Maður hótaði fólki og lét illa í miðbæ Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan sex í gærkvöldi. Lögregla mætti á svæðið og handtók manninn en var hann í annarlegu ástandi og gisti fangaklefa.
Innbrot var tilkynnt i hverfi 101, hafði þjófurinn á brott með sér tölvubúnað.
Stuttu síðar barst lögreglu önnur tilkynning úr miðbænum eða um klukkan sjö í gærkvöld. Hafði þá ölvaður maður farið inn í verslun og var sá óviðræðuhæfur. Maðurinn neitaði einnig að gefa upp nafn sitt og var vistaður í fangaklefa vegna ástands.
Ekið var á gangandi vegfaranda í Kópavogi. Hlaut sá minniháttar meiðsli og ekki er vitað meira um málið að svo stöddu.
Þá hafði þriðji maðurinn látið illa í miðbænum en er sá grunaður um að hafa brotið rúður í hið minnsta þremur verslunum og var sá handtekinn. Kom í ljós að aðilinn var einnig með vímuefni í fórum sínum og gisti hann fangaklefa vegna málsins.
Lögregla stöðvaði ökumann klukkan tíu í gærkvöld vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá reyndist einnig vera án ökuréttinda og var farið með manninn á lögreglustöð í sýnatöku.