sjá um saumaskapinn; það liggur við að ég geti sagst geta stært mig af því að vera með íslenska framleiðslu þótt svo sé ekki með allar vörurnar en púðaverin hafa allavega verið saumuð á Íslandi síðastliðin níu ár. Ég legg mikið upp úr því að vera með það besta sem ég get fundið og sem dæmi þá eru te- eða kraffikrúsir framleiddar fyrir mig í Stoke á Mið-Englandi þar sem er aldalöng hefð fyrir framleiðslu á því sem þeir kalla Fine Bone China.“

Hún sem ólst upp í sveitasælunni og býr núna í sveitasælunni leggur áherslu á íslenskar náttúruljósmyndir; myndir af gróðri og dýrum og í einhverjum tilvikum landslagi.

Elín Aradóttir

 

Silkifjallið

Náttúran. Þessi náttúra. Hvað er íslensk náttúra í huga Elínar sem býr í sveitasælunni og selur nytjahluti skreytta þessari dásemd sem náttúran er?

„Ég ólst upp í sveit og hef búið á landsbyggðinni nánast allt mitt líf. Náttúran er órjúfanlegur hluti af tilverunni. Við sem búum í dreifbýlinu finnum meira fyrir henni vegna þess að við erum háðari henni. Við sem bændur erum háð veðri, vindum og uppskeruaðstæðum. Við finnum líka fyrir náttúrunni þegar hún byrstir sig. Við höfum til dæmis lent í því að vera rafmagnslaus í talsverðan tíma í illviðri. Maður er ansi nærri náttúruöflunum þegar maður býr svona í íslenskri sveit á norðurhjara.“

Útsýnið frá Hólabaki er fallegt. Vatnsdalsfjall stendur tignarlegt í austri og skreytir mynd af því silkislæður sem Elín framleiðir. Í vestri blasir Víðidalsfjall við. Mynd af því skreytir eina gerðina af sængurverunum frá Tundru. Vetrarkyrrð er það sængurver kallað.

Elín Aradóttir

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -