Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Þorkell er konungur pabbabrandaranna – Hefur samið pabbabrandara alla daga ársins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorkell Guðmundsson hefur undanfarið ár vakið athygli fyrir frumsamda „pabbabrandara“ sem hann hefur birt á hverjum einasta degi ársins 2021. En hver er Þorkell? Hvaðan kemur hann og hvert ætlar hann? Mannlíf ræddi við hann.

Þorkell er fæddur árið 1979 og er langyngstur af fimm sammæðra systkinum. Hann býr í Reykjavík en er alinn upp á Djúpavogi í Suður-Múlasýslu og segist vera austfirðingur í húð og hár, kominn af bændum í báðar ættir. „Það var að mörgu leyti gott að alast upp á Djúpavogi. Eins og margir af minni kynslóð, þá vorum við eiginlega alltaf úti. Bæði eftir skóla og líka eftir kvöldmat. Við smíðuðum okkur fótboltamörk á litlu túni í hverfinu og vorum flestöll kvöld í tuðrusparki. Reyndar minna um helgar, því þá spiluðum við hlutverkaspil og tölvuleiki.“

Þorkell á góðri stundu
Mynd: Aðsend

Segir hann að honum hafi gengið illa til að byrja með í skólanum, hann hafi verið algjör tossi en eftir þriðja bekkinn fór honum að ganga betur. „Pabbi minn var eiginlega drifkrafturinn í því. Hann lagði áherslu á að ég ætti að vanda mig við námið og reyna að vera vel skipulagður. Þó svo ég skrifaði mjög illa, þá var t.d. öllum stærðfræðidæmum raðað vel upp.“

Foreldrar Þorkels eru mjög hagmælt og segir hann að það hafi stundum legið við að þau töluðu saman í bundnu máli. „Þau ortu bæði gamanvísur og vísnagátur. Ég smitaðist aðeins af þessu og var stundum að reyna að hnoða saman vísum og flytja þær með misjöfnun árangri.“

Þorkell minnist þess er pabbi hans kom með eðal pabbabrandara þegar hann bað um hundraðkall eitt sinn. „Pabbi var og er algjör meistari í að snúa útúr, en það er kjarninn í pabbabröndurum. Ég man einu sinni eftir því að hafa spurt hvort hann ætti handa mér hundraðkall. Þá svaraði hann „Nei, ég á bara kattraðkall“,“ sagði Þorkell og hló.

Þorkell starfar sem ráðgjafi hjá PwC og hefur verið þar í rúman áratug. Hann hefur nýlega skipt um svið hjá fyrirtækinu en framan af vann hann við mannauðsráðgjöf. Segist hann hafa „grautast í ýmsu“ í námi en hann er með BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands en svo fann hann sig ekki í mastersnámi á félagsvísindasviði. Hefur hann síðan hann fékk gráðuna aðallega verið að læra forritun, gagnasafnsfræði og gagna vísindi. „Það er nefnilega svo einkennilegt að mér þykir jafngaman að forritunar/gagnagramsi og að vinna með fólki.“

- Auglýsing -

Ekki er Þorkell maður einsamall en hann á eiginkonuna Þóru Magneu Helgadóttur og eiga þau saman tvö börn. „Ég kynntist konunni minni í Menntaskólanum á Egilsstöðum og við byrjuðum að vera saman árið 1999. Þú verður að spyrja hana að hverju hún hreifst, en ég giska á að það hafi verið akkúrat temmilega mikill aulahúmor. Það er skrýtið að hugsa til þess að hvorugt okkar átti farsíma á þessum tíma. Ég hringdi í heimasímann hennar úr tíkallasíma sem var á heimavistinni. Við útskrifuðumst úr menntaskóla árið 2000 og vorum samferða í gegnum Háskólann. Við byrjuðum að búa saman á Stúdentagörðum haustið 2002 og gengum í hjónaband árið 2011. Við höfum komið okkar vel fyrir í Hlíðunum í Reykjavík og eigum tvö yndisleg börn. Reyndar er stelpan að verða unglingur og búin að fá passlega nóg af aulahúmornum í mér. Þannig er bara gangur lífsins,“ segir Þorkell brosandi.

Fjölskyldan uppáklædd
Mynd: Aðsend

En nú eru stórfurðulegir tímar sem við búum í svo vægt sé til orða tekið og þá er kannski eðlilegt að spyrja í viðtali árið 2021, hvernig hefur fjölskyldan komið undan Covid hingað til?

„Sem betur fer höfum við verið frekar heppin í þessu ástandi. Við hjónin höfum átt gott með að vinna heima og höfum ágæta aðstöðu til þess. Skólinn í hverfinu hefur haldið þétt utan um krakkana og ég er mjög ánægður með það. Annars nenni ég takmarkað að tala meira um faraldurinn en ég nauðsynlega þarf.“

- Auglýsing -
Flottir feðgar
Mynd: Aðsend

Þorkell á sér mörg áhugamál, jafnvel of mörg að hans mati.

„Stundum háir það mér hvað ég hef áhuga á mörgu. Kannski má þar helst nefna að ég og nokkrir góðir vinir erum að reyna að meika það sem rokkstjörnur í hljómsveitinni 6Pence. Það gengur hægt, en við erum duglegir að æfa þegar það eru ekki samkomutakmarkanir. Ég spila á hljómborð og syng bakraddir í sveitinni. Samhliða því er ég í píanónámi. Tónlistin er æðislegt áhugamál. Ég iðka crossfit af miklu kappi og hef gert í nærri 6 ár. Mikill áhugi einnig á flestum íþróttum, þó sérstaklega körfubolta og fótbolta. Ég hef líka gaman að ofurhetjum, tölvuleikjum, borðspilum, húsasmíði og stjórnmálum. Ég hef sérstakt yndi af langsóttum samsæriskenningum, mótsögnum og páskaeggjum.“

Hljómsveitin 6pence
Mynd: Aðsend

Lífið er rússíbani fyrir suma en aðra er það líkt og klessubílar og enn aðrir upplifa það eins og barnalest, svona svo við höldum okkur við tívólímyndlíkinguna. Sem sagt, flestir upplifa sigra og töp í lífinu, áföll og upprisu. En hvernig hefur þetta verið hjá Þorkeli?

„Stærsti sigurinn fyrir mig er að eiga yndislega eiginkonu, góða fjölskyldu og góða vini. Það er eina sem skiptir máli fyrir mig. Jújú, ég hef alveg sigrast á erfiðleikum eins og væntanlega hver annar, en þessir erfiðleikar tengdust aðallega mér sjálfum og mínu lífsviðhorfi – sem hefur stundum verið undir pari. Ég bara man ekki í augnablikinu eftir alvarlegum persónulegum áföllum sem betur fer.“

Þorkell tekur á því í ræktinni
Mynd: Aðsend

Undanfarið ár hefur Þorkell getið sér gott orð sem pabbabrandarasmiður en hann hefur birt glænýjan og frumsaminn pabbabrandara á hverjum einasta degi ársins og mun halda áfram fram á síðasta dag ársins. En hvernig datt honum þetta í hug?

„Það var síðasta áramótaskaup. Ég fann mikla tengingu við eitt atriðið í skaupinu, en þar kom fram að fjölmargir unglingar hvarvetna um land væru varanlega skaddaðir á augum. Ástæðan var síendurtekin ranghvelfing augna í kjölfar pabbabrandara, en þeir höfðu verið óþarflega margir á árinu því heilu fjölskyldurnar hírðust langdvölum heimafyrir. Þetta var búið að vera svona um talsvert skeið á mínu heimili.“

Þorkell bætir svo við að hann hafi eitt sinn verið fyndinn.
„Það vill nefnilega svo til að ég var einu sinni fyndinn. Það var um og eftir menntaskólaárin og einkum á busaárinu. Í kringum aldamótin reyndi ég fyrir mér sem uppistandari í 2-3 skipti með misjöfnum árangri. Ég keppti í fyndnasta manni Íslands árið 2001 og gekk ágætlega án þess að komast í úrslit. Fljótlega uppúr því snarhætti ég síðan að vera fyndinn og skemmtilegur. Svo við förum aftur til gamlárskvöldsins árið 2020, þá staldraði ég aðeins við atriðið um pabbabrandarana og hugur minn leitaði aftur til þeirra tíma er ég var fyndinn og skemmtilegur. Ég hugsaði með mér að þetta væri krefjandi og skemmtileg áskorun fyrir mig að semja einn pabbabrandara á dag í heilt ár og deila honum á samfélagsmiðlum.“

Og viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð.

„Þessum bröndurum hefur verið ágætlega tekið. Það er dyggur aðdáendahópur sem ég er mjög þakklátur fyrir. Margir hafa sterkar skoðanir og það er bara flott. Það eru 20-40 vinir sem bregðast við með ummælum eða „lækum“. Ég hef reyndar heyrt að mun fleiri lesi brandarana. Fyrstu 300 voru bara aðgenilegir vinum mínum á Facebook. En hver sem er getur séð brandara 301 og uppúr. Ég hugsa að ég birti síðustu 10 á fleiri miðlum og reyni að vekja athygli á þessu.“

En nú búum við í landi bókaútgáfunnar þar sem önnur hver manneskja hefur gefið út bók. Ætlar Þorkell að gera eitthvað meira með brandarana, svona í ljósi vinsælda þeirra?

„Ég stefni að því að gefa þessa 365 brandara út og jafnvel fleiri á einn eða annan hátt. Það kemur ekki út bók fyrir þessi jól, enda er hún auðvitað hvergi nærri tilbúin. Það er í gangi vinna við hönnun og útfærslu á markaðsefni, vefsíðu og appi. Svo það gætu verið spennandi tímar framundan.“

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af uppáhalds pabbabröndurum Þorkells:

Pabbabrandari 115 af 365. Hvað heita BDSM samtökin sem þríeykið stofnaði?
Ég hýði Víði.

Pabbabrandari 224 af 365. Hvað fékk ég vitlaust afgreitt í apótekinu?
Meðal annars.

Pabbabrandari 250 af 365. Hvað heitir sendillinn sem vinnur hjá Gustavsberg?
Postulín Páll

Pabbabrandari 268 af 365. Í hvaða stöðu var frambjóðandinn, þegar hann var hættur að stunda BDSM?
Hann gekk óbundinn til kosninga.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -