Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Steinar gefur út nýja plötu undir listamannsnafninu GREYSKIES: „Þetta er rétt að byrja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinar Baldursson er 25 ára gamall tónlistarmaður, lagahöfundur og pródúser. Hann gaf út sína fyrstu plötu árið 2013, þá aðeins 18 ára gamall, undir nafninu Steinar.

Í október síðastliðnum gaf Steinar út plötu undir listamannsnafninu GREYSKIES. Platan ber nafnið The Mind is Like the Moon og inniheldur tíu lög. Hún er unnin í samstarfi við pródúserinn Pálma Ragnar Ásgeirsson.

Steinar spjallaði við Mannlíf um plötuna, sköpunarferlið og það sem er fram undan.

 

Langaði að gera tónlist sem hann tengdi betur við

Hvað var platan lengi í vinnslu?

„Þessi plata tók mjög langan tíma. Miklu lengri tíma en allir í verkefninu höfðu áætlað. Við vildum gera þetta rétt og það hafði áhrif á tímann sem gerð plötunnar tók, en alls konar pólitík átti líka þátt í því að lengja verkefnið töluvert.

- Auglýsing -

Við byrjuðum að vinna að plötunni í byrjun 2018 og lukum við hana í byrjun 2020. Fyrsta lagið kemur síðan ekki út fyrr en síðla árs 2020. Oft er fólk byrjað að gefa út smáskífur af plötum áður en platan sjálf er kláruð svo þetta var töluvert lengra ferli en ég er vanur.

Ég var líka búinn að semja mörg lögin á plötunni árið 2017 svo ég fann fyrir miklum létti þegar platan kom út og ég fékk loksins að skila þessu verkefni af mér. Mikið stolt og mikill léttir.“

 

- Auglýsing -

Efnið á þessari plötu er nokkuð ólíkt því sem þú hefur áður gert, hvað réð því að þú fórst í þessa átt? Eru einhver ákveðin áhrif sem þú varðst fyrir?

„Það er rétt hjá þér að þetta er í allt aðra átt en það sem ég hef unnið að áður. Ég tók ákvörðun árið 2017 um að mig langaði að hefja nýtt tónlistarverkefni þar sem ég væri með listamannsnafn og þar sem ég væri að gera tónlist sem ég tengdi betur við. Tónlist sem ég sjálfur myndi hlusta á en ekki bara tónlist sem ég vissi að myndi ganga vel á Spotify og mögulega í útvarpi.

Ég hef alltaf verið mikill popptónlistarmaður hvað lagasmíðar varðar, en þegar það kemur að útsetningum er ég oftast hrifinn af lögum sem halla aðeins í áttina að örlítið dekkri og meira „alternative“ stefnum. Í raun er gott orð yfir þessa tónlist; „alt-pop“. En það er orðið svo erfiður leikur í dag að fara að setja tónlist eða listamenn í ákveðna dálka, þetta er allt meira eða minna samsuða af öllum stefnum í dag.“

Á plötunni má heyra nokkur áhrif frá til dæmis árunum 2005 og 2006, til að mynda í laginu Big BirdEr það eitthvað sem þú tengir við og er meðvitað? 

„Stefnan sem var mikið að sækja í sig veðrið á þeim tíma þegar ég var að útsetja plötuna var rokkið. Í rauninni emo-rokkið frá fyrsta áratug þessarar aldar. Svo já, það eru klárlega áhrif af þeirri stefnu á plötunni og það er meðvitað. Ég hef tekið ófá giggin í gegnum tíðina en maður finnur það sérstaklega með lög eins og eru á plötunni; orkan og tilfinningin á sviði og í sal er svo miklu meiri en það sem ég þekkti áður, sem er geggjað. Ég hélt útgáfutónleika á Húrra fyrir stuttu og það staðfesti fyrir mér að þessi tónlist nýtur sín best á live tónleikum.“

 

Syngur um tilfinningaríkari og raunverulegri hluti en áður

Þið Pálmi Ragnar vinnið þetta saman, hver er verkaskiptingin á milli ykkar?

„Ég legg mikla áherslu á að semja öll lögin mín sjálfur. Fyrst og fremst horfi ég á sjálfan mig sem lagahöfund og að pródúsera og flytja lögin er síðan bara bónus sem ég er heppinn að fá að gera, því það er oft erfitt fyrir lagahöfunda að komast eitthvað áfram ef þeir finna aldrei flytjandann eða pródúser. Sömuleiðis er erfitt fyrir söngvara að komast eitthvert ef þeir hafa ekki lagahöfunda sér við hlið eða pródúsera.

Á plötunni var ferlið þannig að ég sem lögin einn og stundum pródúsera ég þau gróft í ákveðna átt. Þaðan fer ég með lögin til Pálma Ragnars og hann skilur nákvæmlega hvaða tilfinning er í laginu og pródúserar lagið þar til það er fullklárað. Að vinna með Pálma eru forréttindi. Við unnum þessa plötu tveir saman í stúdíóinu og ég fékk að fylgjast með honum og vinnuferli hans. Það er magnað að fylgjast með honum og sjá hvað hann er fljótur að skynja hvað vantar og hvað virkar fyrir lög. Hann er með mjög einstaka sýn á pródúseringu og allar ákvarðanir eru útpældar, það er voða lítið verið að skjóta bara út í loftið og vona það besta. Ég hef lært mjög mikið af öllu þessu ferli.“

Fjallar platan í heild um eitthvað ákveðið? 

„Nei, ég passaði samt að ég vildi klárlega hafa rauðan þráð í gegnum plötuna hvað varðar hljóðheiminn. Öll lögin tengjast hvert öðru í gegnum þennan hljóðheim og sömuleiðis vorum við stundum að vinna með svipaða útsetningu á gítörum og öðrum hljóðfærum til að halda þessu skyldu. Hins vegar er ég að syngja um miklu tilfinningaríkari og raunverulegri hluti en ég hef áður gert. Hluti sem ég hef verið að kljást við. Þótt platan í heild fjalli ekki um eitthvað ákveðið er ekki þar með sagt að hvert og eitt lag eigi ekki sína sögu.“

Áttu þér uppáhaldslag á plötunni?

„Uppáhaldslagið mitt til að spila „live“ er Eyes. Það var ekki fyrr en við tókum það á Húrra að ég fattaði hve gaman er að spila það og heyra „live“. Uppáhaldslagið af plötunni almennt er hins vegar annað hvort The Mind is Like the Moon eða Rhoads. Sagan á bak við hið fyrrnefnda er mjög kraftmikil fyrir mig og ég finn alltaf fyrir miklum krafti þegar ég hlusta á það lag. Rhoads er svo mikið „vibe“ að ég verð að hafa það með.“

 

Hefur mikla trú á verkefninu

Hvernig lítur lífið út þessa dagana, fyrir utan plötuútgáfuna?

„Fyrir utan plötuna er ég að klára BS í sálfræði/viðskiptafræði næsta vor og er á fullu í því. Ég var einmitt að kaupa mér íbúð í vikunni og ásamt öllu því stússi er ég byrjaður að vinna að næstu plötu GREYSKIES. Mikið um að vera, en þannig er best að hafa það.“

Hvernig lítur þá nánasta framtíð út hjá þér í tónlistinni?

„Eina sem ég get sagt núna varðandi GREYSKIES er að þetta er rétt að byrja. Þessu verkefni hefur ekki verið auðvelt að koma af stað og það hefur tekið sinn tíma en þrátt fyrir það þá hefur trú mín á þessu verkefni bara aukist.

Ég er byrjaður að vinna að næstu plötu og ég veit að hún verður bara stærri. Ég vil fylgja þessari plötu eftir með miklu fleiri tónleikum, sem verða tilkynntir á næstunni en svo snýst þetta um að ljúka þeim kafla sem þessi plata er og byrja á næsta kafla. Undirbúningur fyrir 2022 er byrjaður og verður spennandi að sjá hvaða tækifæri það ár hefur að geyma.“

Að lokum hvetur Steinar sem flesta til að kíkja á plötuna og sjá hvort þetta sé eitthvað fyrir þá.

„Ef svo er, þá er klárlega málið að kíkja á tónleika. Markmiðið er að halda miklu fleiri tónleika á næstunni.“

 

Það verður spennandi að fylgjast með GREYSKIES í framtíðinni, bæði tónleikahaldi og nýrri tónlistarútgáfu. Platan The Mind is Like the Moon er á Spotify og hana má finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -