„Ég hef dansað við þig of lengi, það er ekkert meira að segja,“ sagði hann þungum rómi, opnaði útidyrahurðina og gekk rösklega frá bænum og í átt að þjóðveginum.
Hann hafði vaknað með þessi orð á vörum undanfarna daga en þennan morgun var eins og í þeim væru skýr skilaboð að finna.
Þessi vera hans í sveitinni hafði dregist svo á langinn að hann mundi ekki einu sinni hvað það var sem dró hann þangað.
„Hann er farinn,“ sagði hún við sjálfa sig og röddin var klökk, tónninn vonleysislegur og það láku tár niður kinnarnar. Hún hélt engu að síður áfram að strauja fötin hans.
„Hann kemur ekki aftur,“ sagði hún í sífellu.
Fyrsti ökumaðurinn sem stoppaði fyrir honum á þjóðveginum spurði hann hvert förinni væri heitið.
„Bara eitthvað burtu héðan,“ sagði hann og gleðin í röddinni fór ekki fram hjá undrandi ökumanninum sem sagði rólega:
„Ég er að fara í bæinn.“
Það var kalt þennan dag og snjónum hafði kyngt niður alla vikuna á undan.
„Ég elska þessa birtu, hún umlykur allt,“ sagði maðurinn og var dreyminn á svip.
„Með allan þennan snjó og sólina svona lágt á lofti get ég ekki sagt að ég elski þessa birtu, það er mjög óþægilegt að keyra og ekki bætir hálkan úr skák,“ sagði ökumaðurinn.
Maðurinn rétti ökumanninum sólgleraugu en hann tók höndina af stýrinu eitt andartak og missti um leið stjórn á bílnum.
Birtan sem umlukti allt fékk á sig rauðan blæ og svo tók við ísköld þögnin sem ekkert gat rofið.
„Hann kemur ekki aftur,“ sagði konan og raðaði nýstraujuðum fötunum snyrtilega í skápinn.