Ritþjófamál Bergsveins Birgissonar heldur enn áfram að vefja upp á sig. Eftir að Bergsveinn sakaði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra að aðalstarfi, um að ræna frá sér hugmyndum í bókinni Eyjan hans Ingólfs þá steig Finnbogi Hermannsson, rithöfundur og útvarpsmaður, fram og sagði Bergsvein líklega hafa tekið ófrjálsri hendi efni úr bók sinni, Einræður Steinólfs, og notað sem sinn eigin texta.
Deilunn er þó fráleitt lokið því nú hefur Bergsveinn svarað og sakar Finnboga um að vera mesta þjófinn af þeim öllum. „Orðin hef ég þó ekki úr bókinni, heldur beint úr frásagnargleði Steinólfs frænda míns sjálfs, þar sem ég var svo lánsamur að fá að vera húsgangur á hans bæ í mínum ungdómi. Sú saga, með þessu orðalagi, var mér sögð löngu áður en Finnbogi heyrði hana,“ skrifar Bergsveinn á Vísi og segir að Finnbogi hafi í óleyfi endurútgefið Einræðurnar og merkt sig sjálfan sem rétthafa. Kröfu Finnboga um eignarrétt á orðum Steinólfs mætti helst líkja við það, að ef einhver sem tæki þátt í að gefa út ljóð Einars Benediktssonar myndi eigna sér ljóðin. Enginn þeirra þriggja sem liggja undir ásökunum hafa játað á sig misferli. Fólk fylgist grannt með framhaldi ritþjófamálsins ….