Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Hrafnkatla er heilari og miðill: „Stundum á ég bágt með að skella hreinlega ekki upp úr sjálf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hrafnkatla Valgeirsdóttir skynjar ekki heiminn á sama hátt og margir aðrir. Mannlíf ræddi við þessa skemmtilegu konu um uppvaxtarárin á Blönduósi, jólin, andlegt ferðalag hennar í kjölfar fæðingar frumburðarins og söngheilunina sem vakið hefur athygli fólks að undanförnu.

Hrafnkatla Valgeirsdóttir er fædd á Blönduósi árið 1982 og bjó hún þar til sex ára aldurs en þá flutti fjölskyldan á Akureyri. Þar var hún í sjö ár og sneri aftur heim á Blönduós þegar hún var að byrja í 8. bekk.

„Foreldrar mínir búa ennþá á Blönduós, bróðir býr í Reykjavík og systir í Njarðvík. Er með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Kópavogi, Bs gráðu í hjúkrunarfæði frá Háskóla Íslands og svo byrjaði ég í Guðfræði haustið 2020 og kláraði eina önn með stæl en fann að þetta var ekki leiðin,“ segir Hrafnkatla og heldur áfram, „ég er einhleyp og á fjóra drengi, er að ala upp tvær kynslóðir sem er rosalega lærdómsríkt. Drengirnir eru 16, 14, 5 og 3 ára. Eldri drengirnir eiga sama pabba og yngri sama pabba, sem sagt tveir barnsfeður.“

En hvernig var að alast upp á Blönduósi? Ber Hrafnkatla sterkar taugar norður?

„Ég átti æðisleg uppvaxtarár á Blönduósi í faðmi foreldra, systkina, ömmu og afa báðu megin og frændfólks. Áfram var svo yndislegt á Akureyri í fyrstu bekkjum grunnskóla. Byrjaði að æfa handbolta og frjálsar íþróttir 11 ára á Akureyri og þótti fljótt mjög efnileg í báðum íþróttum. Þegar ég flutti heim á Blönduós var ég í þvílíkum uppgangi í boltanum en það lognaðist út mjög fljótt þar sem svo fáir voru að æfa handbolta á Blönduós að vart náðist í lið. Það reyndist talsvert erfitt fyrir unglingsstúlkuna Hrafnkötlu að hætta í handboltanum.

Var aðeins lengur í frjálsunum en það lognaðist einnig út af í kjölfarið og var það svona meira vegna þess að gelgjan var farin að segja all verulega til sín og hvorki töff lengur að vera í íþróttunum né að vera með vöðva. Ég ber mjög sterkar taugar til Blönduósar og finnst æðislegt að komast úr höfuðborginni og kíkja norður til mömmu og pabba. Gæti þó ekki flutt á Blönduós því borgarlífið hentar mér einhvern betur en smábæjarlífið. Flutti suður 21 árs og búið þar síðan, fyrst í Grafarvoginum og síðan verið í Grafarholtinu frá 2007.“

- Auglýsing -

 

Hrafnkatla er brosmild kona
Mynd: Aðsend

 

Hrafnkatla skynjar heiminn svolítið öðruvísi en flest fólk en hún er bæði heilari og miðill. Hvernig byrjaði það?

- Auglýsing -

„Sem barn var ég víst rosalega róleg og sjálfri mér næg. Algör dundari segir mamma mín. Á þann hátt að ég gat setið tímunum saman kyrr með sama dótið. Varðandi næmni af einhverju tagi þá var hún vissulega til staðar frá fyrstu tíð í formi þess að ég skynjaði mjög sterkt hvernig fólki leið hverju sinni. Á einum degi gat það verið þannig að ég upplifði allan tilfinningaskalann allt frá mikilli sorg til mikillar hamingju og var það þá minnst af mínum eigin tilfinningum heldur frá umhverfinu.“

En svo breyttist allt. „Árið 2005 þegar ég er 23 ára hefst kröftugt andlegt ferðalag strax eftir fæðingu fyrsta barnsins míns með gríðarlegri opnun á andlega heiminn sem fólst í næmari skynjun á allan hátt. Ég réð alls ekki við þessa breytingu og var lögð inn á geðdeild með barnið mitt í tvær vikur þegar hann var aðeins tveggja vikna gamall.“

Hrafnkatla var fljót að ná sér en við tók erfitt tímabil. „Ég var fljót að ná mér en við tók eins og hálfs árs tímabil þar sem ég upplifði mig mjög eina á báti með mína skynjun í nokkur ár með þessa nýtilkomnu auknu skynjun og upplifði að ég gæti ekki tjáð mig um þetta við neinn. Það breyttist síðan heldur betur eftir að ég fór á fyrsta andlega námskeiðið en það var hjá Garðari Jónssyni miðli. Þá komst ég loksins í kynni við fólk á sömu bylgjulengd sem ég er ennþá í miklu sambandi við. Meðfram námskeiðum sem ég hef farið reglulega á í þessi 17 ár var það þannig að ýmis verkefni í lífinu sem reyndu á opnuðu meira og meira inn á tenginguna við andans heiminn. Má þar nefna lífsreynslur eins og skilnaði, ofbeldi, andlega vanlíðan og örmögnun.“

Þegar blaðamaður Mannlífs spyr Hrafnkötlu um hennar stærstu sigra á lífsleiðinni var hún fljót að svara. „Þessu er fljótsvarað. Að ganga með og koma fjórum börnum í heiminn eru algjörlega það magnaðast sem ég hef upplifað. Stærsti sigur er tengist andlegu þróuninni er að umbreyta hroka sem ég bar með mér í algera auðmýkt.“

En nú er að koma jól og þá verður maður að spyrja hvort hún sé jólabarn.

„Ég var gríðarlega mikið jólabarn þegar ég var yngri og fékk að fara til ömmu og afa á Blönduósi um leið og jólafríið hófst til þess að undibúa jólin með ömmu, skreyta, baka og pússa silfrið. Eftir að þau fóru yfir í andans heiminn hafa jólin aldrei verið söm en urðu mjög ánægjuleg eftir að börnin fóru að koma í heiminn.“

 

Hrafnkatla í náttúrunni
Mynd: Aðsend


Blaðamaður Mannlífs tók eftir tali Hrafnkötlu um „Hinn fjólubláa loga“ á Facebook og vildi endilega fá útskýringu á því fyrirbæri.

„Ég miðla meistara sem er meðlimur í Helgistjórn jarðar. Hún er nokkuð þekkt hér á jörðinni innan þess sem kallast Guðspeki. Innan hennar eru uppstignir meistarar sem hafa gengið á jörðinni líf eftir líf í gegnum miklar þjáningar og niðurlægingu af ýmsu tagi og náð svokallaðri uppstigninu. Hann kallar sig Meistara R eða Greifann af St. Germain. Fjólublái loginn táknar 7. geisla sem stendur fyrir Umbreytingu og Meistari R stýrir þeim geisla. Meistari R er í forsvari fyrir Gullgerðarlistina (E: alchemy) þar sem m.a. er verið að breyta andlegum sársauka í reynslu sem nýtist einstaklingnum til góðs þannig að hann geti nýtt sársaukann til að hjálpa öðrum. Líkt og að breyta málmi í gull.“

 

Hrafnkatla tekur Titanic á þetta
Mynd: Aðsend

Mjög áhugavert svo ekki verði meira sagt. En nú bíður Hrafnkatla ekki aðeins upp á hefðbundna miðlun og heilun heldur einnig upp á eitthvað sem kallast söngheilun sem hefur verið að vekja athygli. Hvað í ósköpunum er söngheilun?

„Ég hef verið sísyngjandi frá fæðingu nánast. Rosalega fljót að pikka upp bæði lög og texta. Fór tvær annir í söngnám hjá Gísla Magna. Fyrir um þremur árum fara söngurinn og heilunin að tengjast. Fyrst með notkun laga sem eru til og eftir aðra, síðan fara að koma lög og textar í flæðinu sem eru persónuleg til hvers og eins kúnna. Einnig oft á tíðum alls konar tónar og hljóð, sum hver mjög furðuleg og hreinlega eins og það séu hljóðfæri á svæðinu. Stundum á ég bágt með að skella hreinlega ekki upp úr sjálf,“ segir hún og hlær. Hún heldur svo áfram. „Enginn heilunartími er eins og ekkert undibúið. Ekki frekar en þegar ég er að miðla þá er ekki hægt að undirbúa neitt því það flæðir bara í gegnum mig orkar eða upplýsingar sem eru til viðkomandi. Í söngheilunni er tíðnin í söngnum notuð til heilunar á bæði efnislega og andlega líkamanum. Tíðnin er stillt eftir því hvað hentar viðkomandi og hvað er verið að vinna með hverju sinni.“

Skemmtilegt greinilega. En að lokum, hvað ber framtíðin í skauti sér? Þá meina ég bara hjá þér og þínum, ekki hjá þjóðinni allri eins og þegar völva Vikunnar er spurð. 

„Sinna hlutverkinu sem ég valdi mér áður en ég kom í þetta jarðlíf. Koma börnunum mínum vel á legg þannig þau upplifi sig sjálfstæð og séu fær um að standa vel og styrk á eigin fótum. Við ætlum að njóta lífsins i botn saman. Þeir fá að velja sína leið hver fyrir sig og munu fá fullan stuðning þó að þeir misstígi sig eða velja hreinlega allt aðra leið. Eins líka að vera til staðar fyrir fólk sem þarf á minni þjónustu að halda er kemur að heilun og miðlun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -