Bergþóra Einarsdóttir sakar tónlistarmanninn Magnús Þór Jónsson, betur þekktur sem Megas, um kynferðisbrot gegn sér árið 2004. Samkvæmt Stundinni rannsakaði lögreglan málið sem blygðunarsemisbrot, talaði ekki við Megas og felldi niður málið. Ásamt honum sakar Bergþóra tónlistarmanninn Gunnar Örn Jónsson, úr dúettinum Súkkat, um sama brot.
Bergþóra var tvítug þegar hún réði sig til vinnu á veitingastað, þá nýflutt að heiman. Á milli þeirra hafði myndast smá vinasamband og hún treysti Megasi, þegar kom að hinu örlagaríka kvöldi. Hann kallaði hana Litlu ljót.
„Ég upplifði það sem þeir gerðu sem ofbeldi,“ segir Bergþóra sem fullyrðir að Gunnar hafi hvatt sig til að koma með sér í heimsókn til Megasar á Þórsgötu. „Ég fékk ekkert slæma tilfinningu fyrir því að fara til Megasar því ég treysti honum. Hann talaði svo fallega um kvenfólk. Þeir sögðu mér að hafa engar áhyggjur, þeir væru í hjálparsveitinni og ætluðu að kæta mig. Ég skildi það þannig að þeir ætluðu að vera til staðar fyrir mig sem vinir.“
Lömuð af ótta
Bergþóra var með hælsæri þetta kvöld og segir hún að þeir félagarnir, Gunnar og Megas, hafi boðist til að sleikja sárið. Gunnar hafi sleikt sárið en ekki látið þar við sitja. Hann hafi togað hana úr buxunum, sem rifnuðu við það, og afklætt hana að neðan. Bergþóra segist í samtali við Stundina ekki hafa trúað því að þetta væri að gerast.
„Ég hélt að þeir væru vinir mínir. Ég var svo ringluð, hvernig gátu þeir haldið að þetta væri í lagi? Ég fékk áfall, fraus og þorði ekki að gera neitt. Ég var í of miklu sjokki yfir því að þetta væri að gerast, í algjöru losti, dauðhrædd. Ég vildi bara passa að þeir færu ekki inn í mig. Mín leið til að lifa af var að halda fyrir kynfærin á mér.“
Daginn eftir segist Bergþóra hafa vaknað í aðstæðum sem voru „viðbjóðslegri en hún hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér“, með tvo nakta gamla karla við hlið sér. Bergþóra fékk taugaáfall.
„Ég gaf aldrei samþykki fyrir því sem þeir gerðu og þetta var aldrei það sem ég vildi. Ég var notuð. Þeir tóku frá mér eitthvert sakleysi sem ég skildi að ég fengi aldrei aftur og það var rosalega sárt. Ég gat ekki hætt að gráta. Tárin runnu bara.“
Kærði til lögreglu
Sex árum eftir atburðinn tók Bergþóra ákvörðun um að leggja fram formlega kæru á hendur Megasi og Gunnari. Þá komst hún að því að tilkynningin frá árinu 2004 hafði týnst. Sjö mánuðum síðar komst lögreglan að þeirri niðurstöðu að brotið væri fyrnt og ekkert við því að gera. Enn versnaði í því þegar ríkissaksóknari sá ekki tilefni til að endurskoða ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um niðurfellingu málsins vegna þess að hann taldi ásetning ekki sannaðan. „Mér finnst þetta bara ljótt,“ segir Bergþóra um niðurstöðuna í samtali við Stundina, sem var enn eitt áfallið vegna málsins.
„Í mörg ár losnaði ég ekki við reiðina og reiðin rænir þig orku og tætir þig upp að innan. Ég var ekki að kæra þá til að rústa lífi þeirra. Ekki frekar en að ég sé að stíga fram núna vegna þess. Ég vildi bara að þeir þyrftu að horfast í augu við að það sem þeir gerðu var ekki í lagi. Vegna þess að það var alls ekki í lagi.
Mér hefði líka liðið talsvert betur ef þeir hefðu beðið mig afsökunar, við hefðum rætt málin og gert þetta upp. En þeir gerðu það ekki.“