Önnur móðir hefur nú sett sig í samband við Mannlíf og greint frá því að barnið hennar hafi sennilega lent í því að fá of sterkan skammt sýklalyfja blandaðan í apótekinu Apótekaranum.
Mannlíf hefur áður fjallað um mál þar sem lyfjafræðingur í Apótekaranum í Mosfellsbæ er sagður hafa blandað of sterkan sýklalyfjaskammt fyrir sautján mánaða gamalt barn, sem endaði þannig að fara þurfti með barnið upp á bráðamóttöku Barnaspítalans í eitrunarpróf. Barnið fékk mikla og sársaukafulla sveppasýkingu í tannholdið í kjölfarið.
Konan sem Mannlíf hefur nú rætt við kýs að koma ekki fram undir nafni.
Hún útskýrir að sonur hennar hafi átt að fá sjö daga skammt af sýklalyfi. Hún hafi síðan tekið eftir því að það vantaði einn og hálfan dag upp á skammtinn.
Hún fékk lyfið í Apótekaranum í Austurveri.
„Þegar ég heyri í lyfjafræðingi hjá þeim þá fer hann bara í vörn og segir að lyfið komi svona til þeirra frá framleiðanda og þau blandi það samkvæmt leiðbeiningum þaðan. Hann vildi ekki kannast við að hugsanlega hefði lyfið verið blandað vitlaust hjá þeim og að ef svo væri þá væri það ekkert hættulegt. Hann sagði mér svo bara að panta tíma hjá lækni til að fá það sem vantaði upp á,“ segir móðirin í samtali við Mannlíf.
„Ég heyrði í Eitrunarmiðstöðinni, þar sem strákurinn minn var með svakalegar pílur í maganum eftir þetta og hægðatregðu – sem hann er enn með. Við enduðum uppi á Barnaspítala af því að hann verkjaði svo. Hjúkrunarfræðingur hjá Eitrunarmiðstöðinni reiknaði þetta út og sagði að hann hefði alls ekki fengið of stóran skammt af lyfinu, þótt það hefði verið vitlaust blandað.“ Hún segir að sér hafi verið létt við að heyra það.
Aldrei áður verið með magavandamál
Seinna fór móðirin með drenginn á Domus Medica, þar sem hann var enn að glíma við vandamál í maga.
„Læknir þar sagði mér bara að hætta að gefa honum sýklalyfið, sem ég gerði, en hann er enn að fá svona pílur í magann.“ Hún segist þó hafa velt því fyrir sér hvort um magakveisu væri að ræða og að þetta væri hugsanlega ekki eitthvað sem tengdist sýklalyfinu.
Hún segir son sinn þó aldrei hafa átt við hægðavandamál að stríða. Allt hafi gengið vel í þeim efnum, allt frá fæðingu. „Svo ég gat ekki annað en spáð í hugsanlegum tengslum milli þess og lyfjaskammtsins. Líka þar sem magakveisan kom ekki fyrr en fljótlega eftir að hann byrjaði á sýklalyfjum.“
Þarf að komast á hreint
„Á Barnaspítalanum náði hann að losa á meðan við biðum eftir lækni, svo við vorum bara send heim í kjölfarið af hjúkrunarfræðingi þar. Það var litið svo á að þetta væri bara hægðavandamál og við héldum það líka, en síðan hélt þetta áfram. Hann losaði ekkert í þrjá daga í kjölfarið og á þriðja degi náði hann að losa örlítið ásamt því að fá áfram þessar svakalegu pílur í magann.
Ég veit ekki hvað ég á að halda,“ segir móðir drengsins.
Hún segir að ef til vill komi í ljós að þetta geti ekki tengst ofskammti sýklalyfs en að það þurfi að komast á hreint.
„Læknirinn á Domus talaði líka um að það væri orðið algengt að fá ekki réttan skammt; þann skammt sem læknirinn hefði ávísað. Hún hefði semsagt verið að upplifa það. En hún virtist ekki hafa neinar áhyggjur af því.“
Móðirin segir lyfjafræðinginn í apótekinu hafa borið því við að hún hefði sjálf hugsanlega mælt þetta vitlaust fyrir son sinn eða sullað lyfinu niður.
Hún segir það alveg af og frá. „Ég tek lyfjaskömmtun alvarlega.“