Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Ótrúleg saga manns, sem var á flótta í 40 ár: „Ég trúði því bara hreinlega ekki“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Hjaltason, sagnfræðingur á Akureyri, stendur í ströngu þessa dagana við útgáfu þriggja bóka. Sem er út af fyrir sig fréttaefni. Einn höfundur, þrjár bækur, og það um sömu jól.

Þar er ævisaga Markúsar Ívarssonar, flóttamanns í 40 ár, Þessir Akureyringar sem er úrval grínsagna um „íbúa bæjarins þar sem góða veðrið var fundið upp“. Alltaf sami veðurhrokinn í þessum Akureyringum! Þriðja ritið ber nafnið Ótrúlegt en satt – Saga Akureyrar í öðruvísi ljósi, stundum skemmtilegu, stundum sorglegu, jafnvel vandræðalegu en alltaf fróðlegu.

Var í tæp 40 ár eftirlýstur af yfirvöldum 

Ævisaga Markúsar Ívarssonar er ansi merkileg, en hann baslaði hálfa ævina í Eyjafirði, var vinnumaður og bóndi og átti 15 börn með átta konum. Markús sat fangi í þrjú ár í Kaupmannahöfn og var í tæp 40 ár eftirlýstur af yfirvöldum. Lengst af útlegðarinnar bjó Markús á Snæfellsnesi og gekkst undir nafninu Sigurður Jónsson.

Eftirfarandi umsögn skrifaði Helgi Skúli Kjartansson um ævisögu Markúsar. „Merkilegt er það við aðferð Jóns Hjaltasonar hvernig hann getur lagst svo djúpt í heimildakönnun sem hann hefur sýnilega gert, og leyft þó hvergi rannsókninni að stela senunni af frásögninni. Frásögn sem rekur ekki aðeins lífshlaup þessa makalausa Markúsar, gripdeildir hans og barneignir, heldur umfram allt samskiptasögu hans við íslenskt samfélag. Samfélag þar sem svo óstýrilátur maður gat þrátt fyrir allt tekið sér olnbogarými til að lifa sínu ósamþykkta lífi. Stórmerkilegt!“

- Auglýsing -

En af hverju Markús? 

„Hann fangaði fyrst athygli mína þegar ég var að skrifa Sögu Akureyrar fyrir þó nokkrum árum síðan,“ segir Jón, höfundur bókarinnar og heldur áfram. „Og ég trúði því bara

Jón Hjaltason, sagnfræðingur og höfundur bókanna þriggja.

hreinlega ekki að maðurinn hafði verið eftirlýstur, á flótta undan réttvísinni, nær hálfa ævina.“

- Auglýsing -

Markús var eftirlýstur frá árinu 1881 og náði tvisvar það ár að flýja undan laganna vörðum. Seinna skiptið tókst honum að strjúka úr fangelsi og náðist hann ekki eftir það.

„Það vaknaði hjá mér áhugi að rekja sögu Markúsar og gefa í leið innsýn í tilveru forfeðra okkar með eins persónulegum hætti og mögulegt er.“

Þetta hlýtur að hafa tekið sinn tíma?

„Jú þetta er búið að vera margra ára heimildarvinna, sem ég loks gaf mér tíma til að vinna úr. En vissulega hef ég hlotið aðstoð góðs fólks við að rekja ferðir og ættir Markúsar, því verður að halda til haga.“

Hreinskilni í fyrirrúmi -mögulega of mikil?

Hið óvanalega við þessa útgáfu – fyrir utan vitaskuld að einn maður stendur að ritun bókanna – er hreinskilni höfundar, Jóns Hjaltasonar sagnfræðings. Í bókinni, Ótrúlegt en satt, játar hann heimsku sína og glöp. Og gengur svo jafnvel enn lengra í af-karlmennskunni þegar hann í gamansagnabókinni, Þessum Akureyringum, gerir lítið úr leyndarlim sínum og gefur í skyn stuttleika hans. Sannarlega hressileg lesning, verðum við að játa, og skemmtileg svona í aðdraganda jóla.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -