Guðni Már Henningsson, fyrrum útvarpsmaður á Rás 2, verður borinn til grafar í dag klukkan 13 í Lindakirkju í Kópavógi. Hann lést á heimili sína á Tenerife 30. september síðastliðinn, 69 ára að aldri. Safnað er fyrir dætrum Guðna og þeir sem vilja leggja þeim lið finna reikningsupplýsingar hér fyrir neðan.
Síðustu ár ævi sinnar bjó Guðni Már á Tenerife og vinir hans þar minnast hans með hlýjum orðum. Þau Herdís Hrönn Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson, sem rekar íslendingabarinn Nostalgíu, rita falleg minningarorð á Facebook-síðu staðarins:
„Í dag verður borinn til grafar góður vinur, sem við Sævar kynntumst hér á Tenerife. Listamaðurinn Guðni Már Henningsson . Rokkarinn sem keyrði 150 km til að fá sér pönnukökur hjá okkur, Víkingurinn sem ataðist í Blikanum ,Listamaðurinn sem setti upp sýningar hjá okkur en síðast en ekki síst kær vinur sem alltaf fékk okkur til að brosa. Góða ferð kæri vinur, vonandi er nóg rokk og ról þarna hinumegin.“
Sjá einnig: Guðni Már Henningsson lést á Tenerife: „Hans verður saknað um ókomna tíð enda drengur góður“
Auk starfa sinna í útvarpi gaf Guðni út bækur, ljóðabækur, hélt fjölda myndlistasýninga og á einnig bakgrunn í tónlist. Árið 2019 gaf Guðni út bókina Römblusögur, en í bókinni segir Guðni kímnisögur af sjálfum sér og því fólki sem hann hafði kynnst í Römbluhverfinu í Santa Cruz á Tenerife.
Eins og áður sagði fluttist Guðni til Tenerife árið 2018, þegar hann settist í helgan stein og hætti sem þáttastjórnandi á Rás 2. Lífið á Tenerife var honum mjög að skapi.
„Hér vil ég vera það sem eftir er,“ sagði Guðni meðal annars um búsetuna á eyjunni sólríku.
Anna Kristjánsdóttir vélstjóri, góð vinkona Guðna heitins og sem einnig býr á Tenerife, fékk hin hörmulegu tíðindi í gærkvöldi. „Í nótt bárust mér harmafregnir. Eftir beiðni frá ræðismanni Íslands á Kanaríeyjum braut lögreglan sér leið inn á heimili félaga míns á Tenerife í gærkvöldi þar sem hann fannst látinn. Hans verður saknað um ókomna tíð enda drengur góður. Dætur hans tvær sem og barnabarn eiga alla mína samúð,“ segir Anna í færslu á Facebook.
„Ég sakna þeirra mest. En fyrir utan það.. mér dettur ekkert í hug skal ég segja þér. Stundum langar mig jú í íslenskan mat eins og saltkjöt og hangikjöt og hamborgarhrygg. Og þegar ég sé myndir af miklum snjó þá hefur mig langað að taka smá rúnt á jeppa.“
Guðni sat sannarlega ekki auðum höndum á Tenerife, en þar opnaði hann meðal annars myndlistasýningu á íslenska barnum árið 2018, skrifaði fyrrnefna bók og ljóðabókina Þar sem kaffið kólnar.
„Svo ég tók þá ákvörðun, eða kannski var hún alltaf þarna, að selja mínar fáu eigur, segja upp á Rás 2 og flytja til Santa Cruz. Hingað kom ég með þrjá svarta boli og hundrað kíló af geisladiskum. Gat ekki tekið meira með mér. Eiginlega frá fyrsta degi fannst mér ég vera kominn heim,“ sagði Guðni um flutningana í samtali við mbl.is árið 2018.
„Og ég lærði að elska upp á nýtt. Dætur mínar tvær, vini og fjölskyldu. Það var mér dýrmætt og ég er þakklátur fyrir það. Ég hóf að skrifa og mála á ný og lífsgleðin kom aftur og ég hef ekki orðið einmana hérna þótt oft sé ég einn. Og aldrei fundið fyrir heimþrá,“ sagði Guðni í sama viðtali.
Blessuð sé minning Guðna Más Henningssonar.