Rithöfundurinn Hrafn Jökulsson minnist góðvinar síns með hlýjum og fallegum minningarorðum í aðsendri grein. Vinur er Guðmundur M. Þorsteinsso,n eða Mundi á Finnbogastöðum eins og hann var gjarnan kallaður, sem lést 2. desember á gjörgæsludeild sjúkrahúss Akureyrar. Mundi var 78 ára að aldri.
Mundi bjó nánast alla ævi á Finnbogastöðum í Trékyllisvík þar sem hann var fjárbóndi en síðasta árið bjó hann á Sauðárkróki. Börn hans eru þau Guðbrandur, Linda, Þorsteinn og stjúpdóttirin Oddný.
Sjá einnig: Mundi á Finnbogastöðum látinn: „Ef eitthvað kemur upp á standa menn hlið við hlið“
Mundi var góður karl eins og flestir segja sem þekktu hann, rólegur og góður við fólkið í kringum sig. Þá var hann einstaklega hjálpsamur og greiðvikinn þegar leitað var til hans. Hann varð fyrir því áfalli að gamli bærinn hans, Finnbogastaðir brann til kaldra kola árið 2008 en með samtakamætti sveitunga hans, náðist að safna nægu fé svo hann gæti byggt nýtt hús sem hann bjó í þar til hann flutti á Sauðárkrók.
Mannlíf vottar aðstandendum samúð sína.
„Skaparinn var í hátíðarskapi þegar kom að því að skapa þann heim sem mennirnir kölluðu síðar Árneshrepp á Ströndum. Náttúran talar sínu máli sjálf — fátækleg orð duga skammt — en varla er til viðhafnarmeiri leikmynd og sönnunargagn um örlæti Guðs en Trékyllisvík, drottning Íslands og miðpunktur alheimsins. Reykjaneshyrna og Krossnesfjall eru útverðir við ysta haf, mikilfengleg bæði, rétt einsog Örkin sem dregin er mjúkum línum; tvíburarnir Árnesfjall og Urðartindur eru fagurlega klappaðir frá toppi til táar. Og fyrir miðju Víkurinnar er bergkastalinn ægifagri — Finnbogastaðafjall.
Undir þessu fjalli fæddist minn vinur Mundi og þar bjó hann langa og innihaldsríka ævi, sem einkenndist af þrotlausu starfi frá morgni til kvölds, alla daga í meiren sjötíu ár. Hann vinur minn var ekki bara hver annar dugnaðarforkur, mér fannst hann stundum vera Ísland sjálft holdi klædd, með veðrað andlitið og vinnuhendur, og jafnan stutt í góða sögu og smitandi hlátur.
Skapari himins og jarðar er húmoristi, það er eitt sem víst er, einsog svokölluð gráglettni örlaganna er til marks um. Árneshreppur á Ströndum er þannig miðpunktur sögu Íslands allt frá landnámi. Fyrsti landnámsmaðurinn var Eiríkur snara — þrautreyndur veiðimaður úr liði Geirmundar heljarskinns, hann valdi sér auðvitað Trékyllisvík að bústað og þar áttu rætur allir meiriháttar viðburðir Íslandssögunnar næstu þúsund árin. Sturlungaöld hófst með drápi Hneitis bónda í Ávík, grjótið sem notað var í Flóabardaga var sótt í Árnesey, galdrafárið hófst í litlu kirkjunni á sautjándu, draumórar um stöðuga gullöld og eilíft góðæri náðu hámarki í Djúpavík á 20. öld með stærstu steinsteyptu byggingu sem landið hafði séð. Þetta eru dæmi af handahófi sem sýna að Árneshreppur er ekki útnári norðan við hníf og gaffal heldur miðpunktur, upphaf ævintýra — og endir.
Grettis saga rekur byggðasögu Árneshrepps — Önundur tréfótur langafi Grettis var gestur í örlagaríku samkvæmi í Árnesi — en Finnboga saga ramma segir sögu frægasta innbyggjara sveitarinnar. Og það var undir fjalli Finnboga sem minn vinur Mundi fæddist og til Finnboga rakti hann ættir sínar. En hin mikla Finnbogastaðaætt á að formóður fátæka konu sem varð úti á Steinadalsheiði í Móðuharðindunum á 18. öld — börn hennar tvö urðu bændur í Árneshreppi og til þeirra má rekja marga helstu kosti mikillar ættar: Finnbogastaðaættarinnar hans Munda vinar míns. Uppgjöf er ekki til í þeirra orðabók, þar er hinsvegar dugnaður og drengskapur með gylltu letri, lífsgleði og óþrjótandi húmor og sagnalist.
Já, hann Mundi vinur minn kunni ekki að gefast upp, það var aldrei til umræðu, ekki einu sinni þegar hann slapp úr eldhafinu 16. júní 2008 með eitt viskustykki en bærinn brann til kaldra kola. Um kvöldið sat hann pollrólegur — eignalaus og aldraður öreigi í orði kveðnu en kóngur í sínu ríki sem eldurinn aldrei gat grandað — og lagði á ráðin með sínu fólki um nýtt hús og nýtt upphaf. Samstaða Finnbogastaðafólksins er rómuð og aðdáunarverð, og mætti verða öllum til eftirbreytni þegar á móti blæs.
Ég lærði ótalmargt af mínum vini, ekki síst þegar við þögðum saman. En það voru forréttindi að heyra sögur hans, hvortheldur af vegagerð í Kjörvogshlíð eða hvernig Þórður slapp af bálkestinum í Kistuvogi 20. september 1654. Mundi lýsti fyrir mér — í smáatriðum — hvernig Þórður bóndi barg lífi sínu með aðstoð nokkurra sveitunga. Þegar ég leyfði mér að efast um að einhverjir hefðu þorað að hætta lífi sínu til að bjarga galdramanninum frá Munaðarnesi, og það í viðurvist sjálfs Þormóðs Kortssonar sýslumanns var svar Munda hnitmiðað — og þaggaði niður í mér: ,,Það var hetja á hverjum bæ. Og ekki endilega þau sem töluðu mest.“
Um minn vin Munda gæti ég skrifað heila bók, og brunnur minninganna er ótæmandi.
Blessuð sé minning Munda. Guð blessi fjölskyldu hans og ástvini.“