Ullarsaga Íslendinga er frá landnámi lituð af áföllum og gjaldþrotum en einnig góðæristímabilum þar sem iðnaðurinn var blómlegur. Líklega náði ullariðnaður Íslendinga á síðustu öld hápunkti þegar hið frábæra tískufyrirtæki Hilda hf. flutti út tískufatnað úr íslenskri ull árið 1980 fyrir um sex milljónir bandaríkjadala segir í grein á Smartland.
Eftir það fór allt fljótt niður á við. Tískan breyttist, innflutningstollar voru felldir niður vegna inngöngu Íslands í EFTA og aðgengi að útlendum fatnaði fyrir Íslendinga varð auðveldara og Kína fór að framleiða vörur á margfalt lægra verði en áður þekktist.
Ullariðnaður Íslands hvarf á skömmum tíma en það sama gerðist einnig í mörgum öðrum Evrópulöndum eins og til dæmis Skotlandi.
Eftir að umhverfismálin hafa orðið að okkar stærsta verkefni hefur verið mikil gagnrýni á ódýra massaframleiðslu þar sem plastefni eins og nælon og pólýester hafa verið áberandi. Þessi efni menga vatnið okkar í hvert sinn sem þau fara í þvottavél, en þá dreifast út í vatnið plastagnir sem við endum með að borða í sjávarfangi að lokum.
Við sjáum fram á nýja tíma; tíma þar sem náttúruleg efni verða eftirsóttari og dýrari en plastefnin munu hverfa að miklu leyti. Ljóst er að við þurfum að fara miklu betur með þessi efni og hanna úr þeim vandaðar flíkur sem geta átt mörg framhaldslíf, segir Linda Björg Árnadóttir, hönnuður og eigandi Scintilla.
Ekkert fyrirtæki er lengur starfandi á Íslandi sem sútar gærur og hafa þær verið fluttar úr landi hráar eða jafnvel einfaldlega urðaðar því það hefur ekki svarað kostnaði að senda þær utan,“ segir Linda Björg Árnadóttir hönnuður í pistli á Smartlandi: