Agnes Gróa Jónsdóttir er ung og ólétt kona sem er á leið á götuna fljótlega, en henni hefur ekkert gengið að fá leigða íbúð og kvíðir næstu mánuðum mikið, enda er von á barninu í febrúar.
Agnes leitaði til Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Agnes fékk ekki neina hjálp né samúð hjá Rósu bæjarstjóra, en Agnes fór sem betur fer á fundinn með frænku sinni sem getur staðfest hvað fram fór á fundinum.
Agnes skrifar allsvakalega færslu um málið á Facebook þar sem hún nánast grátbiður fólk að hjálpa sér að finna litla íbúð áður en barnið kemur í heiminn; hjálpina við það fékk hún allavega ekki frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði, Rósu Guðbjartsdóttur:
Færsla Agnesar hefst svona:
„Ég trúi eiginlega ekki að ég sé að gera þetta en svona er staðan. Ég er 27 ára gömul, ófrísk af mínu fyrsta barni; gengin 6 mánuði á leið. Ég kem af mjög brotnu heimili, hef þurft að sjá um mig sjálf frá því ég man eftir mér.“
Hún bætir við að „ég þekki það ekki að eiga bakland eða normal fjölskyldulíf; ég hef bara þurft að redda mér sjálf og sjá um mig sjálf. Ég þekki ekkert annað og hefur mér tekist það nokkuð andskoti vel þangað til núna þegar ég er í fyrsta skipti að biðja um hjálp.“
Agnes er að missa íbúðina sem hún bjó og verður nú bráðlega ólétt á götunni:
„Núna er ég búin að vera í næstum 2 mánuði að reyna finna íbúð á höfuðborgarsvæðinu, aðallega í Kópavogi eða Hafnarfirði, þar sem að ég er bíllaus og alltof einangruð hérna í Keflavík og líður hreinlega illa.“
Bætir við:
„Ég er byrjuð að vinna í bænum líka og er svo sem ekki mikið að fara flytja eftir 1-2 mánuði þar sem að ég er sett 23. febrúar. Ég er gjörsamlega að gefast upp þar sem að ég labba á veggi allstaðar!“
Hún segist liggja inni á „leigusíðum, er að senda og senda á fólk með íbúðir sem eru undir 200.000 á mánuði, það eru yfirleitt 20+manns þá búnir að sækja um og trygging yfirleitt 300-600 þúsund, sem er upphæð sem ég hvorki á né kemst í; ég er með mikið af tattooum og ef ég á að vera hreinskilin er ég ekki beint þannig útlítandi að fólk vilji endilega leiga mér, sem ég skil svo sem alveg; sorglegt en staðreynd.“
Agnes nefnir að hingað til hafi hún fundið íbúðir í gegnum vini sína, en nú er það ekki að ganga upp:
„Þeir sem að þekkja mig vita að ég er algjör snyrtipinni og hef alltaf átt fallegt heimili og skiptir það mig mjög miklu máli. Ég geng það langt að ég fór að hitta bæjarstjórann í Hafnarfirði og aðstoðarkonu hennar, frænka mín fór með mér og hún átti ekki til orð! Það sem ég fékk frá þeim var bókstaflega: „Það er nú fólk sem sefur í bílunum sínum.“
Ég er búin að tala við Barnaverndanefnd, Félagsráðgjafa hér og þar, menn sem eiga leigufélag, ALLT, það virðist engin geta hjálpað mér með íbúð eða aðstoðað mig. Ég geng um gólfin heima hjá mér þar sem að ég er að falla á tíma og vil ekkert meira en öruggt húsnæði fyrir mig og dóttir mína sem fer að koma í heimin. Ég vil biðja ykkur um að hafa mig í huga ef þið vitið um einhverja sæta litla íbúð helst í Hfj, Kóp eða Grb sem leyfir 2 kisur sem fylgja mér og eru mér allt. Með von um það besta.“