Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Katrín Edda hefur farið á hnefanum í gegnum lífið: „Þetta var bara dæmi um virkilega sjúka ást“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Katrín Edda Þorsteinsdóttir vélaverkfræðingur hefur þurft að fara á hnefanum margoft í gegnum lífið. Hún hefur unnið við fjölmörg störf með námi, tekið þátt í fitnesskeppnum og ferðast mikið.

Eftir mikla sjálfsvinnu vegna andlegs ofbeldissambands gaf Katrín sér loksins tíma til að hugsa um hvað hún vill gera, þar á meðal að gefa út sína fyrstu bók, dagbók, sem hún byggir á eigin reynslu.

Katrín segir að þegar hún líti til baka hafi mikill óstöðugleiki í uppvextinum ekki haft góð áhrif á hana. Hún og móðir hennar áttu ekki gott samband á þessum tíma, en eru mjög góðar vinkonur í dag.

„Ég var alltaf mjög metnaðarfull með lærdóminn en í alls konar rugli að öðru leyti og sagði mömmu aldrei satt um það hvar ég væri. Ég hékk með krökkum sem voru reglulega að taka eiturlyf og prófaði ýmislegt sjálf þegar ég var bara 13 ára, sem er eitthvað sem ég myndi aldrei nokkurn tíma gera í dag.

Ég var með mjög ýktan persónuleika, annaðhvort á yfirsnúningi eða þá ótrúlega leið og óhamingjusöm. Mér fannst ég alltaf feit, hræðileg og ljót og passaði mig að segja mér það nægilega oft þar sem mér fannst fólk með sjálfstraust og ánægt með sjálft sig bara vera hrokafullir fávitar.

Mér hefði aldrei dottið í hug að segja að ég væri góð í einhverju, mér var sjaldan hrósað heima fyrir og einhvern veginn alltaf í leit að viðurkenningu. Mamma er mikið menntuð og ég horfði upp til hennar að því leyti að ég vildi alltaf mennta mig.

- Auglýsing -

Ég deildi aldrei neinu með foreldrum mínum á þessum tíma, sem gerði mér heldur alls ekki gott og það vantaði eitthvað upp á til að byggja traust milli okkar. Ég var kannski ekki vandræðaunglingur en samt mjög týnd og skrif mín á þessum tíma sýna það vel.

Með mömmu sem íslenskufræðing og pabba sem rithöfund hef ég alltaf haft gaman að því að skrifa en skrif um sjálfsvígshugsanir, sorgleg ljóð um kvöl og pínu, að ég vildi hverfa, sofna og aldrei vakna aftur, segja mikið til um þá vanlíðan sem ég fann fyrir á þessum tíma.“

Í upphafi sveipaði hann mig með rómantík

Katrín var einhleyp í átta mánuði eftir að hún sleit sambandinu við íslenska kærasta sinn og kynntist frönskum vinnufélaga sínum í Stuttgart, sem varð kærastinn hennar og við tók þriggja ára erfitt samband.

- Auglýsing -

„Á þessum slæma tíma þegar ég var einmana og leið illa kynntist ég honum. Í upphafi sveipaði hann mig með rómantík og gjöfum og sagðist elska hvað ég væri falleg og flott. Hann missti íbúðina sína stuttu eftir að við byrjuðum að vera saman og flutti stuttu síðar inn til mín sem voru mikil mistök,“ segir Katrín, sem segist fljótlega hafa tekið eftir hlutum þá sem ekki þóttu eðlilegir, eins og að hann talaði niður til hennar og hennar áhugamála, hún mátti ekki snerta hans hluti, þar á meðal ekki keyra bílinn hans og hann treysti engum og engu.

„Honum fannst samfélagsmiðlar hræðilegir og gagnrýndi mig alltaf ef ég vildi taka myndir af mér. Ég mátti ekki tala við vini mína, það sem ég borðaði var ekki alvörumatur og þættir sem ég horfði á voru að gera mig heimska. Hann talaði oft um hversu óhamingjusamur hann væri, oft vegna mín eða vegna kattanna minna, og kom stundum heim úr vinnu, sagði ekki orð og fór upp í rúm og svaf til næsta dags. Svo talaði hann mögulega ekki við mig svo dögum skipti út af einhverju sem ég hafði að hans mati gert rangt.

Ef ég gat lagað eitthvað sem hann taldi vandamál, þá bjó hann bara til önnur vandamál og skrifaði þau á lista. Hann kom einu sinni með til Íslands og á degi tvö hætti hann að tala við mig og varð þögull. Þegar ég spurði hann hvers vegna sagði hann að við myndum ræða saman þegar við kæmum aftur til Þýskalands.

Þá var hann farinn að skrifa hjá sér eitthvað sem ég sagði, gerði eða annað sem honum mislíkaði. Þetta fór þó aldrei út í líkamlegt ofbeldi. Þetta var bara dæmi um virkilega sjúka ást og allt sem ég er að þylja upp núna sá ég ekki fyrr en seinna þegar ég fór að líta til baka yfir samband okkar,“ segir Katrín, sem var byrjuð að fá kvíðaköst vegna sambandsins.

„Eftir að ég opnaði mig um þetta var ég oft spurð að því hvers vegna ég hagaði mér eins og allt væri í lagi á samfélagsmiðlum en málið er að ég var blind á þetta þegar á sambandinu stóð. Ég einblíndi bara alltaf á það jákvæða, fann til með honum og var svo viss um að ég gæti gert hann hamingjusaman.“

„Á þessum tíma sá ég ekki að ég var farin að útiloka mig frá öðrum, hætt að birta myndir af mér eða færslur, hætt að mæta í ræktina, fór að þyngjast og leið illa. Hann fór til Frakklands í þrjár vikur og á þeim tíma fann ég hvað mér leið vel án hans að mega gera það sem ég vildi og  sá að við yrðum að hætta saman.

Og svar hans við því var bara: „Já, þú getur ekki gert mig hamingjusaman.“

Við hættum saman í júlí 2018 og ég var mjög lengi brotin eftir hann og átti erfitt með að treysta aftur,“ segir Katrín, sem kynntist núverandi kærasta sínum án þess að vera nokkuð að leita að sambandi.

Allt upp á borðum og mjög afslappað

„Fyrst þegar við hittumst förum við í göngutúr saman í rólegheitunum og töluðum svo kannski ekki saman í þrjár vikur áður en við hittumst aftur. Það var aldrei nein pressa en eftir sex mánuði ákváðum við að vera saman.

Lífið er mjög einfalt með Markúsi, allt upp á borðum og mjög afslappað. Eins og heilbrigð sambönd eiga að vera.“

Þá fór fyrri kærastinn að hafa samband aftur þrátt fyrir að vera sjálfur kominn með nýja kærustu og stórmóðgaðist svo þegar ég sagðist komin í annað samband,“ segir Katrín og segir að oft sé talað um að andstæður dragist hvor að annarri, en hún segist ekki ætla þangað aftur. Hún og Markús eigi mjög vel saman og eru á sömu bylgjulengd með flest sem er gott fyrir sambandið.

„Við lítum hvort upp til annars, hann skráði sig í nám í tæknifræði af því honum fannst ég svo dugleg að hafa menntað mig. Hann útskrifaðist í vor og fór að vinna hjá fyrirtækinu Trumpf sem framleiðir m.a. lasertæki og er mjög metnaðarfullur.

Hann hvatti mig til að byrja  í CrossFit en hann er sjálfur að æfa það. Þar kynntist ég fleiri vinum og allt í einu var ég komin í alls konar hópa og hittinga, sem ég hafði ekki verið í áður. Ég fór að komast í betra form og huga betur að mataræðinu, án þess að hafa haft það sérstaklega að markmiði og líða mun betur. Núna er ég líka byrjuð að hlaupa og finnst það mjög gaman, eitthvað sem mér fannst hundleiðinlegt áður.

Markús er líka rosalega duglegur, góðhjartaður, elskar kettina mína og það er einhvern veginn aldrei neitt vesen. Lífið er bara mjög gott og ég fæ að vera eins og ég er og blómstra aftur.“

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -