Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við netsvindli í tengslum við tilboðsdaga kennda við Svartan föstudag, sem víða standa ýmist yfir í dag eða fram á mánudag.
„Fram undan eru miklir verslunardagar, Black Friday, Cyber Monday og jól. Fullt af fólki mun nú panta vörur á netinu. Þetta vita netsvindlarar og skipulögð glæpasamtök. Nú verður aukning á tilraunum til netbrota. Það er jafn árvisst og þessir dagar,“ segir í tilkynninguni.
Mælt er með því að fólk skoði vandlega öll skilaboð um að þeirra bíði pakkar. Lögreglan ráðleggur fólki að vera tortryggið.
„Tenglar sem fara með ykkur á slóðir þar sem þið eigið að skrá inn greiðslukort eru nánast alltaf svindl. Slík svindl eru oft sannfærandi og glæpamennirnir misnota einkenni þekktra fyrirtækja til að gera þetta meira sannfærandi. Skilaboð frá Póstinum eða DHL eru alls ekki endilega frá þeim og þau munu ekki biðja ykkur um að skrá inn kortin ykkar.
Verið meðvituð og sýnið aðgát og tortryggni ef þið fáið skilaboð um að ykkur hafi borist pakki.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ráðleggur fólki sem borist hafa slík skilaboð að láta lögreglu vita á [email protected] eða [email protected].