Agnieszka Ewa Ziólkowska er nýr formaður Eflingar og kemur til með að gegna því fram að næstu formanns- og stjórnarkosningum. Efling mun halda áfram róttækri stefnu sinni í málefnum verka- og láglaunafólks samkvæmt henni.
Agnieszka er 37 ára gömul og fæddist í Póllandi. Hún hefur búið hér á landi í 15 ár og segist hún alla tíð hafa unnið láglaunastörf – og verið í Eflingu lengst af, hún var í viðtali hjá Kjarnanum.
Agnieszka segist ekki ætla að taka afstöðu með eða á móti fyrrum forystu eða starfsfólki Eflingar – hún segir að hún virði skoðanir allra sem hlut eiga að máli. Hún telur enn fremur að öldurnar hafi tekið að lægja og finnur hún ótvírætt fyrir stuðningi innan stéttarfélagsins til að halda áfram baráttunni. Hennar áhersla varði fyrst og fremst félagsmenn Eflingar og þjónustu við þá.
Faðir hennar bjó á Íslandi og bauð henni að koma hingað í frí fyrir hálfum öðrum áratug.
„Ég bara elskaði Ísland þegar ég sá landið og ég ákvað að ég vildi eiga hér heima. Áður en ég flutti hafði ég í huga að kaupa mér íbúð í Póllandi og safna fyrir henni með einhverjum hætti. En þegar ég kom til Íslands gerði ég mér grein fyrir því að ég vildi ekki íbúð í Póllandi heldur var draumur minn að festa rætur hér í staðinn.“
Agnieszka var mjög virkur trúnaðarmaður og segist hún meðal annars hafa skipulagt verkföll fyrir síðustu kjaraviðræður. Í gegnum það ferli kynntist hún verkalýðshreyfingunni enn frekar og einnig starfsfólki Eflingar.
„Þetta leiddi mig að þeim tímapunkti að ég var kjörin varaformaður stéttarfélagsins árið 2019.“ Hún hafði þá nýlega eignast barn og því hóf hún störf hjá Eflingu stuttu seinna eftir fæðingarorlof.
Þegar hún er spurð um næstu skref innan Eflingar segir hún: „ég tel að við munum stíga nauðsynlegt skref til að leysa málin farsællega. Við verðum að tryggja það að stéttarfélagið geti haldið áfram að starfa fyrir félagsmenn sína.“