Ölduselsskóli í Seljahverfi er lamaður vegna fjölda smita. Allt skólahald fellur niður í dag vegna kórónuveirusmita hjá starfsmönnum og nemendum skólans.
Smit hefur komið upp í að minnsta kosti fimm árgöngum og hjá tveimur starfsmönnum skólans.
„Þetta olli því að aðrir starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví. Bæði vegna útsetningar hér innanhúss og svo eru einhverjir starfsmenn sem hafa verið útsettir fyrir smiti annarsstaðar og því er fjöldi þeirra sem hefði ekki getað mætt í skólann í dag,“ sagði Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla í Breiðholti, í samtali við mbl.is
Stjórnendur skólans munu funda með Almannavörnum ásamt Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar seinna í dag og verður þá tekin ákvörðun um framhaldið. Ekki liggur fyrir eins og er hversu lengi skólinn verður lokaður.
Alls eru 1373 virk smit innanlands og 1859 manns í sóttkví. Þá eru 17 á sjúkrahúsi og fimm á gjörgæslu vegna veirunnar.