Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Draugagangurinn á Saurum: „samtímis fór ískaldur gustur um baðstofuna…“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vorið 1964 skók meintur draugagangur íslenskt samfélag og fjölmiðlar slógu hér um bil upp búðum á sveitabænum þar sem ósköpin áttu sér stað.

Saura-undrin

Það var sveitabærinn Saurar í Austur-Húnavatnssýslu sem öðlaðist skyndilega frægð þegar fréttir tóku að berast þaðan af undarlegum og, að því er virtist, óútskýranlegum aðburðum. Í Þjóðviljanum árið 1983 er sagt svo frá því sem átti sér stað á Saurum:

„Þar köstuðust borð og stólar til, leirtau hrundi út úr skápum, rúm hreyfðist og skápar fóru um koll. Hér gat tæpast verið um að ræða náttúrulegar hamfarir heldur miklu fremur yfirnáttúrulegar. Dögum saman voru blöð og útvarp undirlögð fréttum frá Saurum, þangað flykktust fréttamenn, forystumenn Sálarrannsóknarfélagsins, miðlar, jarðfræðingar, og veraldleg sem andleg yfirvöld.“

Þessir dularfullu atburðir voru oft kallaðir Saura-undrin og mörkuðu ákveðinn lokakafla í hrynu reimleikamála á öldinni.

 

Segja má að bærinn á Saurum hafi verið hið fullkomna leiksvið fyrir vel heppnaða draugasögu.

Jafnvel þó komið hafi verið vel inn á sjöunda áratuginn voru aðstæður þar enn nokkuð frumstæðar. Þetta var torfbær, með timburstafni og bæjarhúsin klædd að innan með timbri, á afskekktum stað, þar sem öldruð hjón bjuggu ásamt tveimur fullorðnum börnum sínum. Sonurinn var á fertugsaldri og dóttirin á þrítugsaldri.

- Auglýsing -

Það var Páll Jónsson, fréttaritari Tímans og skólastjóri á Skagaströnd, sem fór að bænum í marsmánuði árið 1964, þegar leikar stóðu hvað hæst, og skrifaði um það sem hann varð vísari. Þá höfðu atburðirnir átt sér stað í nokkra sólarhringa. Hjónin á bænum, Guðmundur Einarsson og Margrét Benediktsdóttir, tóku á móti Páli og Jóni syni hans.

Páll Jónsson skrifaði eftirfarandi um atburðarásina, eftir Guðmundi bónda:

Undrin byrjuðu 18. marz síðastliðinn kl. 1:20, og vaknaði Guðmundur þá við að borð, sem stendur út við stofugluggann, fór á hreyfingu og einn metra fram á gólfið frá glugganum.

- Auglýsing -

Borð þetta er gamalt og upprunalega vel gert, með sporöskjulagaðri plötu og renndum fótum. Borð þetta keypti Guðmundur hjá Sigurði Sölvasyni kaupmanni á Skagaströnd fyrir allnokkrum árum. Á miðvikudaginn kom svo hreyfing á borðið eins og fyrst, og var þá settur stóll út að glugganum. Stól þennan er hægt að leggja saman, og er hann ekki mjög veigamikill. Þeyttist stóllinn fram á mitt stofugólfið á miðvikudaginn og brotnaði.

Á fimmtudaginn var húsfreyjan Margrét Benediktsdóttir að skilja mjólk í búrinu, og hafði hún byttu með mjólk í á borði hjá sér. Allt í einu kom hreyfing á byttuna og kastaðist hún í gólfið og fór öll mjólkin úr henni. Það einkennilega var að konan fann ekki neina óeðlilega hreyfingu, hvorki á gólfinu né borðinu. Aðeins byttan steyptist í gólfið. Var því ekki um að ræða jarðskjálfta.

Bærinn á Saurum. Mynd: Þjóðviljinn 1983.

Vangaveltur um skipbrot og erlenda drauga

Íbúar á bænum urðu varir við atvik af svipuðum toga daga á eftir. Sama dag og Pál og son hans bar að garði hafði Sigurborg, dóttirin á bænum, lent í því að skápur féll án þess að hægt væri að finna nokkra orsök þar á. Það sem þótti merkilegt við fall skápsins var að tveir matardiskar sem voru í efstu hillu skápsins, duttu ekki úr honum, heldur aðeins það sem var í neðstu hillunum.

Guðmundur bóndi fór að velta vöngum yfir því hvaða árar gætu verið þarna á ferð. Hann rifjaði það upp þegar bátur fórst frá Saurum árið 1914. Þar höfðu fimm eða sex menn verið taldir af. Báturinn fannst marandi í hálfu kafi á Drangeyjarsundi, en hið undarlega var að mennina rak aldrei á fjörur. Því var á sínum tíma velt upp hvort hvalur hefði getað hvolft bátnum og mennirnir þar með horfið djúpt í vota gröf. Báturinn var gerður upp og seldur til Sauðárkróks, en eftir að róið hafði verið á honum í nokkur ár fórst hann aftur og fannst aldrei eftir það. Var þar maður sagður hafa farist með.

Guðmundur bóndi vildi ekki meina að hreyfing húsgagna á bænum hefði á nokkurn hátt líkst jarðskjálftum, sem hann hafði þó áður fundið. Hann sagði til dæmis að borðið hefði „hristst í höndum sér, verið eins og það væri lifandi, og spriklaði.“ Jarðfræðingurinn Guðmundur Kjartansson heimsótti bæinn og sagðist ekki geta gefið neina vísindalega skýringu á atburðunum.

Í grein Tímans er það sagt að munnmæli séu um að Frakkar eða Spánverjar nokkrir hafi verið grafnir (heygðir í dysi) á Framnesi, sem er skammt sunnan við Saura. Björgvin, elsti sonur hjónanna á Saurum sem búsettur var á Skagaströnd, sagðist hafa tekið steina úr dysinu árið áður, þegar hann hafði verið að búa í haginn fyrir æðarfugl. Þvertók fjölskyldan fyrir að þau hefðu orðið vör við eitthvað furðulegt á þeim tíma.

Prestar, fjölmiðlamenn, miðlar og listamenn

Eins og fyrr sagði var mikill gestagangur á bænum í tengslum við atburðina. Til að mynda kom þangað sjö manna hópur frá Sálarrannsóknarfélagi Íslands laugardaginn 21. mars.

Meðal þeirra var forseti félagsins, séra Sveinn Víkingur, og Hafsteinn Björnsson miðill. Blaðamenn frá hinum ýmsu miðlum létu sig ekki heldur vanta. Listamaður að nafni Baltazar kom með blaðamanni Fálkans, Jökli Jakobssyni. Hann var spænskur og fenginn sérstaklega á staðinn sem túlkur, ef ske kynni að draugarnir væru hinir hugsanlegu Spánverjar sem grafnir væru á Framnesi. Sóknarpresturinn, séra Pétur Ingjaldsson, og sýslumaðurinn á Blönduósi, Jón Ísberg, létu sig ekki vanta.

Þetta laugardagskvöld var haldinn heljarinnar miðilsfundur á bænum. Fjölmiðlar fengu ekki að vera viðstaddir hann, en séra Sveinn Víkingur lét þó hafa eftir sér að loknum fundinum að þarna hefði ákveðinn grunur orðið sterkari; að þarna væri um að ræða hulin öfl eða hina famliðnu.

Skyggnilýsing Láru og svokallað beinamál

Lára Ágústsdóttir miðill kom að Saurum daginn eftir og var þar með skyggnilýsingu. Að henni lokinni fullyrti hún að um væri að ræða framliðið fólk og gekk svo langt að segja að þarna væru sjódrukknaðir menn að láta að sér kveða.

Frásögn Láru var birt orðrétt í Tímanum þann 9. apríl, stuttu eftir atburðina. Þar segir hún meðal annars að hún hafi stutt olnboga á borð, þar sem hún sat ásamt húsráðendum og föruneyti sínu. Skyndilega hafi hún fundið borðið kippast til með hröðum sveiflum. Hún sagði það hafa verið eins og einhver hreinlega lyfti borðinu upp „með herðunum. Mér brá mjög við og öllum sem inni voru. Mér varð litið á Guðmund og varð hann alveg náhvítur, líkast og það ætlaði að líða yfir hann, og samtímis fór ískaldur gustur um baðstofuna…“

Lára sagðist einnig hafa skynjað mann sem hún sagði enskan. Hún sagði að manninum fylgdi stór hundur og að hún teldi hann hafa verið myrtan. Hún taldi miðað við útganginn á manninum að hann hefði verið skipstjóri.

Í grein Tímans segir:

„Við þessa frásögn Láru er ekki laust við að hugurinn hvarfli að danska skipinu sem rak á Hjaltabakkafjörur árið 1802 en skipstjórinn og hundur hans hurfu þá með undarlegum hætti og varð út af því stórfellt sakamál, svokallað beinamál.“

Bærinn á Saurum, kominn í eyði. Mynd: Þjóðviljinn 1983.

Blaðamenn með dólgslæti

Athyglisvert er að allur sá fjöldi blaðamanna sem komu til að rannsaka málið urðu almennt ekki varir við draugaganginn, fyrir utan að Grétar Oddsson blaðamaður Alþýðublaðsins sagði dívan sem hann sat á hafa hreyfst eitthvað undir sér.

Samkvæmt frásögnum voru blaðamenn raunar með nokkur dólgslæti á bænum; drukku mikið og heimtuðu að sjá draug. Svo fór að blaðamanni Vísis var vísað á dyr.

Jón Ísberg sýslumaður sagði á sínum tíma við blaðamann Þjóðviljans að hann teldi ekki ástæðu til að rengja framburð heimilisfólksins. Hann taldi atburðina ekki vera af mannavöldum. Í því samtali sagði hann fjölskylduna vera orðna hvekkta af öllum gestaganginum og símhringingunum. Taldi hann að því ætti að linna á þeim tímapunkti.

Í fjölmiðlum var bent á að aldrei hefðu tveir eða fleiri sjónarvottar séð atvikin gerast. Ástæða þótti einnig til að tilgreina að flest atvikin hefðu gerst í kringum konurnar á bænum.

Fóturinn

Ótal myndir voru teknar í heimsóknum fjölmiðlamannanna. Þegar ljósmyndari Alþýðublaðsins er síðan að skoða myndir á filmu hjá sér, sem höfðu þá ekki birst opinberlega, tekur hann eftir mynd af skápnum með leirtauinu sem dottið hafði fram fyrir sig. Skápurinn stendur þar þétt upp við dívaninn sem Grétar Oddsson, blaðamaður Alþýðublaðsins, hafði setið á og á myndinni mátti sjá fót sem stutt var við skápinn hinum megin.

Myndin var birt í fjölmiðlum þann 24. mars og því haldið fram að draugagangurinn hlyti því allur að vera af mannavöldum. Enn fréttist þó af svipuðum atburðum á Saurum eftir þetta, allt fram í apríl, þegar nágrannar voru sagðir hafa slegið þagnarmúr um bæinn og ekki væri lengur hægt að fá fréttir þaðan.

Blaðamaður Þjóðviljans kom að bænum árið 1983 til að kanna aðstæður. Þá bjó þar sonur hjónanna, Benedikt Guðmundsson. Hann hafði verið einbúi á bænum allt frá því stuttu eftir hina dularfullu atburði.

Hann vildi ekki ræða málið við blaðamann Þjóðviljans þegar hann bar að garði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -