Þorbjörg Finnbogadóttir, móðir Magnúsar Freys Sveinbjörnssonar heitins sem árið 2002 varð fyrir hrottalegri líkamsárás sem dró hann til dauða, er miður sín yfir bók sem kom nýverið út. Höfundur bókarinnar er annar mannanna sem varð syni hennar að bana.
Baldur Freyr Einarsson var árið 2003 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að verða Magnúsi Frey að bana. Baldur hefur nú gefið út ævisögu sína, þar sem hann meðal annars lýsir árásinni á Magnús Frey.
Segir lýsingar ekki passa við dóm Hæstaréttar
Magnús Freyr var rétt kominn yfir tvítugt þegar mennirnir tveir ollu dauða hans með hinni grimmilegu árás.
Þorbjörg segir í samtali við Mannlíf að lýsingar Baldurs Freys af árásinni séu ekki í samræmi við raunveruleikann.
„Það er kafli í bókinni þar sem hann lýsir því þegar þeir lenda saman og segir að strákurinn minn hafi byrjað, sem er ekki rétt. Hann lýsir slagsmálunum og hvað hann er að hugsa á meðan hann er að slást við hann, þannig að þetta er bara eins og að lesa einhverja krimmasögu. Þetta er allt önnur lýsing heldur en ef þú lest hæstaréttardóminn um þetta mál. Hann er allt öðruvísi.
Mín upplifun er að hann sé að yfirfæra þennan verknað yfir á þolandann. Þeir voru tveir sem réðust á hann og hann nefnir að það hafi verið hinn sem veitti honum banahöggið, sem er bara ekkert vitað. En það var Baldur sem barði meira á honum.“
Finnst hann hvítþvo sjálfan sig
Í dómi Hæstaréttar segir að ljóst hafi verið samkvæmt framburði vitna að tilefni árásar Baldurs á Magnús Frey hafi verið smávægilegt. Eftir að Baldur hafi verið dreginn ofan af Magnúsi hafi hann kallað til félaga sinna um að veitast að honum og það hafi verið þá sem hinn maðurinn blandaði sér í árásina og réðist á Magnús.
Baldur er í dómnum sagður hafa slegið Magnús Frey mörg hnefahögg í höfuðið, veitt honum högg með höfðinu og sparkað með hné í höfuð honum og eftir að Magnús Freyr hafi fallið í jörðina hafi Baldur sparkað margsinnis af afli í höfuð hans með hné og fæti.
Þorbjörg segir að sér finnist Baldur vera að koma sér undan ábyrgð, að hann sé að hvítþvo sjálfan sig með því að segja frá hlutunum með þeim hætti sem hann gerir.
„Miðað við að maðurinn sé með söfnuð, hann segist vera að hjálpa ógæfumönnum og þykist vera búinn að vinna úr öllum sínum málum, þá finnst mér þetta voða skrýtið. Hann hefði getað skrifað ævisögu um sína lífsreynslu án þess að segja í smáatriðum hvernig þetta var. Hann hefði getað sagst hafa orðið manni að bana án þess að fara svona ofan í þetta.
Afturhvarf í sorgarferlið
Þorbjörg segist vera búin að eiga mjög erfitt síðan bókin kom út og hún las lýsingar Baldurs. Hún hafi í raun farið til baka í sorgarferlið.
„Maðurinn minn spurði mig hvort ég ætlaði að fara í vinnu. Ég verð nú bara að sjá hvað ég endist, en ég er allavega komin í vinnuna.“
Hún segir að sér finnist Baldur bara eiga að lifa sínu eigin lífi „og ekki vera að auglýsa þetta svona út um allar trissur.“ Henni þyki afar erfitt að þurfa að sjá andlitið á honum núna framan á bókakápum í öllum mögulegum verslunum.
Á sínum tíma þurfti Þorbjörg að eiga einhver samskipti við Baldur. Hún segir hann meðal annars hafa reynt að prútta miskabæturnar niður, en að öðru leyti muni hún lítið eftir samskiptunum. Sú djúpa sorg og áfall sem hún var í á þeim tíma hafi orðið til þess að allt sé dálítið óljóst í minningunni.
„Það er svolítið þannig í sorginni hjá mér, að ég man hlutina svona óljóst. Það virðist hafa lokast fyrir þetta bara.“
Hún segist upplifa að með skrifunum sé Baldur að vanvirða minningu sonar hennar.
„Hann er að því. Mér finnst það. Og hann er ekki hérna til að svara fyrir sig.“