Listakonan María Guðjohnsen hefur verið á hraðri uppleið innan listaheimsins, en hún var valin ein af 45 listamönnum til að vera með listaverk á sýndarveruleika sýningu á Times Square í New York borg síðustu áramót.
María Guðjohnsen er svokallaður nýmiðlunarlistamaður/þrívíddarlistamaður, en hún býr núna í New York borg.
Kanna möguleikana á milli raunveruleika og sýndarveruleika
María hefur sett upp sýningar í New York, Reykjavík og Berlín og gert tilraunir með mismunandi miðla til að kanna möguleikana á milli raunveruleika og sýndarveruleika.
María var lengi vel búsett í Berlín í Þýskalandi þar sem hún lærði grafíska hönnun, en fyrir nokkrum árum færði hún sig alfarið yfir í þrívíddarhönnun og hefur verið að starfa við það síðustu ár.
Í verkum Maríu eru sýndar útópískar vangaveltur um hugsanlegan veruleika, innblásin af framtíðinni, Sci-Fi og tölvugrafík. Á meðal vörumerkja sem hún hefur verið að vinna með eru; Adidas, Jagermeister, One Times Square og fleiri.
Verkið sem sýnt var á viðburðinum á Times Square er þrívíddar myndbandsverk.
Áramótin voru með öðru sniði 2020
Vanalega er mikið um dýrðir á Times Square í New York á gamlárskvöld en hátt í milljón manns safnast saman á hverju ári á torginu og bíða eftir því að klukkan slái 12 á miðnætti til að taka á móti nýju ári. Vegna kórónuveirunnar var hins vegar enginn fögnuður áramótin 2020 á Times Square. Í staðinn var sett upp sýningin Virtual New Year’s Eve fyrir og var hún sýnd í beinu streymi. Áramótabolti Times Square féll því án áhorfenda í fyrsta skipti síðan árið 1907.
María segir það vera mikinn heiður að hafa verið beðin um að taka þátt í þessari sýningu, en bandaríska listastúdíóið Studio As We Are höfðu samband við Maríu í gengum Instagram og buðu henni að vera með.
„Þau höfðu verið að fylgjast með verkunum mínum á Instagram og mér fannst það bara alveg geggjað þegar þau höfðu samband. Ég var búin að segja við kærastann minn að það væri draumur að sýna verkin mín einn daginn á Time Square þannig það var bara eins og því kalli hafi verið svarað þegar þau höfðu samband við mig,“ segir María.
María sendi listastúdíonu Studio As We Are nokkur verk og völdu þau svo hvaða verk myndi falla best inn í sýninguna.
Áramótasýningin á Times square 2020 hét Virtual New Year’s Eve eins og fyrr segir, þar sem útbúinn var sýndarveruleika af Times Square svo að allir gætu notið við og fylgst með fögnuðinum, án þess að vera á staðnum.
María sagði í viðtali fyrir sýninguna að það væri mikil tilhlökkun í henni; bæði að taka þátt í sýningunni og fylgjast svo með henni í beinni útsendingu á gamlárskvöld.
Ég vildi að raunheimurinn myndi virka þannig líka
María telur Instagram vera mikilvægan vettvang fyrir listamenn til að koma sér á framfæri.
„Því miður er maður frekar háður þessum miðli sem listamaður, sérstaklega í þessum þrívíddar listageira, en ég fæ flest mín verkefni út frá samfélagsmiðlum. Það er stundum leiðinlegt að þetta sé eini staðurinn til að koma sér á framfæri, en þetta borgar sig líka oft. Eins og í þessu tilfelli,“ segir María.
María lýsir list sinni sem einskonar; „hið stafræna sjálfið sitt.“
„Þú skapar þinn eigin heim og þinn eigin persónuleika án þess að þurfa að skuldbinda þig til nokkurs. Ég vildi að raunheimurinn myndi virka þannig líka. Það er einmitt ástæðan fyrir því að þessi sýning er til. Við lifum í stafrænum heimi þar sem við tengjum raunveruleikann við stafrænan heim.“
Í viðtali við þýska blaðið I-D sagðist María aldrei hafa dottið það í hug að tölvuvinna væri eitthvað sem hún myndi enda með að vinna við. Hún sagði meðal annars að: „það er mikilvægt að sjónarhorn kvenmanna fái sinn sess í stafrænni list. Því ég hef tekið eftir því þegar ég hef verið að leita að þrívíddarlíkönum, þá finn ég bara konur með risastór brjóst og varir, en nú hafa loksins opnast nýir valmöguleikar.“
Sjálflærður þrívíddarhönnuður
María hefur vakið athygli fyrir þrívíddarhönnun sína og hæfileika, þar sem hún skoðar millistigið milli raunveruleika og sýndarveruleika í verkum sínum. Eins og fyrr segir lærði hún grafíska hönnun í Berlín, en er annars sjálflærður þrívíddarhönnuður.
„Ég kenndi mér eiginlega bara sjálf,“ segir María.
Hún hefur verið að vinna við stór verkefni og gert samninga við fyrirtæki á borð við Adidas og Jägermeister.
Adidas kynnti nýja skó, byggða á eldri framleiðslu, í Berlín. Af því tilefni fékk fyrirtækið 11 listamenn til þess að búa til framtíðarheim eftir eigin höfði með tilvísun til þess sem liðið er og var verkið sýnt samhliða skókynningunni.
„Adidas hafði samband við mig í gegnum Instagram, en ég set rosa mikið af því sem ég er að gera á Instagram. Þegar Adidas hafði samband þá hélt ég að það væri einhver að rugla í mér. Það var ótrúlega skemmtilegt verkefni. Þau voru með herferð þar sem þau voru að kynna skó. Þau fengu listafólk í Berlín til að setja upp sýningu, sem ég tók þátt í, en ég var eini þrívíddarhönnuðurinn,“ segir María.
Listamennirnir fengu viku til að sinna sköpuninni í þar til gerðu og vel útbúnu húsnæði í Berlín. María segir að nokkrir í hópnum hafi áður unnið fyrir Adidas en aðrir verið valdir handahófskennt.
Listamennirnir unnu í þremur hópum, einn í fatahönnun, annar í tónlist og sá þriðji í myndlist.
„Við höfðum algerlega frjálsar hendur,“ segir María, eini Íslendingurinn í hópnum og bætir við að allt hafi verið til alls á staðnum og ímyndunaraflið hafi ráðið för.
„Þetta var mjög skemmtilegt og ég er bjartsýn á að fá fleiri verkefni frá Adidas í nánustu framtíð.“
Var komin með smá heimþrá
„Mér finnst gaman að finna leiðir til þess að blanda raunveruleikanum og sýndarveruleikanum saman. Úti hef ég verið að vinna með aðeins öðruvísi pælingar. Á einni hópsýningu gerðum við karaktera fyrir alla sem tóku þátt og bjuggum til rými milli raunveruleikans og sýndarveruleikans. Þetta vorum við en samt ekki við.
Ég hef unnið mikið með þetta þema, en núna er ég búin að vera lengi úti og komin með smá heimþrá. Eftir að ég kom aðeins heim fann ég hversu mikið mig langar að vinna með íslenska náttúru og element,“ segir María.
María segist núna reyna að blanda þrívíddinni inn í nánast allt sem hún gerir.
„Ég er orðin leið á öllu sem er í tvívídd,“ segir María og hlær. „Það er hræðilegt því ég var að læra grafíska hönnun. En maður byrjar að hugsa allt öðruvísi eftir að maður byrjar að vinna við þrívídd. Maður fer að sjá hluti og hugsa á annan hátt. Ég hugsa alltaf í kringum hluti sem ég er að vinna með, maður þarf að pæla í öllum sjónarhornunum. Þetta breytir algjörlega því hvernig maður hugsar.“
María tilheyrir nú hópi af öðrum þrívíddarhönnuðum sem deila saman áhuga á þrívíddarhönnun.
„Ég kynnist alltaf fleirum og fleirum sem eru í þessu. Það er ótrúlega sterkt samfélag í kringum þetta listform. Og það er sérstaklega áberandi úti hvað það er mikil menning í kringum þrívíddarhönnun. Hérna á Íslandi er þetta mun minna, það eru ekki margir í þessu sem listgrein.“
Það verður án efa spennandi að fylgjast með þessari hæfileikaríku listakonu í næstu verkefnum.
Heimildir:
Marieke Fischer. 2019, 3. september. „Digi-Gxl Berlin erobert erst den virtuellen Raum und dann die physische Welt.“ I-D.
Steinþór Guðbjartsson. 2019, 12. ágúst. „Framtíðarsýn Maríu með aðstoð Adidas.“ Morgunblaðið.
Urður Örlygsdóttir. 2020, 29. desember. „Íslensk listakona með verk á Times Square um áramótin.“ Fréttablaðið.
Zachary Kussin. 2020, 16. desember. „Times Square ball will drop without spectators for the first time since 1907.“ New York Post.