Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Poppstjarnan Einar Ágúst vill deyja: „Ég er ekkert á sérstaklega góðum stað í lífinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einar Ágúst Víðisson tónlistarmaður hefur marga fjöruna sopið. Hann hefur tekist á við þunglyndi og kvíða frá því að hann var barn og í dag er hann öryrki og hugsar reglulega um dauðann. Í viðtali við Mannlífið með Reyni Traustasyni talar hann meðal annars um þunglyndið, grófa framkomu sumra karla gagnvart konum, handtökurnar og himininn.

„Ég er með dauðahugsanir á hverjum degi og langar bara að deyja,“ segir Einar Ágúst Víðisson sem segist hafa tekist á við þunglyndi og kvíða frá því að hann var krakki. Ótta. Hræðslu. Óöryggi. „Ég nenni þessu ekki. Ég er bara kominn með nóg. Ég er mjög brotinn og er ekki á besta stað í lífinu, en ég næ edrútímum og ég næ flugi og svo grípur kvíðinn og þunglyndið inn í sem og verkirnir og ég fer niður brekku. Svo endar það með því að ég fæ mér Baileys í kaffið eða reyki eina jónu og svo upp á vagninn aftur. Það er þessi leiðindahringur í lífi mínu sem ég er orðinn svo þreyttur á. Ég er búinn að éta allan andskotann, svo sem þunglyndislyf, og ég er búinn að reyna svo margt. Ég fór á Reykjalund; ég fór í langa endurhæfingu og ég virðist ekki finna minn stað einhvern veginn.“

Langvarandi sársauki er ofboðslega erfiður

Hann er spurður hve lengi svona þunglyndistímabil standi yfir. „Vikur. Mánuði. Ár. Ég hef alveg tekið nokkur ár. Þetta er bara viðbjóður.

Ég er ekkert á sérstaklega góðum stað í lífinu andlega og má við rosalega litlu. Ég veiktist svolítið alvarlega fyrir nokkrum árum. Þegar maður verður fullorðinn verða þessir veikleikar eins og athyglisbrestur, þunglyndi og kvíði – hlutir sem maður gat hrækt úr sér í gamla daga – miklu erfiðari viðureignar, sérstaklega athyglisbresturinn, og maður er hættur að geta bitið á jaxlinn. Maður fattar að þetta er eins og fíknin og alkóhólisminn. Þetta eru krónískir sjúkdómar.“

Er Einar Ágúst hættur að drekka?

„Nei, ég fell. Ég hef náð einhverjum tíma og svo kemur í bakið á mér kvíðinn og þunglyndið og svo er ég mikill verkjasjúklingur og það er ofboðslega erfitt að díla við hluti eins og þunglyndi, kvíða og alla sína bresti ef maður finnur til. Langvarandi sársauki er ofboðslega erfiður. Ég hef stúderað mikið þennan mannlega breyskleika. Einhver sakaði mig um að vera narkissisti en ég finn svo ofboðslega til með öðrum þannig að ég krossa ekki í það box. Ég hef verið að reyna að finna sjálfan mig. Bróðir minn er sálfræðingur og hann sagði að ég væri með dass af öllu og það talsvert. Ég hef spurt sjálfan mig hvort ég sé geðveikur, sækópati, siðblindur eða narkissisti.“

Ég hef verið að reyna að finna sjálfan mig.

- Auglýsing -

Hann hefur setið hjá sálfræðingi og lamið í kodda.

„Ég er búinn að prófa Dale Carnegie og allt þetta dótarí. Það eina sem hefur hjálpað mér í lífinu með mína bresti eða mína veikleika eru 12 sporin og undirmeðvitundarfræði sem ég hef lært hjá Kára Eyþórssyni í Ráðgjafaskóla Íslands. Og það eru þeir hlutir sem hafa komið mér mest að gagni í lífinu.“

Ég er ekkert á sérstaklega góðum stað í lífinu andlega og má við rosalega litlu. (Mynd: Róbert Reynisson.)

 

- Auglýsing -

Mínu nafni hefur verið hent upp

Nei, lífið hefur ekki verið dans á rósum.

„Ég kynni mig oft sem Einar ógæfumann og fólki bregður við,“ segir Einar Ágúst og segir síðan að hann hafi notið gæfu í sínu lífi en að hann hafi einstakt lag á að klúðra hlutunum.

„Ég ofhugsa allt og díla við ekki nógu sterka sjálfsmynd.“
Hann viðurkennir að hafa ekki einu sinni verið með sterka sjálfsmynd þegar hann söng með Skítamóral sem var ein vinsælasta hljómsveitin á landinu á sínum tíma.

Ég ofhugsa allt og díla við ekki nógu sterka sjálfsmynd.

„Ég geri þetta af lífs og sálar kröftum og geri þetta af fyllstu einlægni – flyt músík, skemmti fólki og sem lög. Ég get ekki samið um myrkrið, dópið, ógæfuna og skilnaðina en ég get einhvern veginn fundið mig í því hlutverki að gleðja fólk.“

Og hann barðist við sviðsskrekk. „Maður bara steig inn í óttann. Það er kannski þetta að geta ekki sagt „nei“ og þá var maður kominn í hlutverkið og varð bara að láta sig hafa það.“

Og margir líta upp til söngvara. Og áheyrendur verða sumir skotnir í þeim.

„Ég segi stundum að ég sé strákur sem hafi ekki átt séns í stelpur nema af því að ég var í hljómsveit. Maður er enginn herra Ísland og maður fékk áður óséða athygli. Mér fannst gott að ég þurfti aldrei að taka ábyrgð á því; ef konur voru að horfa á mig eða karlar þá þurfti ég aldrei að akta á það. Ég gat farið baksviðs, lokað dyrunum og læst. Ég lét þar við sitja.“

Einar Ágúst er spurður hvort hann hafi aldrei verið skammaður fyrir að ganga of langt gagnvart konum.

„Jú, sérstaklega núna nýverið hefur mínu nafni alveg verið hent upp og allt í góðu með það. Ég er ekki ofbeldismaður eða kynferðisafbrotamaður en í seinni tíð hef ég átt auðveldara með að grípa til ofbeldis en ég gerði áður. Ég hef aldrei kunnað að slást og ég hef alltaf verið lítill í mér.“

Jú, sérstaklega núna nýverið hefur mínu nafni alveg verið hent upp og allt í góðu með það.

Einar Ágúst er spurður hvort hann hafi aldrei verið skammaður fyrir að ganga of langt gagnvart konum. Hvað finnst honum um umræðuna í dag um einstaklinga sem það hafa gert?

„Án þess að maður hendi undir lestina einhverjum nöfnum þá er þessi umræða löngu tímabær, það er löngu tímabært að gera eitthvað í þessum málum og það er löngu tímabært að skera upp herör gegn þessari ógeðslegu nauðgunarmenningu sem karlpeningurinn hefur haft á kvenþjóðinni frá upphafi mannkynssögunnar. Þá höfum við verið níðingar. Og þegar þessi umræða fór af stað nýverið, þá sagði ég „yes, nú er þetta að gerast“. Svo fer umræðan út um allt og maður veit ekki hvar maður hefur fólk.

Ég hef sjálfur þurft að upplifa það í gegnum tíðina að hafa mikið að segja, en ég hef kannski skemmt rosalega mikið fyrir sjálfum mér með skapinu. Ég get gert fólk frávita af hræðslu með lýsingarorðanotkun. Ef menn eru skapmiklir eins og ég og það kemur upp vandamál og maður æsir sig þá hef ég upplifað að maður sé þá búinn að taka svolítið það frá sjálfum sér að fólk taki eins mikið mark á manni. Þá er maður meira eins og vitleysingur eða bjáni. Ég held að fólk verði að passa sig svolítið á umræðunni í dag. Ég átti erfiðara með að rökræða og ræða málin í gamla daga. Ég var það lítill í mér að ef einhver kom að mér þá bara fraus ég. Svo fór ég heim og hugsaði að ég hefði átt að segja þetta eða hitt. Ég átti erfitt með að tjá mig langt fram á þrítugsaldur. Að standa fyrir mínu. Setja mörk.“

Ég held að fólk verði að passa sig svolítið á umræðunni í dag.

Ég hef sjálfur þurft að upplifa það í gegnum tíðina að hafa mikið að segja en ég hef kannski skemmt rosalega mikið fyrir sjálfum mér með skapinu. (Mynd: Róbert Reynisson.)

 

Handtökur og dómur

Einar Ágúst þekkir Bakkus og svo þekkir hann líka önnur vímuefni. Hann tekur fram að honum þyki samt miklu skemmtilegra að syngja og spila þegar hann er edrú.

Hann segist einu sinni hafa fengið dóm; það var fyrir vörslu á 55 grömmum af amfetamíni.

„Ég var handtekinn í sambandi við dóperí 2004. Og svo árið 2005 með öll þessi skotvopn í Vogum á Vatnsleysuströnd; 50 stolin skotvopn og ég fékk 40 löggur í heimsókn. Það hvarf byssusafn á Húsavík og félagi minn var staddur erlendis og hafði unnið í því fyrir eigandann sem hann þekkti að finna byssurnar. Það átti að senda þær úr landi og selja þær, skildist mér, og hvort að eigandinn fékk veður af því að félagi minn hefði bara stolið byssunum, og þá fékk hann lögregluna til að koma heim til okkar og ég var þarna einn að passa tvo hunda.“ Einar Ágúst segist ekkert hafa haft með þessar byssur að gera. „Hvað á ég að gera með skotvopn? Ég er reyndar mjög góð skytta. Ég fór á rjúpu og gæs. Höfum það á hreinu að eigandinn missti á endanum öll byssuleyfin og missti safnið; það var tekið af honum. Og við vorum ekki einu sinni ákærðir.

50 stolin skotvopn og ég fékk 40 löggur í heimsókn.

Ég var einnig handtekinn árið 2004 í tengslum við hið svokallaða Dettifossmál sem var innflutningur á 11 kílóum af amfetamíni. Þeir vissu af 25 kílóum af hassi skilst mér sem þeir náðu aldrei, löggan, en ég var þá að versla eiturlyf og var handtekinn með þessu fólki,“ segir tónlistarmaðurinn en hann var að kaupa eiturlyf á heimili eins sakborningsins í Dettifossmálinu þegar lögreglan gerði áhlaup og handtók alla viðstadda. „Ég var ekki einu sinni ákærður í því máli.“ Það breyttist þó margt í kjölfarið. „Ég sagði mig strax úr hljómsveitinni, hætti hjá útvarpsstöðinni FM þar sem ég vann og sagði upp hjá Íslenska útvarpsfélaginu, þar sem ég vann einnig, og fór í langa meðferð en hef ekki notið sannmælis síðan.“

Ég sagði mig strax úr hljómsveitinni, hætti hjá útvarpsstöðinni FM þar sem ég vann og sagði upp hjá Íslenska útvarpsfélaginu, þar sem ég vann einnig, og fór í langa meðferð en hef ekki notið sannmælis síðan. (Mynd: Róbert Reynisson.)

 

Sveimhugi

Hann, sem hefur opnað svona á sál sína og veikleika, segist hafa átt góða æsku en hann ólst upp í nágrenni náttúrunnar í Neskaupstað.

„Ég byrjaði á því ungur að detta alls konar sniðugir hlutir í hug. Var svolítið trúðurinn. Var svolítill sveimhugi – ef kennararnir voru of lengi að tala um algebruna þá var ég kominn út í glugga að hugsa um eitthvað annað. Bara strax í barnaskóla.“

Hann byrjaði ungur að leika í leikritum í skólanum og upplifði mikinn sviðsskrekk. Það er eitthvað sem hefur fylgt honum síðan.

„13 eða 14 ára var ég vélaður í einhverja söngvarakeppni. Þá var þar bassaguðinn sjálfur Guðni Finnsson. Þeir voru með hljómsveit sem spilaði undir og ég man að ég tók þátt með laginu Stand by Me og vann þetta og var þá vélaður í hljómsveit með eldri frænda mínum og bekkjarfélaga hans. Við byrjuðum strax að fá að spila á 17. júní og á uppákomum fyrir austan. Það var alltaf ofboðslega mikið tónlistarlíf og það voru engin bílskúrsbönd heima á Norðfirði. Bærinn reddaði húsnæði, það voru alltaf til græjur og þetta voru rosa forréttindi.“

Boltinn var byrjaður að rúlla.

Árin liðu og Einar Ágúst skemmti æ fleirum og varð frægari.

Svo var það Eurovison en Einar Ágúst og Telma Ágústsdóttir kepptu í Eurovision fyrir Íslands hönd árið 2000 með laginu Tell Me! Hann viðurkennir að það hafi verið mikið ævintýri en þau Telma höfðu stofnað hljómsveitina Einar Ágúst & Telma árið 2000.

„Mig dreymdi aldrei um peninga, kerlingar eða frægð og frama. Bara að fá að skemmta fólki og vera með. Það er þráin. Ég hélt ég hefði ekki það sem þyrfti til að bera en svo gerðist það með vinnu- og eljuseminni. Alveg sama hversu lítill maður var í sér; alltaf steig maður upp aftur. Ég á tugi af lögum sem hafa floppað. Ég á tugi tækifæra sem hafa farið úrskeiðis eða ekki farið vel, en það sem hefur gengið hefur gengið þokkalega upp. Allt í einu var hljómsveitin orðin þetta vinsæl og allt í einu var ég kominn í Eurovision.“

Mig dreymdi aldrei um peninga, kerlingar eða frægð og frama.

Einar Ágúst Víðisson

Hann sem hefur gengið grýttan veg segist vera kominn til að vera. „Ég er tónlistarmaður og ég ætla að vera tónlistarmaður. Ég ætla að verða á himninum með þeim stærstu án þess að álíta mig einhvern snilling eða einhvern betri en annan. Ég ætla að vera þarna uppi.“

 

Einar Ágúst Víðisson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -